23 júní 2007

Fleiri Taekwondo fréttir

Enn einu sinni er skrifað af vettvangi Taekwondo. Eins og áður hefur komið fram er pizzuæfing fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði. Á pizzuæfingu aðeins æft í einn klukkutíma (í stað tveggja) og svo splæsir klúbburinn pizzum á allt liðið. Á meðan á pizzuátinu stendur er tækifæri til að spjalla við aðra klúbbmeðlimi um daginn og veginn, mest þó um Taekwondo.



Um leið og ég gæddi mér á pizzu með chillikjötbollum og papriku spurði ég yfirþjálfaran hvaða kröfur væru settar, hvað mætingar varðar, fyrir gráðanir. Enn fremur spurði ég hvað ég þyrfti að mæta mikið til að fá að vera með á næstu gráðun sem fram fór 17. júní síðastliðinn. Hann sagði að kröfurnar væru ekki miklar en mætingin hjá mér væri nokkuð gloppótt auk þess sem stutt væri síðan ég hefði verið í síðustu gráðun. Mætingin var gloppótt vegna Íslandsferða minna fyrr í vetur. Hann sagði að ég fengi því leyfi til að "springe den her over", þ.e. að sleppa þessari gráðun. Ég þakkaði bara pent fyrir mig og sætti mig við dóminn. Var hálflétt því þá var ekki eins mikil pressa að leggja kóresku fræðin á minnið, en við gráðun er alla jafna fræðilegur hluti þar sem spurt er um hin og þessi hugtök úr kóresku sem getur verið strembið að muna.

Dagarnir liðu. Á æfingu fimmtudaginn 14. júní var svo hengdur upp listi þar sem fram komu nöfn þeirra sem áttu að mæta í gráðun. Mér til mikillar furðu var ég á þeim lista. Ég spurði þjálfarann aftur til að vera viss og hann staðfesti þetta, mér til blendinnar ánægju því núna þurfti ég að vinna upp tvær vikur af einbeitningarleysi. Til að gera langa sögu stutta þá kom ég, sá og sigraði þessa gráðun og fékk þar með "græna beltið" í Taekwondo, sem ég ber með mér allar götur síðan. Fékk meira að segja klapp á bakið fyrir góða fræðakunnáttu. Annar liður í prófinu var "barátta við andstæðing". Þá klæddu sig allir hjálma og brynjur í og háðar voru tvímennings orrustur, hver þeirra þrjár lotur. Ég var drepinn þrisvar sinnum, en þó ekki verr en svo að standast gráðunina.

Myndbandið hér að ofan fann ég hjá ÍR. Það er sérstaklega skemmtilegt fyrir þær sakir að það er tekið upp í klúbbnum mínum í Virum. Ekki láta flotta jakkan blekkja ykkur, gaurinn í "venjulegu" fötunum er enginn annar en Meistari Allan Olsen. Hann er meistari yfir mörgum klúbbum í Danmörku og á Íslandi.