07 október 2005

Hlaðborð á 39 kr

Ég er alltaf að kynnast nýju og nýju fólki. Fólki af öllum þjóðernum. Núna síðast fólki frá Íslandi. Ísland er lítil eyja í Norður-Atlantshafi. Höfuðborgin heitir Reykjavík og þar búa ekki nema tæplega 300.000 manns. Hverjar eru líkurnar á að hitta fólk þaðan?
Hvað um það. Ég kynntist sem sagt íslendingi er heitir Haukur. Hann er einn af íslendingunum sem hafa tekið allt sitt háskólanám í Danmörku og er því orðinn öllum krókum hér kunnugur. Ekki var það verra að strákurinn er líka músíkant og er því vel viðræðuhæfur þegar kemur að málefnum hinna fínni lista. En toppurinn á öllu saman var síðan þegar hann benti mér á leyni-mötuneytið. Það kemur í ljós að innan DTU er mötuneyti sem ekki margir vita af. Þetta er líka algjört leyndó svo þið verðið að lofa að segja engum. Þarna er boðið upp á hlaðborð í hádeginu fyrir 39 kr. Sem er ekki svo dýrt miðað við hvað máltíðir kosta í hinum mötuneytunum. Svo er þetta líka ótrúlega góður matur. Heitur, heimilislegur matur. Fjölmargar sortir og stór salatbar fyrir vegan rugludallana. Þetta kemur sér vel á þeim dögum þegar ekki er nægur tími til að elda í hádeginu.