16 september 2005

11.000 kr lestarferðin

Ég fór inn til Fredriksberg í kvöld. Þar fékk ég dýrindis kvöldverð hjá Jóhönnu frænku minni. Milli níu og tíu hjólaði ég síðan áleiðis til Hovedbanegården. Ég hef hjólað þetta nokkrum sinnum, þ.a. það tekur orðið enga stund að bruna þetta. Ég hjólaði framúr drukknu pari sem sveigði fram og til baka á hjólastígnum með bjórflöskuna hátt á lofti. Þau köstuðu einhverri danskri kveðju til mín. (Note to self: fletta upp tøser í orðabókinni). Ég kom tímanlega í lestina og fékk fínt sæti. Við hliðina á mér settust tveir, frekar háværir, einstaklingar. Þeir voru með kippu af bjór og töluðu látlaust í símann. Á endastöðinni kemur miðavörðurinn og athugar miðana hjá öllum. Þá kom í ljós að þeir höfðu ekki keypt miða og þurftu því að borga sektina, 500 DKK kall á kjaft. Takk fyrir það.
Þeir tóku þessu þó ótrúlega vel. Voru mjög kurteisir við miðavörðinn og gáfu honum allar upplýsingarnar. Útskýrðu kurteisislega að þeir hefðu ætlað að freista þess að spara sér miðaverðið. Tóku við sektinni og kvöddu pent. Síðan, fyrir utan, hlógu þeir bara og annar sagði við hinn: "Við hefðum átt að kaupa miða!".