22 september 2005

Árvökull

Í dag vaknaði ég klukkan 5:50 að dönskum tíma. Ég þurfti að vakna svona snemma því samkvæmt hefð hér á Kollegiinu fellur það í hlut nágranna afmælisbarns að fara út í bakarí og kaupa fullt af rúnstykkjum fyrir hinn heimsfræga atburð morgenfødselsdag. Þar sem stelpan í næsta herbergi við mig átti afmæli féll það í minn hlut. Það var slegið nýtt met. Núna átti afmælið að byrja klukkan 6:15. Það hafði víst eitthvað að gera með það að afmælisbarnið þurfti að mæta snemma. Bakaríið opnaði klukkan sex og þess vegna þurfti ég að fara upp á fyrrgreindum tíma.
Þegar ég kom út var enn niðamyrkur og þykk þoka yfir öllu. Það var þar að auki ÓGEÐSLEGA kalt. Ég hjólaði eins og ég ætti lífið að leysa út í bakarí og keypti 26 rúnstykki og brunaði svo til baka. Ég kom í hús á slaginu 6:15. Ég hef aldrei séð eins myglað lið. Sumir strákanna höfðu ekki farið að sofa fyrr en að ganga þrjú og þeir litu út fyrir að ætla að gubba af þreytu.
Engu að síður var ráðist í morgunmat og síðan var afmælissöngurinn gaulaður af misvakandi lýðnum. Hljóðfærin að þessu sinni voru fiðlur, sprengjuvörpur (ekki spyrja) og trommur. Því næst kom hið hefðbundna Jägermeister staupirí auk þess sem nokkrir fengu sér morgunbjór. Á meðan á öllu þessu stóð læddist eldhúsformaðurinn út og kom síðan til baka með bakka fullan af áfengisstaupum. En í þessum áfengisstaupum var ekki áfengi, heldur kanill. Hann rétti hverjum og einum (nema afmælisbarninu) eitt glas og ég hugsaði með mér: "Jæja er maður að fara að staupa kanil eins og í 70 mínútum?". En annað kom á daginn. Því í staðinn var afmælisbarnið dregið út á hlað og hver aðilinn á fætur öðrum sturtaði kanilnum yfir hana. (Hvaða hani var það?) Það kemur í ljós að þegar íbúi verður 25 ára á að sturta yfir viðkomandi kanil á afmælisdaginn. Síðan hlógu allir og bentu á hana þar sem hún stóð, brún af kanel, með kanelský í kringum sig. Tóku myndir og hlógu síðan meira. Því næst var hún afsökuð þar sem hana var farið að svíða undan kanilnum. Ég ætti sennilega að byrja að ljúga því að ég sé fæddur '83.