21 október 2005

Afturför

Það er kominn tími til að halda aftur til Danmerkur, eftir ósköp indæla viku hérna heima. Meðferðin hefur verið allt að því konungleg, það mætti ætla að ég hefði verið í burtu í tíu ár, ekki sex vikur. En núna fer ég aftur út, aðrar sex vikur. Þetta hefur verið mjög afkastamikil vika hvað varðar flest málefni er lúta ekki að skólanum, en ég kom nánast engri skólavinnu í verk. En það gerir svo sem ekki mikið til.
Eitt af því sem ég kom í verk, hins vegar, var að kaupa hákarl. Nú styttist nefninlega í hina svokölluðu TDC kvöld á kollegiinu mínu. Fyrir þau ykkar sem ekki vita hvað það er þá er það (enn ein) fyllirís hefðin þar sem farið er á milli herbergja og hvert herbergi býður upp á drykki í einhverju þema. S.s. hvert herbergi hefur sitt þema og gefur tvo drykki á gest. Ég ákvað að hafa íslenzkt þema og bjóða upp á kæstann hákarl og svartadauða. Núna er ég hins vegar að berjast við að pakka hákarlinum inn í nógu marga plastpoka svo lyktin skemmi ekki öll fötin mín. Síðan verður að loftræsta herbergið mitt eftir TDC kvöldið, ellegar lykta eins og kæstur hákarl það sem eftir lifir Danmerkurdvalar.
http://www.hai-society.org/
Hérna er mynd af hákarlinum, áður en ég dróg hann upp í fjöruborðið og kæsti hann rækilega.