24 október 2005

Litlu gleðistundirnar

Litla hjarta mitt fylltist gleði er ég kom inn í þvottahúsið. Reyndar ekki alveg á því augnabliki, heldur stuttu seinna. Ég hafði tínt saman öll fötin mín þurfti að þvo og flokkað þau eftir kúnstarinnar reglum. Mér fannst ekki réttlætanlegt að setja eina flík sér í vél, svo með smá hagræðingu og endurskilgreiningu á litum og efni nokkurra flíka fækkaði ég þessu niður í tvær aðskildar vélar. Hvor vél um sig myndi ekki vera nema hálffull og kostnaðurinn tvöfaldur miðað við að geta komið öllu í sömu vél, en svona varð þetta að vera. Þess vegna fylltist litla hjarta mitt gleði, eins og áður sagði, þegar ég komst að því að gjaldfærslukerfið í þvottahúsinu var bilað og því ókeypis að nota þvottavélar og þurrkara. Þar að auki var líka laus þvottasnúra svo ég gat hengt upp þvottinn minn að þvotti loknum.
Dönsku stelpurnar nýttu tækifærið og skelltu sér með þvottinum, fyrst það var ókeypis.