09 september 2005

Einn dagur eftir

Nei, ég er ekki að spá fyrir um heimsenda eða með þunglyndislega sjálfsvígsyfirlýsingu heldur er ég hér að vitna í áætlaðan tíma sem ég þarf að bíða eftir að hljómborðið mitt komi frá Íslandi. Ef heppnin er með mér gæti það sem sagt komið hingað á morgun. Heima fannst mér alltaf leiðinlegra að spila á hljómborðið heldur enn alvöru píanóið, en eftir að hafa verið í píanósvelti í þrjár vikur núna er mig farið að klæja í fingurnar. Ég hef ekki liðið svona langan píanóskort síðan í Malasíu-Singapore-Thailand-heimsókninni rómuðu í maí/júní 2004. En það er reyndar af nógu að taka hérna, þ.a. ég sit ekki auðum höndum. En tónlistarlega séð hef ég verið nokkuð illa haldinn undanfarið og eygi nú fljótlega bót á því. Ég byrjaði enn eitt hópasamstarfið hérna. DTU menn halda ekki vatni yfir þessari hópavinnu. Alltaf á að vinna í hópum. Ég get þó ekki kvartað yfir félagslega þættinum. Maður kynnist ógrynni af fólki. Alþjóðleg tengsl myndast. Mig vantar enn fulltrúa frá Norður- og Suður-Ameríku og þá eru allar heimsálfurnar dekkaðar. Reyndar hef ég ekki enn fulltrúa frá Suðurskautslandinu, en látum það liggja á milli hluta.
Ég var fúll yfir því um daginn hvað fartölvan mín keyrir ótrúlega hægt. Fullviss um að hún væri full af vírusum og spyware-i fór ég í gegnum margratíma feril með margvíslegum víruleitarforritum til að finna sökudólginn. Eftir mikinn tíma og fyrirhöfn lágu fyrir laun erfiðisins og illvirkinn fundinn. Tölvan mín var tandurhrein. Fjögur ólík óværugreiningarforrit gátu ekki fundið neitt að henni. Tölvan mín er einfaldlega hæg. Ég komst samt að því að vandinn er sennilega vinnsluminnið. Tölvan mín hefur 128 MB vinnsluminni, sem þýðir að þegar ég hef netvafra í gangi hef ég í besta falli 6-10 MB fyrir önnur forrit. Þess vegna keyrir tölvan mín hægt. Ég vil vera á netinu, vinna í ritvinnsl og hlusta á tónlist allt í einu. Núna þarf ég því að finna mér bútík sem selur vinnsluminni í gamlar fartölvur á þolanlegu verði. Fyrir aðra í tölvukaupapælingum (hér í danmörku) get ég þó bent á sniðuga síðu: edbpriser.dk sem Haraldur, kollegi minn úr MT-Metra, vísaði mér á. Þar er hægt að finna góð kaup víðast hvar í Danmörku.
Svakalega er þetta bloggdót mitt asnalegt, þ.e.a.s. ég kann ekki að blogga. Þarf að taka Blogg 101, eða lesa mig til í fræðunum.
Mér finnst eins og mínar blogfærslur séu ómarkvissar og ... tjah ... ómerkilegar. Hef ég kanski ómarkvissa sýn á umheiminn, eða gerast bara ómarkvissir hlutir hérna. Mér finnst að minnsta kosti frekar asnalegt að puðra út úr sér mörg hundurð orðum um ekki neitt ef maður getur ekki einu sinni sett það hnitmiðað eða skemmtilega fram. Æ ... ég veit ekki.