16 september 2005

Morgenfødselsdag

Hér á bæ tíðkast það að þegar einhver meðlimur úr eldhúsinu á afmæli er haldinn Morgenfødselsdag. Í dag var einmitt einn slíkur atburður. Tveir aðilar áttu afmæli og voru því allir reknir úr rekkju klukkan 6:45 til að syngja afmælissönginn og troða sig síðan út af rúnstykkjum. Það var ótrúlega dræm mæting, þar sem ekki allir vilja láta vekja sig klukkan 6:45 og þeir sem mættu (mjög líklega að virðingu við afmælisbörnin frekar en vilja til að vakna snemma) voru að öllu jöfnu grútmyglaðir og drógu ýsur við matarborðið. Fyrir vikið fannst mér afmælissöngurinn hálf kraftlaus.
Það var fundið að því að ég gat ekki tekið undir afmælissönginn, þar sem ég kann hann ekki. Ég gerði heiðarlega tilraun til að finna hann á netinu, en það tókst ekki. Ég gat aðeins fundið annan afmælissöng, sem er öllu vinsælli. það væri því vel þegið ef einhverjir dönsku sinnaðir aðilar gætu bent mér á textann við þessu lagi. Lagið er þannig uppbyggt að afmælisbarnið velur sér eitt eða fleiri hljóðfæri og síðan er sunginn smá texti, sem lýsir yfir hver eigi afmæli og síðan er sagt (á dönsku) eitthvað í líkingu við: "og hlustið nú á þegar við spilum á ". Síðan er lagið sungið aftur, öllu sterkar, og í stað orða þykist hópurinn spila á viðkomandi hljóðfæri með tilheyrandi gutli og gauli.
Síðan er öllu slúttað með því að staupa rammáfengum veigum, yfirleitt jägermeister eða gammle dansk.