30 október 2005

Enn um óperukvöldið

Ég var svo uppnuminn af þessu óperuævintýri að ég ætla að hafa aðra færslu um kvöldið góða. Þessi umfjöllun verður þó af öðrum toga, þ.e. ég hyggst skrifa um ferð mína í óperuna.
Þannig stóð til að sama kvöld og Birni bauðst að fara, með mætum vinum sínum frá Svíaríki , að sjá óperuverkið alræmda Turandot átti hann að elda fyrir matklúbb. Til að allt gengi upp þurfti því maturinn að vera tilbúinn klukkan 18:00 því óperan byrjaði klukkan 20:00. Það vita kannski ekki allir að óperan, ólíkt fyrirlestrum í Háskólum, byrjar á tilskyldum tíma og þá er húsinu læst. Seinkomufólk fær ekki að koma inn fyrr en í hléi (ef það er heppið). Til að hafa vaðið fyrir neðan mig matbjó ég því fyrir tilskilinn tíma og rauk svo út. Ég var kominn út á strætisvagnabiðstöð klukkan tíu mínútur yfir sex. Ég hafði séð á netinu að ferðin ætti að taka fjörutíu til fimmtíu mínútur og ég þurfti að taka strætisvagn, lest og svo annan strætisvagn. Fjöldi farartækjanna dróg ekki úr mér móð því eins og dyggir lesendur þessa bloggs vita þykir mér gaman að taka strætó.
Ferðin gekk framan af eins og í sögu. Fyrsti vagninn var um hálftíma að keyra frá Lyngby til Nørreport, samkvæmt áætlun, þar skipti ég svo yfir í neðanjarðarlestina. Lestin beið eftir mér með dyrnar opnar þegar ég kom og ég fór að velta fyrir mér hvort ég hefði ekki betur borðað áður enn ég lagði af stað, þar sem ég var í versta falli á áætlun og með meiri en nógan tíma til stefnu. Þá tók annað við.
Ég fór úr neðanjarðarlestinni á Christianshavn St. og rölti að síðustu stoppistöðinni á ferðaáætluninni. Þegar ég kom upp úr lestinni blasti hins vegar við mér geigvænleg sýn. Firnin öll af lögregluþjónum á mótorhjólum og bílum höfðu stillt sér upp við hver einustu gatnamót á löngu bili. Mitt á miðri götunni stóð svo vagn, með sama númeri og ég átti að taka, með stöðuljósin á. Reyndar var þessi vagn að fara í öfuga átt við það sem ég átti að fara. Hryðjuverkaóttinn gerði vart við sig og ég velti fyrir mér hvort þarna væri um sprengjuhótun að ræða, en lögreglan gerði ekkert til að halda fólki frá svæðinu þ.a. sú pæling var fljótt útilokuð. Ekkert virtist gerast, annað en að löggan stöðvaði alla umferð og umræddur vagn stóð kyrr á miðri götunni, fullur af farþegum með vagnstjórann undir stýri. Eftir 10-15 mínútur af þessu byrjuðu lögregluþjónarnir að aka af stað einn af öðrum. Síðan keyrði vagninn af stað, eins og ekkert hefði í skorist. Meðan á þessu stóð skaut ég rótum við biðskiltið og horfði angistaraugum á vagninn og lögreglumennina á víxl. Jafnframt horfði ég leitaraugum eftir vagninum mínum, sem ekkert bólaði á.[1] Einn vagn, sem átti að koma á meðan skrípalætin í löggunni fóru fram, kom ekki. Eftir að löggan var farinn og klukkan náði þeim tímapunkti er áætluninn sagði að næsti vagn ætti að koma kom enginn vagn. Sem sagt tveir vagnar í röð komu ekki. Ég var orðinn svolítið órólegur (og svangur) en beið eftir næsta vagni. Næsti vagn kom á réttum tíma mér til mikillar ánægju. Mér til engrar ánægju hinsvegar var kominn 1stk vagnsfyllir af fólki sem var að bíða eftir þessum sama vagni. Óperuþyrstir danir í kjólfötum tróðu hvern annan oní drullusvaðið til að kreistast inn í vagninn um leið og hann stöðvaði. Vagninn hafði greinilega fengið svipaðar móttökur á fyrri biðstöðvum og var langt því frá að vera tómur. Þannig fór því að ég og hinir veikbyggðari danir, sem ekki höfðu haft þrótt til að taka þátt í slagnum, stóðum eftir og biðum eftir næsta vagni. Þegar hér var komið sögu var ekki nema um förutíu mínútur í sýningu og mér var ekki farið að lítast á blikuna. Dönunum var ekki heldur farið að lítast á blikuna þegar næsti vagn kom ekki og fólkið byrjaði hvert á fætur öðru að veifa til sín leigubíla. Ég var orðinn of svangur til að standast freistinguna lengur. Ég sá að næsti vagn átti að koma eftir tíu mínútur og hljóp ég því eins og fætur toguðu yfir götuna og inní sjö-ellefu verslun og keypti mér pylsutilboð. Nóg var að gera í búðinni, þ.a. þegar ég sté út með pylsuna mína hafði ég tvær mínútur þangað til að vagninn ætti að koma. Ég hafði séð hvernig vagnstjórarnir, af mikilli mannvonsku, vísa svöngum matvælaneytandi væntanlegum farþegum frá þar sem ekki má hafa opin matarílát í vagninum. Ég gat heldur ekki stungið pylsunni í vasann þ.a. mér tókst að gleypa pylsuna í heilulagi og sturta í mig hálfum lítra af kakómjólk á áðurnefndum tveimur mínútum.
Ég var aftur kominn út á biðstöð. Ég horfði á klukkuna og taldi niður 10, 9, 8, 7, 6, 5, 4, 3, 2, 1 ... NÚNA ... en það kom engin vagn ... -15, -16, -17, ...-103, -104 ... Það var nokkuð greinilegt að enn og aftur væri enginn vagn. Ég var kominn að þeim tímapunkti að taka til fótanna og hlaupa í óperuna. Aðeins var um hálftími til stefnu og kortér í næsta vagn. Ég ákvað samt síðan að þar sem ég hafði ekki græna glóru um hvar þetta óperuhús var væri best að hætta á að bíða eftir næsta vagni, frekar en að æða út í náttmyrkrið eins og fætur toguðu.[2]
Næsti vagn kom loks skröltandi á eftir pylsusala sem keyrði heimleiðis á sölubásnum sínum. Það er ástæða fyrir því að pylsusölubás hefur aldrei unnið í kvartmílu. En núna var ég kominn um borð í vagninn og stefnan loks tekin á óperuna. Ég kom í óperuna, u.þ.b. tíu mínútur í, þar sem ég fékk hlýjar móttökur og skemmti mér konunglega, eins og lesa má um í eldra bloggi.


[1] Höfundur vill taka fram að þó svo gefið sé í skyn að hann hafi fjöldamörg augu sem öll þjóni ólíkum tilgangi þá er ekki um slíkt að ræða. Höfundur er ekki átteygður eins og kónguló þó svo ætla megi að hann hafi leitaraugu, angistaraugu, gleraugu, venjuleg augu gagnaugu og gæti látið festa á sig ástaraugu. Hann hefur aðeins venjuleg augu og gleraugu. Hin augun falla undir þessa áðurnefndu tvo augnflokka nema gagnaugun, en það er önnur saga.

[2] Ekki var nægur tími til að beita Random Walk leitaraðferðinni.

29 október 2005

Kvöldstund í óperunni

Ég fór, á fimmtudaginn var, í óperuna. Andri og Kolla voru svo almennileg að bjóða mér með sér og ég skemmti mér konunglega. Óperan sem farið var að sjá heitir Turandot og er eftir Puccini. Þetta var víst hans síðasta verk en þó ekki hans sísta. Leikritið fjallar um ungan prins í útlegð frá ríkis sínu sem verður ástfanginn af kínverska prinsessuskassinu Turandot. Turandot er ekki hrifin af giftingartilhugsuninni og lætur því hálshöggva alla vonbiðla sína ef þeir geta ekki svarað þremur gátum er hún leggur fyrir þá. Turandot er fögur og notar obsession frá Calvin Klein (eða eitthvað sambærilega fínt ilmvatn) því ungi prinsinn verður friðlaus af ást eftir að líta hana augum eitt augnablik og finna angan af ilmvatni hennar.
Ég ætla nú ekki að breytast í myndbönd mánaðarins og kjafta öllum söguþræðinum, en ætla í stað þess að segja, enn og aftur, að þetta er fín ópera og inniheldur meðal annars hið fræga lag Nessun Dorma, sem er víst orðið einkennislag Pavarottis.
Þessi ópera var bönnuð í Kína um áratuga skeið þar sem Kínverjum þótti hún draga upp ljóta mynd af Kína. Hún var hinsvegar aftur tekin í náð á tíunda áratug síðustu aldar og var sett upp heljarennar sýning. Þar komu fram margir af bestu óperusöngvurum heims og Kristján Jóhannsson þar á meðal. Hann fór með hlutverk aðalpersónunnar, unga prinsins.
En og aftur vil ég þakka Kollu og Andra fyrir að bjóða mér með og ég vona að þau eigi sem ánægjulegasta helgi hér í kóngsins København.

25 október 2005

Strætó

Mér finnst, satt best að segja, nokkuð gaman að taka strætó hérna í Danmörku. Hann gengur nokkuð títt og vegalengdirnar eru hæfilega langar. Þegar ég segi hæfilega langar á ég við að það gefst ágætis tími til að góna út um gluggann og reyna að hugsa um ekki neitt í smástund. Stundum lendir maður á hressum vagnstjórum sem ákveða að nota hátalarakerfið í vagninum til að fara með dægurmál, t.d. um daginn þegar litli danski prinsinn fæddist. Þá var ég einmitt í strætó og með reglulegu millibili kom vagnstjórinn með fréttaskot: "Litli kúturinn vóg 14 merkur og fyrstu myndirnar voru teknar af honum rétt í þessu"; eða eitthvað í þessum dúr.
Það er líka nokkuð gaman að fylgjast með því hvernig fólk hér fer eftir hinum skráðu og óskráðu reglum strætisvagnsins. Hér fer fólk hispurslaust eftir reglunum hver á að sitja hvar, ef kona kemur inn með barnavagn er samstundis staðið upp úr barnavagnastólunum. Sömuleiðis ef aldrað fólk kemur í vagninn eru fráteknu sætin samstundis rýmd. En síðan eru það óskráðu reglurnar.

  • Allir eiga að sitja og horfa út um gluggann eða út í loftið. Aðeins má víkja frá þessari reglu ef þú þekkir einhvern í vagninum. Þá má tala við viðkomandi.

  • Það er stranglega bannað að setjast við hliðina á öðrum farþega fyrr en a.m.k. einn farþegi er í hverri sætaröð.

  • Undantekningin á þessari reglu er þó þegar aftast í vagninum eru fimm sæti í einni röð. Þá skal samt hafa a.m.k. eitt sæti á milli farþega og helst ekki að setjast þar fyrr en engin laus sætapör eru eftir.

  • Ef þú þarft að setjast við hliðina á öðrum farþega þá ber þér að færa þig um leið og sætapar losnar.



Viðurlög við broti á hinum óskrifuðu reglum strætisvagnsins eru skrítin augnaráð frá öðrum farþegum og tilheyrandi hugsanir þeirra um hvað afbrotamaðurinn sé skrítinn.

Ég fylltist einmitt stolti í strætó í dag. Ég sat einn og horfði út um gluggann. Vagninn var fullur í þeirri merkingu að ekki var neitt sætapar laust. Ég sá gróflega með endurspeglun úr rúðunni að lokkaprúð stúlka kom inn í vagninn. Hvað veit ég fyrr en hún hefur vegið og metið kostina af sætisfélögum og ákvað að setjast við hliðina á mér. Ég gerði í því að sitja beinn í baki og glæsilegur án þess þó að líta frá rúðunni. Tíminn leið og ég tók eftir því að farið var að fækka í vagninum. Ég tók líka eftir lausum sætapörum. Stúlkan færði sig hvergi. Núna var ég ánægður. Þessi stelpa var svo hrifin af mér að hún þverbraut allar velsemdarreglur strætisvagnanna til að sitja við hliðina á mér. Löngu seinna þurfti ég að fara úr vagninum og því fylgdi sá heiður að biðja stúlkuna að víkja frá. Ég fékk næstum því hjartaáfall þegar ég sá að stelpan reyndist vera illa lyktandi rastafari með dreadlokka sem hefðu fengið Marley til að snoða sig. Héðan í frá horfi ég út um gluggann, ekki á spegilmyndir.


Úr Gríslenskri Morðabók:

Sætapar: 1. no Tvö sæti hlið við hlið. Við hvert borð í skólastofunni var sætapar

2. Spendýr af flokki fremdardýra. S finnast einkum í frumskógum Súmötru. S hafa rauðleitan feld og eru ósköp sætir.

3. Kærustupar sem er sætt, einkum fyrir að bjóða einstæðingum í óperuna.

24 október 2005

Litlu gleðistundirnar

Litla hjarta mitt fylltist gleði er ég kom inn í þvottahúsið. Reyndar ekki alveg á því augnabliki, heldur stuttu seinna. Ég hafði tínt saman öll fötin mín þurfti að þvo og flokkað þau eftir kúnstarinnar reglum. Mér fannst ekki réttlætanlegt að setja eina flík sér í vél, svo með smá hagræðingu og endurskilgreiningu á litum og efni nokkurra flíka fækkaði ég þessu niður í tvær aðskildar vélar. Hvor vél um sig myndi ekki vera nema hálffull og kostnaðurinn tvöfaldur miðað við að geta komið öllu í sömu vél, en svona varð þetta að vera. Þess vegna fylltist litla hjarta mitt gleði, eins og áður sagði, þegar ég komst að því að gjaldfærslukerfið í þvottahúsinu var bilað og því ókeypis að nota þvottavélar og þurrkara. Þar að auki var líka laus þvottasnúra svo ég gat hengt upp þvottinn minn að þvotti loknum.
Dönsku stelpurnar nýttu tækifærið og skelltu sér með þvottinum, fyrst það var ókeypis.

23 október 2005

Fugle Influenza

Þegar fréttir bárust af fuglaflensu í Tyrklandi og Búlgaríu hugsaði ég með mér að enn væri, líkast til, dágóður tími áður en pestin bærist hingað. "Það þarf örugglega ekkert að hugsa um þetta fyrr en farfuglarnir fara að flykkjast hingað með vorinu." Svo rak ég augun í það í dag að þetta er þegar komið til Svíþjóðar og að í Bretlandi fannst m.a.s. H5N1 afbrigði. Fyrir þau sem ekki vita er það veiran sem getur borist í menn með hvimleiðum afleiðingum.
Tilhugsunin var öðruvísi þegar þetta greindist í Suðaustur-Asíu en núna þegar óværan bankar á dyrnar í Norður Evrópu er mér ekki um sel. Gott að vita að ég er í órafjarlægð frá Stokkhólmi. Vonum bara að fuglarnir haldi sér frá Danmörku. Það er best þannig. Annars sýnist mér á öllu að það styttist í að látið verði reyna á bóluefnahafið sem Vestur-Evrópu þjóðirnar hafa birgt sig upp með. Þó svo ýmislegt bendi til þess að það muni ekki hafa áhrif á öll þau ótal afbrigði af veirunni sem komið hafa fram. Enn minni líkur að það virki á öll þau afbrigði sem hún getur stökkbreyst í.
Ég skil ekki alveg afhverju það kemur allt í einu fram veira sem stökkbreytist hratt svo enginn getur rönd við reist, en flestar aðrar plágur taka sér að því er virðist fjöldamörg ár til að breytast. Fjölmiðlarnir segja okkur að hafa ekki áhyggjur, það er best þannig. Ég á nafnadag 18. júní :)

Aftur í Mörkinni

Þá er ég kominn aftur í Mörkina. Þar með hefjast nú aftur sögur af hjólaferðum út í búð og samskiptaörðugleikum við innfædda. Reyndar hef ég ekki enn lent í neinum hrikalegum samskiptaörðugleikum, en hef engu að síður ákveðið að vinna aðeins í orðaforðanum. Ég fann nefninlega danska lestrarbók, Mosaik, sem vekur upp ýmsar minningar úr menntó. Ég man sérstaklega eftir því hvað mér þótti ógeðslega leiðinlegt að glósa síðu eftir síðu af, því sem virtist, endalausum lestrarköflum um málefni sem voru nógu leiðinleg til að kæsa hákarl. En núna, þegar ég les þetta aftur, milljón árum síðar er þetta ekki svo slæmt. Enginn leskaflinn er lengri en fjórar síður og flestir þeirra eru nokkuð skemmtilegir og vekja lesandann til umhugsunar. Ég veit ekki hvað ég var alltaf að nöldra og kvarta í denn.

21 október 2005

Afturför

Það er kominn tími til að halda aftur til Danmerkur, eftir ósköp indæla viku hérna heima. Meðferðin hefur verið allt að því konungleg, það mætti ætla að ég hefði verið í burtu í tíu ár, ekki sex vikur. En núna fer ég aftur út, aðrar sex vikur. Þetta hefur verið mjög afkastamikil vika hvað varðar flest málefni er lúta ekki að skólanum, en ég kom nánast engri skólavinnu í verk. En það gerir svo sem ekki mikið til.
Eitt af því sem ég kom í verk, hins vegar, var að kaupa hákarl. Nú styttist nefninlega í hina svokölluðu TDC kvöld á kollegiinu mínu. Fyrir þau ykkar sem ekki vita hvað það er þá er það (enn ein) fyllirís hefðin þar sem farið er á milli herbergja og hvert herbergi býður upp á drykki í einhverju þema. S.s. hvert herbergi hefur sitt þema og gefur tvo drykki á gest. Ég ákvað að hafa íslenzkt þema og bjóða upp á kæstann hákarl og svartadauða. Núna er ég hins vegar að berjast við að pakka hákarlinum inn í nógu marga plastpoka svo lyktin skemmi ekki öll fötin mín. Síðan verður að loftræsta herbergið mitt eftir TDC kvöldið, ellegar lykta eins og kæstur hákarl það sem eftir lifir Danmerkurdvalar.
http://www.hai-society.org/
Hérna er mynd af hákarlinum, áður en ég dróg hann upp í fjöruborðið og kæsti hann rækilega.

18 október 2005

Þið hin trúlausu

Það voru nokkrar raddir sem drógu í efa frásögn mína af góðviðri hérna á Íslandi. Ég rölti því niður í Nauthólsvík og lét smella af mér einni mynd. Ef vel er athugað má sjá ananasinn góða í sandinum við hliðina á mér.

Þar sem myndavélin lýgur ekki hljóta hinir örfáu einstaklingar sem ekki tóku mig trúanlega að bíta í það súra epli að hér er barasta fínasta veður.

17 október 2005

Bíóbrjálæði

Ég, bíósjúklingurinn sjálfur, hafði ekki farið í bíó síðan ég fór af klakanum fyrir mörgum mannsöldrum síðan. Mikil bíó-spenna hlaðist upp. Þess vegna hef ég nú mætt fíkninni með bíóferðum á bíóferðir ofan. Ég hef þegar séð Flightplan og Wallace and Gromit, Curse of the Were-Rabbit og áður en ég sný aftur til Danmerkur mun ég reyna að sjá Cinderella Man og helst hverja einustu sorpleif sem Hollywood hefur gubbað út úr sér og er í kvikmyndahúsum Reykjavíkur. Ef fólk getur gefið meðmæli eða viðvaranir við sérstökum kvikmyndum þá tek ég við þeim hérna á síðunni, annars mun ég neyðast til að fara á sem flestar myndir.
Þrátt fyrir sorpleifa-kommentið þá var ég nokkuð hrifinn af þessum myndum sem ég hef séð. Ég mæli sérstaklega með Wallace og Gromit, ég brosti út í annað og rúmlega það.

Skrítnir draumar

Ég var að lesa um skrítna drauma á bloggsíðunni hennar Ásdísar og ákvað að segja frá frekar undarlegum draum sem mig dreymdi. Mig dreymdi að ég fyndi leynikjallara í kollegíinu sem ég bý á og þar niðri voru leynihöfuðstöðvar Microsoft. Þar rakst ég á sjálfan Bill Gates sem reyndist vera almennilegasti náungi og deildi með mér ýmsum framtíðaráformum fyrirtækisins og bauð mér nammi af risastóra nammibarnum sem þeir áttu. Ég vaknaði öskrandi og með tárin í augunum. Annars hef ég verið að nota Word til að skrifa skýrslu fyrir skólann og villuleiðréttingarnar í Word heimta það að ég heiti Bjorn Conundrum Ransom.
Fyrir þau ykkar sem ekki vita (s.s. lásu ekki síðustu færslu) er ég þessa dagana á sólríkum fjörum Íslands. Yngri bróðir minn á afmæli á miðvikudaginn kemur og var því afmælisveisla í gær, honum til heiðurs. Hann fékk iPod nano af "stærstu" gerð. Þetta er ótrúlega lítil og flott græja.
Eins og allir vita ætlar Kolla að blogga á hverjum degi næstu tvær vikurnar. Við hjá Bjorn Conundrum Ransom Inc. munum toppa þetta með því að blogga tvisvar á dag næstu þrjár vikur. Þetta er bloggstríð.

14 október 2005

Undirbúið flugtak

Jæja, þá er martraðarvikan búin og mér tókst næstum því að klára allt sem ég ætlaði mér, en ég neyðist til að senda síðustu skýrsluna frá Íslandi. Já, frá Íslandi, því þangað fer ég í fyrramálið. (Hér mega söngelskir raula lagið með Baggalúti, "Ég er kominn heim ..."). Dagurinn í dag og síðastliðnir dagar hafa verið ansi strembnir, en fyrir vikið mun ég vonandi eiga nokkuð náðuga daga í fríinu. Á Íslandi er, að mér skilst, heiðskírt, sól og 20 gráður í skugga. Pálmatrén blaka í andvaranum og léttklæddar stúlkur í strápilsum taka á móti manni á flugvellinum með blómakrönsum og ferskum ananas.
Á milli þess sem ég ligg í sólbaði í fjörunni og borða ferska ananasinn mun ég sennilega troða inn einhverjum bloggfærslum, bara til að ryðga ekki, þó svo það sé kannski ekki eins spennandi að heyra blogg frá mér þegar ég er bara heima að gera ekkert. Fyrir utan fjöruna og ananasinn og allt hitt bullið auðvitað.
Jæja, best að fara að pakka.

11 október 2005

Hrakfalladagur

Ég er ekki að blogga, ég er bara að aumkva mér. Í gær átti ég nefnilega hrakfalladag. Mér tókst að brenna mig á vísifingri, skera í löngutöng hrófla þumalinn og snúa á mér báða ökkla, þó ekki alvarlega. Þetta gerðist þó ekki allt í einu.
Þetta byrjaði allt um hádegisbilið. Amma mín hafði verið hérna í Danmörku fyrir um viku síðan og gefið mér fiskifars, sem hún hafði hrært heima á landi ísa, sem ég átti með einföldum hætti að geta steikt á pönnu og búið þannig til fiskibollur. Ég hafði ekki mikinn tíma í hádeginu og var alveg viss um að núna væri komin lausn á hádegimatnum. Ég skellti því kartöflum í pott, tók farsið úr kælinum og bjó til bollur með skeið og raðaði þeim snyrtilega á pönnuna. Skemmst er frá að segja að skrambans farsið vildi ekki tolla í bolluformi. Þetta endaði því alltsaman sem einhverskonar risa-fiskifars-pönnukaka. "Þetta bragðast þó ekkert verr svona" hugsaði ég. Annað kom á daginn. Það var reyndar ekki matreiðsluaðferðin, heldur geymsluaðferðin sem klikkaði algjörlega því bollurnar voru orðnar súrar. Ég hafði ekki tíma til að finna neitt annað til og fékk því eingöngu kartöflur í hádegismat. Eftir baráttuna við fiskifarsið var eldavélin öll klístruð og sóðaleg og mér tókst að brenna á mér fingurinn við að þrífa hellurnar.
Eftir eftirhádegisfyrirlesturinn hjólaði ég hratt af stað út í Netto til að kaupa eitthvað í kvöldmatinn. Þegar ég hjóla mjög hratt hjóla ég standandi. Hjólið mitt hefur átt það til í gegnum tíðina að miss keðjuna, þ.e. hún dettur af teinunm og það gerðist einmitt þarna. Þegar keðjan dettur af teinunum er engin mótstaða á pedulunum og ég sem er að spyrna niður af öllum mætti + líkamsþyngd (sem er bæðevei að komast aftur á réttan kjöl) dett með fæturnar af pedulunum á götuna. Þar sem ég hef snúið mig svo oft á hægri fæti er hann farinn að lenda ósjálfrátt skakkt og því snéri ég mig á hægri fæti. Hins vegar hafði ég töluverðan hraða í x stefnu og tilheyrandi skriðþunga (aftur líkamsþyngdin) og á augnablikinu sem ég er að stopp tókst mér líka að misstíga mig á vinstri fæti. Ég hróflaði þumalinn einhversstaðar í ferlinu þetta gerðist frekar hratt. Ég staulaðist þó út í búð því það er ekki gaman að vera meiddur og svangur.
Síðar, eftir að hafa borðað og vaskað upp, var ég í þann mund að þurrka eldhúshnífinn sem ég notaði til að skera grænmetið og tókst að skera mig í puttann. Þetta var pínulítill skurður, en eins og ég sagði er ég að aumkva mér og þá telur allt með.
Þá hef ég gert grein fyrir því hvað ég er óheppinn og þið getið því öll byrjað að vorkenna mér núna.

P.S. þetta með fá blogg gildir engu að síður.

09 október 2005

VARÚÐ: Fá blogg framundan

Ég ákvað að henda inn einu bloggi hérna til að tilkynna að það verða sennilega fá blogg hjá mér á næstu dögum. Öll fög settu inn verkefni, skýrslur og reikniæfingar, eða próf fyrir haustfríið. Það er kannski að mörgu leiti betra en að fá fullt af dóti að gera í haustfríinu, en þetta er engu að síður valdur að því að ég mun ekki skrifa eins mikið. Bæði vegna þess að ég þykist vera að læra meira en ella, en í rauninni vegna þess að ég hef ekki mikið að segja þar sem ég er svo upptekinn við að þykjast. Hjá mér á helst ekkert að komast að annað en simpleContext, complexType, annualized Cost, RAIC, IPv6 og meira bull í þeim dúr í samræmi við hvaða fag ég er að kljást við hverju sinni. Það er að vísu ekki þar með sagt að það verði ekki eitt einasta blogg, bara að þau verða hugsanlega færri en ella.

Það er hér með búið að vara ykkur við. Farið með gát.

08 október 2005

Úr hvaða auglýsingu er þetta?

Kodachrome, it gives us those nice bright colors,
it gives us the greens of summers,
makes you think all the world is a sunny day, oh yeah.

I got a Nikon camera,
I love to take a photograph
So, mama, don't take my Kodachrome away.

Dýrar bækur

Ég veit ekki hvernig þetta er hjá ykkur sem búið í öðrum löndum, eða annarsstaðar í Danmörku, en hér er ótrúlega dýrt að kaupa bækur. Þ.e.a.s. það er a.m.k. ótrúlega dýrt að kaupa þær í bóksölunni hérna í DTU. Ég hef núna keypt þrjár bækur frá útlöndum, með hjálp netsins, og ég er yfirleitt að spara a.m.k. 50% frá verði bóksölunnar hérna. Ég hef mikið verið að skoða bækur sem mig langar til að kaupa, en það er ekki séns að ég kaupi þær hérna. Eitt dæmið um bók, sem ég hefði áhuga á að kaupa, kostar hérna rúmlega 1.100 DKK en kostar 12 pund Á Amzon í bretlandi. Að vísu kostar síðan 4 pund í viðbót að láta senda hana, en fyrir vikið er ég búinn að fá bókina fyrir 16 pund (1900 íslenskar krónur) heim að dyrum í stað þess að þurfa að sækja bókina fyrir 11.000 íslenskar krónur.
Þetta er að vísu eitt af ýktustu tilfellunum og þar að auki getur biðtíminn frá útlöndum oft teigt sig upp í mánuð. Það eru líka alveg dæmi um að hægt sé að kaupa hluti hér á þolanlegu verði. T.d. keypti ég ansi veglega orðabók í bóksölunni hérna á 360 DKK og hún fylgdi með á tölvutæku formi í kaupbæti. En engu að síður eru flestar, ef ekki allar, kennslubækur fáránlega hátt verðsettar hérna og ég mun ekki kaupa þær hér fyrr en þetta lagast.

07 október 2005

Hlaðborð á 39 kr

Ég er alltaf að kynnast nýju og nýju fólki. Fólki af öllum þjóðernum. Núna síðast fólki frá Íslandi. Ísland er lítil eyja í Norður-Atlantshafi. Höfuðborgin heitir Reykjavík og þar búa ekki nema tæplega 300.000 manns. Hverjar eru líkurnar á að hitta fólk þaðan?
Hvað um það. Ég kynntist sem sagt íslendingi er heitir Haukur. Hann er einn af íslendingunum sem hafa tekið allt sitt háskólanám í Danmörku og er því orðinn öllum krókum hér kunnugur. Ekki var það verra að strákurinn er líka músíkant og er því vel viðræðuhæfur þegar kemur að málefnum hinna fínni lista. En toppurinn á öllu saman var síðan þegar hann benti mér á leyni-mötuneytið. Það kemur í ljós að innan DTU er mötuneyti sem ekki margir vita af. Þetta er líka algjört leyndó svo þið verðið að lofa að segja engum. Þarna er boðið upp á hlaðborð í hádeginu fyrir 39 kr. Sem er ekki svo dýrt miðað við hvað máltíðir kosta í hinum mötuneytunum. Svo er þetta líka ótrúlega góður matur. Heitur, heimilislegur matur. Fjölmargar sortir og stór salatbar fyrir vegan rugludallana. Þetta kemur sér vel á þeim dögum þegar ekki er nægur tími til að elda í hádeginu.

05 október 2005

Køkkenmøde 2

Ástæðan fyrir því að ég bloggaði ekki í nokkurn tíma var sú að það hefur verið nóg að gera. Það er samt fyndið að því meira sem ég hef að gera því minna finnst mér vera af frásagnarbæru efni. Samt ætla ég að drepa á einhverju hérna.
Í gær var eldhúsfundur númer 2 þar sem rædd voru hin ýmsu mál er snúa að rekstri eldhússins. Ólíkt fyrri eldhúsfundinum skildi ég helling af því sem fram fór núna og gat fyrir vikið tekið ögn meiri þátt í umræðunni. Kynntir voru til sögunnar tveir nýjir íbúar, Lau og Karen, og kvaddur var einn kær vinur, Nis, en hann hafði verið flaskedreng og íbúi í herbergi 105 í 4 ár. Ég er ekki viss hvað felst í þeirri tign að vera flaskedreng, en hann gengdi því embætti með sóma. Allir áttu að kynna sig fyrir nýju íbúunum. Inni í edlhúsinu hanga uppi á vegg kort af löndum íbúa eldhússins. Risastórt kort af Danmörku, pínulítið kort af Kína og enn minna kort af Grænlandi. Á Grænlandskortinu er svo lítill blettur, sem er Ísland. Þegar ég kynnti mig tók ég það fram að ég kæmi frá stóru eyjunni (og benti á Ísland) en ég væri nú við nám í litla landinu og benti á Danmörku. Þetta fannst öllum mjög fyndið.
Ýmis mál voru tekin fyrir á eldhúsfundinum. Eldhúsformaðurinn, Casper, hafði fjárfest í pókersetti álíka forlátu og því sem Ingibjörn keypti fyrr um haustið. Hann fékk næstum alla til að samþykkja að gera pókersettið að sameign og þeir sem samþykktu samþykktu þar með að borga 20 DKK í sjóð til að borga settið. Trine, sem er gjaldkeri eldhússins, lagði síðar fram þá tillögu að það þyrfti að kaupa nýja pottaleppa þar sem sá gamli (n.b. eintala) var allur flamberaður og gulur af fitu og ... ég veit ekki hverju öðru. Eldhúsformaðurinn sagði að þetta væri fáránleg hugmynd. Það þyrfti ekki að henda peningunum í nýja pottaleppa þegar sá gamli virkaði ágætlega ennþá. Þessi blettir drepa engan. Tillagan var því felld.
Eftir eldhúsfundinn var síðan tónlistin sett af stað og djammað fram á rauða nótt. Það voru spiluð, nær eingöngu, lög frá níundaáratugnum og allt danskir smellir. Flestir meira og minna hálfhallærislegir. Þá var mér hugsað til þess hvað dönum finnist þegar Íslendingar skella gleðibankanum á fóninn í partíum. Annars var ég beðinn um að redda íslenskri partítónlist. Ég þarf að ganga í það mál, næst þegar ég er á klakanum.
Ég fór um eitt leitið inn í herbergið mitt og ætlaði að fara að sofa, en þá fékk ég kalda áminningu um það að ég bý á kjallarabarnum. Ég fékk því að hlusta á drunandi bassa og trommuslátt fram eftir kvöldi. Ég nýtti tímann og spilaði smá stund á píanóið, en svo varð ég svo þreyttur að ég bara sofnaði þrátt fyrir hávaðann.

Brad

Í dag tókst mér loksins að næla mér í miða á Brad Mehldau Trio. En þeir spila hér í Kaupmannahöfn 9. nóvember, sem er einmitt afmælisdagur pabba míns. Brad er mikill píanósnillingur og ég hlakka til að hlýða á hans útsetningar af ýmsum standördum. Hann á víst líka nokkur frumsamin lög og hefur gert töluvert af því að búa til flottar jazz útsetningar af lögum eftir Radiohead. Þeir sem vilja skella sér með mér geta reynt að krækja í miða á Jazzhouse.dk. Þeir sem segjast vera of langt í burtu landafræðilega geta hugsanlega séð hann líka því hann spilar í Grenoble 21. október, Stokkhólmi 10. nóvember og UC Berkeley 22. janúar. Annars má lesa um þetta allt saman á heimasíðu Brads bradmehldau.com.

03 október 2005

F.C. København

Það er víst allt of langt síðan ég bloggaði síðast. Það er engin góð ástæða núna, bara vinnuálag og kvaðir því tengdar. Að ógleymdri leti. En fyrst ég er aftur sestur að bloggi þá langar mig að segja ykkur aðeins frá ferð minni á fótboltaleik.
Það var sigur í loftinu, þennan örlagaríka dag, þegar ég hélt fullur eldsmóði af stað til að verða vitni að atburði sem ég vissi að myndi gjörbreyta lífi mínu. Umturna veröldinni eins og ég þekki hana. Ég var að fara á leik milli F.C.København og Hamburg VC. Það var fyrst er ég sté um borð í farandfák þann er heitir 150s að ég sá alvöru Dani, vígbúna í fullum herskrúða á leið á orrustuvöllinn þar sem allar eldri sakir þeirra við hina hatrömmu þjóðverja yrðu loks gerðar upp. Þeir höfðu hvor um sig F.C.København trefilinn einann að vopni og ekki nema tæpan kassa af bjór sín á milli. Þeir sungu baráttusönginn alla leiðina til Nørre port, sem er endastöð vagnsins. Ég hafði mælt mér mót við fjóra frækna fýra frá fróni á áðurnefndri lestarstöð. Ég kom snemma og þurfti því að bíða eftir hinum. Meðan ég beið sá ég heilu lestarfarmana berast, hvern af öðrum, af dönum líkum þeim úr 150s. Allir gengu þeir framhjá mér syngjandi svo ómaði um borgina.
Þegar hinir fjóru fræknu áttu að vera komnir barst símtal frá þeim er kallast Ingibjörn og kenndur er við stingibjörn. Hann sagði sig og sína förunauta hafa tafist á hinni ströngu ferð frá á Kags og þyrfti ég því að bíða lengur. Ég, sem var orðinn þreyttur á biðinni og auk þess að pissa í mig ákvað að nú yrði ég að fara á almenningsklósettið á lestarstöðinni. Ég hafði dregið það eftir fremsta megni þar sem röðin hafði verið alveg hrikalega löng fram að þessu. Á þessu augnabliki var ekki löng röð svo ég skellti mér. Mér til mikillar skelfingar þurfti að borga 2 DKK til þess eins að fá að komast inn á klósettið. Eftir fjöldan sem hafði þurft að nota klósettið sá ég að með nokkrum vel skipulögðum fótboltaleikjum og innheimtuklósettum, sem þessu, mætti sennilega rétta fjárlagahalla íslenska ríkisins.
Þar sem ég alveg í spreng og kominn á það stig að þurfa að þríkrossa lappirnar OG hoppa um til að verjast slysi borgaði ég peninginn og fór inn. Ekki tók þar betra við. Ef ég hefði notað myndavélina mína hefði hún molnað í höndum mér en til að auka á dramatíkin sýni ég þessa mynd af öðru óhreinu klósetti.

Síðar, eftir að ég hafði jafnað mig á klósettáfallinu mikla, kom Ari og stuttu síðar Ingibjörn, Þorsteinn og Arngrímur. Þá héldum við af stað í átt að Parken. Parken er stærsti fótboltavöllur þeirra dana og tekur 40.000 áhorfendur í sæti. Áður en við komum þangað tókum við einn strætisvagninn til. Vagnstjórinn brást illa við Ara, þar sem hann hélt á opinni áfengisflösku, og lýsti því yfir á fallegri háþýsku að þó svo það væri siður í Þýskalandi að taka bjórinn með í strætó mætti það ekki hér í Danmörku. Ari samþykkti það og setti bjórinn út á götu. Á leiðinni mátti heira raddir nokkurra Þjóðverja syngja, sem lömb til slátrunnar, Hamburger uns, Hamburger uns. Við hinir sigurvissu hlógum svo hátt að þeim að vagninn nötraði. Þegar við komum að Parken var þar hin heimsins lengsta röð. Íslendingar eru nefninlega ekki einir um að vera bestir í heimi. Danir eiga t.d. heimsins lengstu röð, enda er mikil hefð hérna fyrir röðum og það mikil þjóðaríþrótt að standa í röð. Skemmtilegt að geta þess að danir kall röð kø en á Íslandi gerum við alltaf einum betur og stöndum í kös. En áfram með frásögnina. Röðin var, eins og áður sagði löng og á ég þá ekki við agúrku-löng, strætó-löng eða battle-field-earth-löng heldur á-þriðjaþúsund-manns-í-biðröð-löng. Það tók þessa röð um 45 mínútur að silast inn á völlinn. Þar tókst okkur að næla í fínustu sæti, en sætin voru ónúmeruð og mátti það því teljast nokkuð gott. Í upphafi leiks léku klappstýrur F.C.København listir sínar og var það eitt raðarinnar virði. því næst tók við knattspyrnu keppnin. Danir stóðu betur að stigum og þurftu því í raun aðeins jafntefli til að komast á fram, en þjóðverjar þurftu sigur til að komast áfram. Þetta var leikurinn og allt var lagt undir. Skemmst er frá að segja að eftir 45 mínútur var staðan 0 - 0. Bæði lið léku nokkuð vel en dómarinn var engu að síður mjög gjafmildur á spjöld í öllum regnbogans litum. Hinar indælu klappstýrur komu samt aftur og hvöttu sína menn í hálfleik. Eftir hlé tók við hörð keppni. Skemmst er frá að segja að eftir 45 mínútur var staðan 0 - 0. En þá gerðist eitthvað. Dómaraskarfurinn var eitthvað að geifla sig hinu meginn á vellinum og allt í einu máttu þjóðverjar taka vítaskot. Þýskarinn sparkaði og boltinn rúllaði inn. Hamborgara únsan vann með vítaskoti að loknum leiktíma og allir danirnir fengu að ganga heim súrir á svip. Niðurbrotnir, niðurlægðir og að sama skapi niðurlútir. Hörðustu bullurnar brenndu treflana sína sem þeir höfðu flaggað, sem um Dannebro væri að ræða, aðeins rúmum hálfum öðrum tíma fyrr. Við íslendingarnir vorum ekki ánægðir, en við þessu var ekkert að gera. Kvöldið gat ekki versnað svo allir fóru hver til síns heima. Reyndar komst ég að því að einhver (eflaust þjóðverji) hafði ælt í 150s og þurfti ég því að sitja í fnyknum af súper-sæsd McDónalds, sem ekki hafði staðist væntingar gagnrýns neytanda, í rúman hálftíma.
Þrátt fyrir að draumurinn hafði breyst í martröð undir lokinn var ég í heildina litið ánægður með daginn og gat sofnað lykkelig og sáttur. Ég hef núna fyrirgefið öllum þjóðverjum og lít á þá sem bræður mína. Það er ekki þeim að kenna að vera svona heppnir í fótbolta. Þó svo það geti verið pirrandi fyrir andstæðinga þeirra.