24 ágúst 2005

Bloggbull

Ég var mjög ánægður að sjá að ég hafði fengið athugasemdir frá áhugasömum notendum við æsispennandi bloggfréttir mínar. Fínt var að fá uppbyggileg komment frá Braga um að betra væri að nota Haloscan kommentakerfið til að forðast margsskonar vandamál. Verra var að fá niðurdrepandi komment frá ,,Your Great Blog Will Be Even Better IF YOU Buy Insurance Online Now". Enn leiðinlegra var að fá tíu slík boð. Ég ákvað því að fylgja eftir tillögu Braga og er núna kominn með hið fræga Haloscan kerfi. Nú er bara að vona að það standi sig í stykkinu. Einn kosturinn við uppfærsluna var að ömurlegu athugasemdirnar hurfu allar, hins vegar hurfu allar góðu athugasemdirnar líka þ.a. bloggið mitt er einmana og athugasemdalaust.
Annars er ég í tölvurugli eins og er. Eina nettengda tölvan sem ég hef aðgang að er iMac. Ég er mikill aðdáandi Macintosh tölva og hef ekkert út á þær að setja. En þar sem ég er búinn að venja mig á Windows tölvur (og uppsetninguna sem þar ríkir í skipan takka á lyklaborði) er ég vanur að ýta á Alt Gr hnapp og Q til að skrifa @ merkið. Svo skemmtilega vill til að sama handahreifing á Macintosh lyklaborði slær á slaufulykilinn (einnig kallaður apple takki) og Q sem er flýtilykillinn sem hættir í forritinu sem er í gangi. Fyrir vikið er ég nokkrum sinnum búinn að skrifa email (nokkur jafnvel á dönsku) og hætti svo í forritinu um leið og ég skrifa inn póstfangið. Niðurstaða: Ég þarf að skrifa öll email tvisvar.
Bragi hafði líka komið með tillögu um að ég ætti að blogga daglega, í stað þess að tækla nokkra daga í einu eins og ég gerði hérna áður. Það væri auðveldara ef ég skildi bloggumhverfið. Hvað áttu við? Nú af einhverri ástæðu er bloggarsvæðið mitt á Japönsku. Ég veit ekki afhverju, en ég get ekki breytt því. Það virðist tengjast notkun á Safari vafranum í Danmörku því þetta virkaði ágætlega í Firefox á Íslandi. Þar sem ég kann hvorki hiragana né katagana mætti það teljast mesta mildi að ég skuli yfir höfuð takast að koma þessum skrifum frá mér. Núna ætti ég að vera búinn að fæla flesta frá þessari bloggsíðu. En ég lofa því að á morgunn verður e-ð skárra hérna. Ég get örugglega fundið eitthvað áhugaverðara eins og skrítnu bóluna á handleggnum á mér. Það verður efni í að minnsta kosti tvö blogg.