25 október 2005

Strætó

Mér finnst, satt best að segja, nokkuð gaman að taka strætó hérna í Danmörku. Hann gengur nokkuð títt og vegalengdirnar eru hæfilega langar. Þegar ég segi hæfilega langar á ég við að það gefst ágætis tími til að góna út um gluggann og reyna að hugsa um ekki neitt í smástund. Stundum lendir maður á hressum vagnstjórum sem ákveða að nota hátalarakerfið í vagninum til að fara með dægurmál, t.d. um daginn þegar litli danski prinsinn fæddist. Þá var ég einmitt í strætó og með reglulegu millibili kom vagnstjórinn með fréttaskot: "Litli kúturinn vóg 14 merkur og fyrstu myndirnar voru teknar af honum rétt í þessu"; eða eitthvað í þessum dúr.
Það er líka nokkuð gaman að fylgjast með því hvernig fólk hér fer eftir hinum skráðu og óskráðu reglum strætisvagnsins. Hér fer fólk hispurslaust eftir reglunum hver á að sitja hvar, ef kona kemur inn með barnavagn er samstundis staðið upp úr barnavagnastólunum. Sömuleiðis ef aldrað fólk kemur í vagninn eru fráteknu sætin samstundis rýmd. En síðan eru það óskráðu reglurnar.

  • Allir eiga að sitja og horfa út um gluggann eða út í loftið. Aðeins má víkja frá þessari reglu ef þú þekkir einhvern í vagninum. Þá má tala við viðkomandi.

  • Það er stranglega bannað að setjast við hliðina á öðrum farþega fyrr en a.m.k. einn farþegi er í hverri sætaröð.

  • Undantekningin á þessari reglu er þó þegar aftast í vagninum eru fimm sæti í einni röð. Þá skal samt hafa a.m.k. eitt sæti á milli farþega og helst ekki að setjast þar fyrr en engin laus sætapör eru eftir.

  • Ef þú þarft að setjast við hliðina á öðrum farþega þá ber þér að færa þig um leið og sætapar losnar.



Viðurlög við broti á hinum óskrifuðu reglum strætisvagnsins eru skrítin augnaráð frá öðrum farþegum og tilheyrandi hugsanir þeirra um hvað afbrotamaðurinn sé skrítinn.

Ég fylltist einmitt stolti í strætó í dag. Ég sat einn og horfði út um gluggann. Vagninn var fullur í þeirri merkingu að ekki var neitt sætapar laust. Ég sá gróflega með endurspeglun úr rúðunni að lokkaprúð stúlka kom inn í vagninn. Hvað veit ég fyrr en hún hefur vegið og metið kostina af sætisfélögum og ákvað að setjast við hliðina á mér. Ég gerði í því að sitja beinn í baki og glæsilegur án þess þó að líta frá rúðunni. Tíminn leið og ég tók eftir því að farið var að fækka í vagninum. Ég tók líka eftir lausum sætapörum. Stúlkan færði sig hvergi. Núna var ég ánægður. Þessi stelpa var svo hrifin af mér að hún þverbraut allar velsemdarreglur strætisvagnanna til að sitja við hliðina á mér. Löngu seinna þurfti ég að fara úr vagninum og því fylgdi sá heiður að biðja stúlkuna að víkja frá. Ég fékk næstum því hjartaáfall þegar ég sá að stelpan reyndist vera illa lyktandi rastafari með dreadlokka sem hefðu fengið Marley til að snoða sig. Héðan í frá horfi ég út um gluggann, ekki á spegilmyndir.


Úr Gríslenskri Morðabók:

Sætapar: 1. no Tvö sæti hlið við hlið. Við hvert borð í skólastofunni var sætapar

2. Spendýr af flokki fremdardýra. S finnast einkum í frumskógum Súmötru. S hafa rauðleitan feld og eru ósköp sætir.

3. Kærustupar sem er sætt, einkum fyrir að bjóða einstæðingum í óperuna.