13 september 2005

Langur þriðjudagur

Í dag var langur þriðjudagur hjá mér. Ég var á ferð og í tímum, meira og minna, frá því snemma í morgunn og seint fram á kvöld. Í morgun var fundur hjá öðrum hópanna sem ég er í þar sem farið var yfir stöðu mála í verkefni sem við erum að vinna. Í þeim hópi eru m.a. tveir menn frá Ghana. Það kom í ljós að í Ghana er eitt fyrirtæki sem hefur lögbundinn einkarétt á öllum tal-fjarskiptum. Sem er kannski ekki svo skrítið miðað við hvað þekktist á íslandi fyrir nokkrum árum, en það sem mér finnst undarlegt (en kannski skiljanlegt) þá er VoIP tækni (t.d. Skype) ólöglegt, þar sem það býður talsamband í samkeppni við þetta eina fyrirtæki. Og ef ég skildi þetta rétt þá ræðst þetta fyrirtæki, með ríkið sem sinn bakhjarl, harkalega að þessu lögbroti. Ég er svo tölvutæknilega sinnaður að ég sé ekki neinn mun á því að nota netið til að tala við fólk, eða skrifast á við það. Ætli það væri löglegt að senda video (með engu hljóði) og fólk gæti talað saman á táknmáli?
Eftir hádegi var ég svo í tíma eða öllu heldur þremur-og-hálfum-tíma, eins og þetta ætti að heita þar sem farið var yfir efni á snigilshraða með löngum stoppum til að athuga að allir skildu allt. Ég varð í fyrsta skipti vitni að því að vera með íslendingi í tíma þarna. Sá heitir Haukur og er í IT-Diplom námi. Hann sagði að svona hæga yfirferð hefði hann aldrei séð áður í DTU. En þetta var líka fyrsta fagið sem ég man eftir að hafa verið í, þar sem ætlast var til að nemendur hefðu með sér fartölvu í tíma.
Eftir fimm fór ég síðan í heljarlanga strætóferð niður til Øster Voldsgade 12 sem margir Íslendingar kannast við sem hús Jóns Sigurðssonar. þar fór fram fyrsta æfing mín með kórnum Stöku. Það kemur í ljós að ég þekki annanhvern aðila í þessum kór, þ.á.m. bræðurna Hjört og Ingva, Láru (kærustu Óla Hauks) og Svövu, sem ég var með í bekk á fyrsta ári í MR. Voru mikil fagnaðarlæti þegar þessi fríði hópur hittist. Þetta er nokkuð löng ferð að fara á æfingar, en ég held að ég reyni að vera með því félagsskapurinn er góður, metnaðsfull markmið og þarna er líka flygill sem hægt er að taka í við tækifæri.
Ég kom ekki heim fyrr en rétt um hálf ellefu og kvöldmaturinn að þessu sinni var hafragrautur og jógúrt.