24 ágúst 2005

Kominn til DK

Jæja,

Þá er hann bara kominn til Danmerkur. Ég flaug út á mánudaginn kl. 15:30 og lenti á Kastrup flugvelli um hálfníu leitið. Gísli frændi sótti mig á flugvöllinn og ég gisti heima hjá þeim á Kongensvej. Þar hitti ég líka tvær nýútskrifaðar stúdínur sem eru að hefja nám í viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar.

Á þriðjudeginum var stóra skrefið tekið. Ég tók lestina til Lyngby og skoðaði skólann og kollegiet sem ég mun búa á. Þetta leit allt þokkalega út. Ég hafði ætlað mér að skoða aðstöðuna í tónlistarherberginu og líkamsræktarstöðinni en gekk illa að finna þetta auk þess sem ákveðum svæðum var lokað vegna einhverrar líffræðiráðstefnu sem var í gangi. Mér tókst hins vegar að skrá mig inn í landið hjá folkeregisteret i Lyngby. Það var hálfgert afrek út af fyrir sig. Ég hafði gleymt að athuga hvar það var staðsett. Ég vissi að það var í Lyngby og tókst svo að finna það með ráfað-um-göturnar leitaraðferðinni (leitin tók O(exp(n)) tíma). En þegar ég hafði fundið staðinn tók skráningin ekki nema 5 mínútur (biðtími innifalinn), auk þess sem konan sem ég talaði við var einstaklega vinaleg.

Í dag, miðvikudag, ætla ég að kíkja í rúmfatalagerinn (Jyske) og IKEA auk þess sem ég ætla að kíkja á notaðar vörur í blå avisen o.s.frv.