Enn um óperukvöldið
Þannig stóð til að sama kvöld og Birni bauðst að fara, með mætum vinum sínum frá Svíaríki , að sjá óperuverkið alræmda Turandot átti hann að elda fyrir matklúbb. Til að allt gengi upp þurfti því maturinn að vera tilbúinn klukkan 18:00 því óperan byrjaði klukkan 20:00. Það vita kannski ekki allir að óperan, ólíkt fyrirlestrum í Háskólum, byrjar á tilskyldum tíma og þá er húsinu læst. Seinkomufólk fær ekki að koma inn fyrr en í hléi (ef það er heppið). Til að hafa vaðið fyrir neðan mig matbjó ég því fyrir tilskilinn tíma og rauk svo út. Ég var kominn út á strætisvagnabiðstöð klukkan tíu mínútur yfir sex. Ég hafði séð á netinu að ferðin ætti að taka fjörutíu til fimmtíu mínútur og ég þurfti að taka strætisvagn, lest og svo annan strætisvagn. Fjöldi farartækjanna dróg ekki úr mér móð því eins og dyggir lesendur þessa bloggs vita þykir mér gaman að taka strætó.
Ferðin gekk framan af eins og í sögu. Fyrsti vagninn var um hálftíma að keyra frá Lyngby til Nørreport, samkvæmt áætlun, þar skipti ég svo yfir í neðanjarðarlestina. Lestin beið eftir mér með dyrnar opnar þegar ég kom og ég fór að velta fyrir mér hvort ég hefði ekki betur borðað áður enn ég lagði af stað, þar sem ég var í versta falli á áætlun og með meiri en nógan tíma til stefnu. Þá tók annað við.
Ég fór úr neðanjarðarlestinni á Christianshavn St. og rölti að síðustu stoppistöðinni á ferðaáætluninni. Þegar ég kom upp úr lestinni blasti hins vegar við mér geigvænleg sýn. Firnin öll af lögregluþjónum á mótorhjólum og bílum höfðu stillt sér upp við hver einustu gatnamót á löngu bili. Mitt á miðri götunni stóð svo vagn, með sama númeri og ég átti að taka, með stöðuljósin á. Reyndar var þessi vagn að fara í öfuga átt við það sem ég átti að fara. Hryðjuverkaóttinn gerði vart við sig og ég velti fyrir mér hvort þarna væri um sprengjuhótun að ræða, en lögreglan gerði ekkert til að halda fólki frá svæðinu þ.a. sú pæling var fljótt útilokuð. Ekkert virtist gerast, annað en að löggan stöðvaði alla umferð og umræddur vagn stóð kyrr á miðri götunni, fullur af farþegum með vagnstjórann undir stýri. Eftir 10-15 mínútur af þessu byrjuðu lögregluþjónarnir að aka af stað einn af öðrum. Síðan keyrði vagninn af stað, eins og ekkert hefði í skorist. Meðan á þessu stóð skaut ég rótum við biðskiltið og horfði angistaraugum á vagninn og lögreglumennina á víxl. Jafnframt horfði ég leitaraugum eftir vagninum mínum, sem ekkert bólaði á.[1] Einn vagn, sem átti að koma á meðan skrípalætin í löggunni fóru fram, kom ekki. Eftir að löggan var farinn og klukkan náði þeim tímapunkti er áætluninn sagði að næsti vagn ætti að koma kom enginn vagn. Sem sagt tveir vagnar í röð komu ekki. Ég var orðinn svolítið órólegur (og svangur) en beið eftir næsta vagni. Næsti vagn kom á réttum tíma mér til mikillar ánægju. Mér til engrar ánægju hinsvegar var kominn 1stk vagnsfyllir af fólki sem var að bíða eftir þessum sama vagni. Óperuþyrstir danir í kjólfötum tróðu hvern annan oní drullusvaðið til að kreistast inn í vagninn um leið og hann stöðvaði. Vagninn hafði greinilega fengið svipaðar móttökur á fyrri biðstöðvum og var langt því frá að vera tómur. Þannig fór því að ég og hinir veikbyggðari danir, sem ekki höfðu haft þrótt til að taka þátt í slagnum, stóðum eftir og biðum eftir næsta vagni. Þegar hér var komið sögu var ekki nema um förutíu mínútur í sýningu og mér var ekki farið að lítast á blikuna. Dönunum var ekki heldur farið að lítast á blikuna þegar næsti vagn kom ekki og fólkið byrjaði hvert á fætur öðru að veifa til sín leigubíla. Ég var orðinn of svangur til að standast freistinguna lengur. Ég sá að næsti vagn átti að koma eftir tíu mínútur og hljóp ég því eins og fætur toguðu yfir götuna og inní sjö-ellefu verslun og keypti mér pylsutilboð. Nóg var að gera í búðinni, þ.a. þegar ég sté út með pylsuna mína hafði ég tvær mínútur þangað til að vagninn ætti að koma. Ég hafði séð hvernig vagnstjórarnir, af mikilli mannvonsku, vísa svöngum matvælaneytandi væntanlegum farþegum frá þar sem ekki má hafa opin matarílát í vagninum. Ég gat heldur ekki stungið pylsunni í vasann þ.a. mér tókst að gleypa pylsuna í heilulagi og sturta í mig hálfum lítra af kakómjólk á áðurnefndum tveimur mínútum.
Ég var aftur kominn út á biðstöð. Ég horfði á klukkuna og taldi niður 10, 9, 8, 7, 6, 5, 4, 3, 2, 1 ... NÚNA ... en það kom engin vagn ... -15, -16, -17, ...-103, -104 ... Það var nokkuð greinilegt að enn og aftur væri enginn vagn. Ég var kominn að þeim tímapunkti að taka til fótanna og hlaupa í óperuna. Aðeins var um hálftími til stefnu og kortér í næsta vagn. Ég ákvað samt síðan að þar sem ég hafði ekki græna glóru um hvar þetta óperuhús var væri best að hætta á að bíða eftir næsta vagni, frekar en að æða út í náttmyrkrið eins og fætur toguðu.[2]
Næsti vagn kom loks skröltandi á eftir pylsusala sem keyrði heimleiðis á sölubásnum sínum. Það er ástæða fyrir því að pylsusölubás hefur aldrei unnið í kvartmílu. En núna var ég kominn um borð í vagninn og stefnan loks tekin á óperuna. Ég kom í óperuna, u.þ.b. tíu mínútur í, þar sem ég fékk hlýjar móttökur og skemmti mér konunglega, eins og lesa má um í eldra bloggi.
[1] Höfundur vill taka fram að þó svo gefið sé í skyn að hann hafi fjöldamörg augu sem öll þjóni ólíkum tilgangi þá er ekki um slíkt að ræða. Höfundur er ekki átteygður eins og kónguló þó svo ætla megi að hann hafi leitaraugu, angistaraugu, gleraugu, venjuleg augu gagnaugu og gæti látið festa á sig ástaraugu. Hann hefur aðeins venjuleg augu og gleraugu. Hin augun falla undir þessa áðurnefndu tvo augnflokka nema gagnaugun, en það er önnur saga.
[2] Ekki var nægur tími til að beita Random Walk leitaraðferðinni.