05 október 2005

Køkkenmøde 2

Ástæðan fyrir því að ég bloggaði ekki í nokkurn tíma var sú að það hefur verið nóg að gera. Það er samt fyndið að því meira sem ég hef að gera því minna finnst mér vera af frásagnarbæru efni. Samt ætla ég að drepa á einhverju hérna.
Í gær var eldhúsfundur númer 2 þar sem rædd voru hin ýmsu mál er snúa að rekstri eldhússins. Ólíkt fyrri eldhúsfundinum skildi ég helling af því sem fram fór núna og gat fyrir vikið tekið ögn meiri þátt í umræðunni. Kynntir voru til sögunnar tveir nýjir íbúar, Lau og Karen, og kvaddur var einn kær vinur, Nis, en hann hafði verið flaskedreng og íbúi í herbergi 105 í 4 ár. Ég er ekki viss hvað felst í þeirri tign að vera flaskedreng, en hann gengdi því embætti með sóma. Allir áttu að kynna sig fyrir nýju íbúunum. Inni í edlhúsinu hanga uppi á vegg kort af löndum íbúa eldhússins. Risastórt kort af Danmörku, pínulítið kort af Kína og enn minna kort af Grænlandi. Á Grænlandskortinu er svo lítill blettur, sem er Ísland. Þegar ég kynnti mig tók ég það fram að ég kæmi frá stóru eyjunni (og benti á Ísland) en ég væri nú við nám í litla landinu og benti á Danmörku. Þetta fannst öllum mjög fyndið.
Ýmis mál voru tekin fyrir á eldhúsfundinum. Eldhúsformaðurinn, Casper, hafði fjárfest í pókersetti álíka forlátu og því sem Ingibjörn keypti fyrr um haustið. Hann fékk næstum alla til að samþykkja að gera pókersettið að sameign og þeir sem samþykktu samþykktu þar með að borga 20 DKK í sjóð til að borga settið. Trine, sem er gjaldkeri eldhússins, lagði síðar fram þá tillögu að það þyrfti að kaupa nýja pottaleppa þar sem sá gamli (n.b. eintala) var allur flamberaður og gulur af fitu og ... ég veit ekki hverju öðru. Eldhúsformaðurinn sagði að þetta væri fáránleg hugmynd. Það þyrfti ekki að henda peningunum í nýja pottaleppa þegar sá gamli virkaði ágætlega ennþá. Þessi blettir drepa engan. Tillagan var því felld.
Eftir eldhúsfundinn var síðan tónlistin sett af stað og djammað fram á rauða nótt. Það voru spiluð, nær eingöngu, lög frá níundaáratugnum og allt danskir smellir. Flestir meira og minna hálfhallærislegir. Þá var mér hugsað til þess hvað dönum finnist þegar Íslendingar skella gleðibankanum á fóninn í partíum. Annars var ég beðinn um að redda íslenskri partítónlist. Ég þarf að ganga í það mál, næst þegar ég er á klakanum.
Ég fór um eitt leitið inn í herbergið mitt og ætlaði að fara að sofa, en þá fékk ég kalda áminningu um það að ég bý á kjallarabarnum. Ég fékk því að hlusta á drunandi bassa og trommuslátt fram eftir kvöldi. Ég nýtti tímann og spilaði smá stund á píanóið, en svo varð ég svo þreyttur að ég bara sofnaði þrátt fyrir hávaðann.