23 september 2005

Pókerkveld

Í gær var haldið pókerkvöld. Grjóni, Ingibjörn, Steini, Ari og ég mæltum okkur mót heima hjá Steina. Ingibjörn hafði fjárfest í forlátu póker setti og vildi ólmur hafa af okkur hinum allar okkar dönsku krónur. Steini býr á Kagså kollegiinu sem er í um 10 km fjarlægð frá DTU. Ég lagði af stað helst til seint og rétt áður en ég kom að stoppistöðinni sá ég konu sem var í þann mund að fara að staulast niður mjög háar og brattar tröppur með fullan inkaupapoka í annarri höndinni og stóra tösku í hinni. Ég sá líka að hún var til viðbótar með staf hangandi í töskunni.
Ég ákvað að vera herramaður og bauðst til að bera töskuna og pokann fyrir hana. Hún þakkaði mér í hvað eftir annað og gat fyrir vikið gengið við stafinn. Þegar við komum niður tröppurnar bauðst ég til að bera dótið fyrir hana út að stoppistöðinni, en það var þangað sem hún ætlaði. Þetta var hins vegar ekki stoppistöðin sem ég hafði ætlað á þ.a. eftir að hafa skilað henni dótinu sínu hljóp ég eins hratt og ég gat að minni stoppistöð. Strætóinn átti að koma 12 mínútur yfir. Ég kom þangað 14 mínútur yfir. Þá kom vagninn, 2 mínútum of seint, og ég fylltist ánægju með sjálfan mig fyrir að vera svona góður og ná vagninum líka.
Strætóferðin gekk klakklaust og ég fór út á réttri stöð, sem er afrek þar sem ég hafði aldrei farið þetta áður og það var orðið mjög dimmt. Síðan þurfti ég að þræða eitt af hinum hræðilegu dönsku íbúðarhverfum til að finna staðinn. Hverfin eru mjög fjölskylduvæn og vinaleg í útliti, en ef maður er villtur þá eru þau hræðileg. Þau eru yfirleitt í allskonar sveigjum og beigjum, krókum og kimum og engin aðalgata, sjoppa eða vídeóleiga eða nokkuð annað sem hægt er að miða við er í nánd. Ég held að ég hafi verið um fjörutíu mínútur að ganga frá stoppistöðinni að Kagså kollegiinu en hefði átt að vera nær fimm til tíu mínútur.
Að lokum kom ég til Steina og voru þeir félagar löngu byrjaðir að spila. Ég tók mér spil í hönd og var síðan spilað langt fram á kvöld. Þegar hætt var að spila, um ellefuleitið var aðeins ég og Ingibjörn sem komum út í plús. Ég hafði grætt 50 aura en Ingibjörn var í margra tuga gróða. Hann hefur sennilega verið að lesa
Idiots Guide to Poker
.