22 mars 2007

Fyrir þau sem hafa áhyggjur ...

en hafa samt ekki spurt, þá er ég ekki veikur lengur. Veikindin entust í 10 daga og var ég svo heill heilsu á ný. Eða næstum heill heilsu þar sem ég hef þurft að glíma við bólgu í rakakirtli í auga og munnvatnskirtli. En þess utan þá er ég loksins aftur byrjaður að hreyfa mig. Ég kom til Danmerkur með þá hugsjón að leggja ríkulega stund á íþróttir. En þegar á hólminn var komið (Danmörk samt of flöt til að kallast hólmur) varð ég veikur eins og áður sagði og lítið sem ekkert varð því úr þessari göfugu hugsjón. Ég lét mig nú samt hafa það (þrátt fyrir bólgin rakakirtil í auga) að mæta í taekwondo að nýju stuttu eftir að veikindum lauk og er loksins að koma reglu á íþróttirnar.
Síðustu helgi var kóramót íslenskra kóra erlendis haldið í Kaupmannahöfn í boði Stöku, Íslenska Kvennakórsins í Kaupmannahöfn og Kórs íslenska safnaðarins í Kaupmannahöfn. Alls voru níu kórar sem komu frá norðurlöndum og Englandi og gleði mikil var allsráðandi. Ofanritaður danverji tók líka þátt í hátíðarhöldunum og óaðspurðir sögðust aldrei hafa séð þvílíkt glæsimenni stíga á dansstokk, að minnsta kosti ekki þá undanfarinn hálftímann.