30 nóvember 2005

3

29 nóvember 2005

4

20 nóvember 2005

Lesið vir2004

Bragi er með tillögu að desemberhittingi heima á Fróni í jólafríinu. Ég legg til að allir vírarar sem ekki vilja vera fjarri góðu gamni leggi leið sína á vir2004 síðuna okkar og leggi orð í belg. Þeir sem vilja vera fjarri góðu gamni ættu líka að setja inn athugasemd.

11 nóvember 2005

Kvenbílstjórar eru verri

Í gær var annað pókerkvöldið hjá okkur, strákunum í Danmörku. Að þessu sinni var hist heima hjá Ara, en hann býr niðri á Íslandsbryggju (hversu viðeigandi getur þetta verið?). Það kom í ljós að Ari býr í mesta hobbýherbergi í heiminum. þar er allt í senn, tölva, fótboltaspil, píluspjald og pókersett. Það var því ekki augnablik af leiðindum í boði. Byrjað var á nokkrum lotum af borð-fótbolta, því næst var pöntuð tyrkjapizza. Pizzustaðurinn var á jarðhæð í sama húsi og Ari býr í (sem bætir enn frekar á hobbýherbergis-þemað sem er í gangi þarna). Spilið gekk langt fram á nótt og þegar upp var staðið var ég aftur í plús, þrátt fyrir að látlaust hafi verið svindlað á mér. Ég græddi 2200 % meira en síðast og ef þetta heldur áfram sem horfir þá fer heildarvinningurinn að nægja til að borga strætóferðina (1 stk aðra leið).
Ég lenti aftur í því að þurfa að hlaupa eins og ég ætti lífið að leysa, en núna var ég að ná næstsíðasta vagni.
Ég horfði á vagninn taka af stað, en þegar hann færst áfram um tvo metra neiddist hann að stoppa og bíða eftir að umferðinni linnti svo að hann kæmist út á götu. Ég kom hlaupandi upp að vagninum og, ólíkt kvöldinu áður, bankaði ég kurteisislega á strætó dyrnar en brá heldur betur í brún þegar strætóbílstjórinn, sem var kona, horfði bara illilega á mig hristi höfuðið hægt og sat svo bara áfram og beið eftir að komast út á götu. Fyrir vikið fékk ég að standa í náttmyrkrinu í hálftíma og bíða eftir síðasta vagninum. Ég þakkaði bara mínum sæla fyrir að þetta var ekki síðasti vagninn.
Aðeins einu sinni man ég eftir að hafa fengið svona kaldar móttökur frá vagnstjóra. Það var á Íslandi fyrir tæpum einum og hálfum áratug síðan. Það voru keimlíkar kringumstæður. Þá var ég lítill trítill, sem kom hlaupandi úr tónlistarskólanum með fiðlutöskuna í hendi í frosti og kulda. Strætó keyrir af stað þegar ég kem hlaupandi á eftir honum en lendir á rauðu ljósi á næstu gatnamótum, sem voru aðeins örfáum metrum frá (ljósin á horni Frakkastígs og Hverfisgötu). Ég, líkt og í gær, bankaði kurteisislega á dyrnar og konan sem ók þeim strætisvagni horfði bara á mig og hristi höfuðið hægt og rólega. Síðan sat hún bara þarna í mestu makindum þangað til ljósið varð aftur grænt og ég fékk að slá mér hita í frosthörkunni þangað til næsti vagn kom.
Í báðum tilfellunum voru bílstjórarnir kvennkyns og ég man ekki eftir að karlkyns vagnstjóri hafi komið svona fram við mig. Því verð ég að draga þá ályktun að kvenkyns bílstjórar séu verri, þ.e. í merkingunni illar. Konur eru engan veginn ófærari bílstjórar en karlar (jafnvel betri) en þegar þær komast undir stýri þá virðast þær missa alla samúð. Kannski er það fullgróft hjá mér að alhæfa svona, en tölfræðin talar sínu máli.

10 nóvember 2005

Jazzhouse

Þau ykkar sem fylgst hafa með tóku eftir því að ég keypti miða á Brad Mehldau Trio fyrir löngu síðan. Í gær var örlagadagurinn mikli. Ég ferðaðist til Jazzhouse, en það er staðurinn sem tónleikarnir fóru fram á. Hann er staðsettur við Niels Hemmingsens Gade sem er hliðargata af Strøget, eða Strikinu eins og Íslendingar kalla það. Þetta er ekki stór staður en hann er ágætur sem djasstónleikastaður. Áhorfendur sátu nánast uppi á sviðinu og ég var ekki meira en tveimur til þremur metrum frá snillingunum. Ég mætti klukkutíma fyrir sýningu og fékk fyrir vikið þetta fína sæti.
Það var uppselt og í Jazzhouse þýðir það troðfullt hús. Það var styttra á milli sætaraða en í Háskólabíói og ég sá fyrir mér í anda vandamálin sem kæmu upp ef eldur myndi kvikna. Til allrar hamingju gerðist það ekki, fyrir utan eldmóðin sem hljómsveitin kveikti. Ég sat við hliðina á norskum hjónum sem voru mjög líbó og spjölluðu helling við mig. Hann talaði ensku við mig en jánkaði öllu á Norsku, jooh! hrópaði hann þegar látlaust yes, jeh (á danska vísu) eða já hefði dugað.
Ég ræddi líka við annan náunga í biðröðinni á klósettið og eftir þetta úrtak get ég dregið þá ályktun að meðal Brad Mehldau áhorfandinn sé karlkyns, áhugapíanisti, milli tvítugs og fimmtugs.
Tónleikarnir sjálfir voru alveg hreint magnaðir. Brad er ótrúlega fær og lagavalið var skemmtilegt. Lék hann þá jafnt eigin lög sem annarra. Hann tók meira að segja eitt nýtt lag sem ekki hafði hlotið neinn titil ennþá. Ég held ég hafi aldrei verið á tónleikum þar sem ég hef heyrt jafn glæsilega leikið á píanóið. Brad býr yfir ótrúlegri tækni og hver einasta nóta hljómaði ótrúlega vel. En hann á ekki einn heiðurinn af frábærum tónleikum því með honum léku Larry Grenadier, á bassa, og Jeff Balmer, á trommur. Þeir voru báðir magnaðir og slæ ég því hér með á fast að þeir séu snillingar, hver á sitt hljóðfæri, þó svo ég sé ekki mikil sérfræðingur í trommu- eða bassaspili.
Tónleikarnir byrjuðu kortér í níu, áttu að byrja hálf en svona eru stjörnustælarnir í þessum gaukum. Á móti kom að þeir spiluðu eins og þeir ættu lífið að leysa, tóku þrjú uppklappslög og hvað eina. Ég leit ekki á klukkuna fyrr en ég stóð úti á götu fyrir utan Jazzhouse eftir tónleikana. Þá var hún fimm mínútur í miðnætti. Sýningin hafði verið rúmir þrír tímar (með hléi). Enda var orðið ansi sveitt þarna inni undir lokinn. Hvíta skyrtan, sem trommarinn var í var orðin gegnblaut. Sjálfur var ég kófsveittur, þó ég hafi bara setið. Sá eini í húsinu sem virtist ekki svitna var Brad. Hann sýndi ekki svipbrigði alla tónleikana, svellkaldur.
En hvað um það. Ég stóð úti á götu eftir tónleikana og horfði á úrið, fimm mínútur í tólf. Síðasta ferðin, sem vagninn minn fer, upp í Lyngby fór frá Nørreport klukkan þrjár mínútur yfir tólf. Með því að hlaupa hraðar en Michael Johnson dreymir um, vera mjög heppinn með neðanjarðarlestina og hlaupa síðan ennþá hraðar síðustu metrana þegar ég sá vagninn keyra af stað, berja og góla utan í akandi vagninn, tókst mér að fá far. Þetta sparaði mér töluvert vesen við heimförina. Ég hélt (og núna er ég ekki að grínast) að það myndi líða yfir mig í vagninum, ég hljóp svo hratt. Ég sat másandi og blásandi í vagninum eins og ég væri að kafna. En ég jafnaði mig þó og komst heim í heilu lagi.
Niðurstaða: Stórfínir tónleikar plús "holl" loftháð líkamsrækt plús náði vagninum jafngildir vel heppnað kvöld. Sáttur!

09 nóvember 2005

Christiansborg slotskirke

Kóræfingin í gær fór fram í Christiansborg slotskirke. Hún sést hérna á myndinni. (Kirkjan er byggingin með súlurnar yfir inngangnum). Stóra byggingin í framhaldi af kirkjunni er Christiansborg höllin (þessi stóra gráa með koparþakinu og turni efst).

Það sést líka í aftari hlutann á styttu af manni á hesti, en ég hef ekki hugmynd um hver það á að vera.
Kórstjórnandinn okkar er í orgelnámi við hinn konunglega tónlistarskóla Danmerkur og hefur því lyklavöld að kirkjunni, þar sem hún er æfingarhúsnæði orgeldeildar skólans. Þar er líka svakalegur fjöldi af orgelum, píanóum og margskonar ættingjum þessara hljóðfæra frá ýmsum tímum tónlistarsögunnar. Það var mjög gaman að æfa í þessu húsi, þó svo að vísu hafi ekki verið æft í aðalsalnum nema að mjög litlu leiti. En það er svo mikil lofthæð og (að mér finnst) gott andrúmsloft þarna inni. Ég fann þessa skemmtilegu síðu, fyrir þá sem vilja sjá hvernig kirkjan er að innan. Hátindur æfingarinnar var að geta prófað að spila á sembal, en slíkt hef ég ekki gert fyrr. Það er gjörólíkt því að spila á píanó.
Eftir æfinguna var farið á pub. Krakkarnir fóru á stað sem býður oft upp á lifandi jazz. Að vísu var ekkert að gerast þar þetta kvöldið, fyrir utan komu okkar. En um helgar er víst þrumustuð þarna og stór nöfn úr dönsku jazzsenunni munu víst leika þarna á sunnudaginn. Kannski skelli ég mér.

07 nóvember 2005

Helgi í sveitinni

Ég fór í ferðalag út í sveit og heimsótti systur mína, Gunnþórunni, sem býr í Árósum ásamt kærastanum sínum, Michael, og litlu stelpunni þeirra, Nínu Margréti. Ég fór eldsnemma um laugardagsmorguninn, skellti mér í lestina og þaut af stað út í óvissuna. Það fór framhjá mér alfarið að í langlestarferðum, hér í Danmörku, þarf að kaupa sérstaka viðbót við lestarmiðann ef maður vill vera þeirra þæginda njótandi að fá að sitja á leiðinni. Ég gekk inn í lestina og hlunkaðist í næsta lausa sæti til þess eins að standa strax upp aftur, ekki af því að eigandi sætisins kom, heldur vegna þess að eldri hjón, sem sátu í sömu sætaröð, tóku á sig þá borgaralegu skyldu að reka mig í burtu. Sætin voru víst frátekin frá Óðinsvéum til Árósa, auk þess sem þau sjálf sögðust fara úr í Óðinsvéum og sögðu þau við mig að ég mætti sitja í sætinu frá Óðinsvéum eftir að þau færu sjálf úr. Ég þurfti því að ráfa á milli sæta, sem var þó skömminni skárri en að standa í þessa rúmu þrjá tíma sem ferðin tók.
Þegar ég kom til Árósa tók Michael á móti mér á lestarstöðinni, bauð mig velkominn, og brunaði með mig niður á Bazaar. Bazaar er risastór markaður líkur kolaportinu þar sem hægt er að kaupa allt milli himins og jarðar. Þessi staður er alfarið í höndum tyrkneskra innflytjenda og það er ansi skemmtileg stemning að koma þarna. Eins og að vera kominn stundarkorn til Tyrklands. Þarna keyptum við grænmeti fyrir slikk og fengum okkur e-s konar tyrkneskt enchilada í Arababrauði (svokölluðu) og var þetta firnagott. Við keyptum fleiri kíló af ávöxtum og grænmeti sem nota átti í skírnar- og afmælisveislu á sunnudeginum.
Þannig var mál með vexti að Nína litla hafði verið skírð á Íslandi og aldrei fengið neina skírnarveislu í Danmörku, fyrir dönsku fjölskylduna. Til viðbótar við þetta átti Nadi, stelpan sem Michael á fyrir, 10 ára afmæli, þ.a. mikil veisla var í uppsiglingu.
Við ókum því næst heim til þeirra og fékk ég hlýjar móttökur, ekki síst frá Nínu sem er ótrúlega brosmild (þó svo hún eigi það til að vakna í fýlu um miðjar nætur) og ósköp sæt. Ég kynntist nokkrum nágrönnum þeirra og fékk að skoða plöntusafnið hans Michael, sem er ansi laglegt, þar er að finna plöntur sem ég hef aðeins séð í bókum eins og t.d. Nepenthes coccinea. Um kvöldið var m.a. spilað Risk og horft á South Park á þýsku, sem er að mínu mati skemmtilegra en að horfa á það á ensku.
Daginn eftir var stóra veislan. Þau höfðu leigt sal og klukkan tvö byrjaði fólkið að streyma inn. Fólk var að mæta allstaðar að frá Danmörku og víðar. Sumir frá Kaupmannahöfn og Lyngby, foreldrar Michaels búa síðan í námunda við þýsk-dönsku landamærin. Mjög margir voru þó frá Árósum og nágrenni. Þarna voru hvort tveggja Íslendingar og Danir og allir í asastuði. Ég fékk að spreyta mig á dönskunni og niðurstaðan var sú að ég þarf virkilega að vinna í henni, ekki síst orðaforða. Mörg samtöl höfnuðu sem einræða danans ásamt samþykki frá mér, á forminu "ja" eða "ok". En þetta var engu að síður mjög lærdómsríkt. Boðið var upp á óteljandi sortir af kökum og kræsingum, íslenskum sem dönskum. Mikið framboð var á hnossgætinu og allir fóru mettir heim. Það kom síðan aðeins í bakið á okkur aftur því að nú þurfti vinna í að afgreiða þessa afganga að veislunni lokinni. Skötuhjúin gerðu sér bara lítið fyrir og slógu upp annarri veislu (öllu fámennarri þó) fyrir nágranna sína í blokkinni. Reyndar höfðu þau öll verið í hinni veislunni, en það hindraði fólk ekki í að mæta og skella í sig einum til tveimur kökusneiðum.
Ég lagði ekki af stað heim fyrr en um mánudagsmorguninn. Ég átti frí um morguninn og náði því rétt mátulega í fyrirlesturinn eftir hádegi. Í heildina litið nokkuð þétt helgi.

03 nóvember 2005

Föstudagskvöld

Það er nokkuð ljóst að bloggið er komið nokkrum dögum úr fasa, en þar sem undanfarnir dagar hafa verið frekar viðburðalitlir ætti ég fljótlega að komast aftur á strik.

Mig langar samt að segja frá síðasta föstudagskvöldi. Þá voru hér í bæ þær Soffía og Svava ásamt skautafélagi frá Íslandi. Þær stöllur hringdu í mig og spurðu hvort ég hefði áhuga á að fara út að borða með þeim. Ég var ekki í nokkrum vafa, greip húfuna mína og stakk henni í vasann, skellti á mig jakka og hjólaði eins og fætur toguðu (eða þannig) niður í bæ. Um áttaleitið byrjuðum við á allrækilegri leit að veitingastað því það kom í ljós að ótrúlega margir veitingastaðir lokuðu klukkan 8 ... og það á föstudagsköldi! Sem okkur fannst alveg út í hött. Á endanum höfðum við ráfað um nokkurnveginn hvern einn og einasta kima Lyngby en fundum loksins einn stað sem var opinn svona seint. Það var ekki sérlega snyrtilegur staður, frekar hávær og virtist frekar vera bar en veitingastaður. En við pöntuðum okkur að borða og verð ég að viðurkenna að mér fannst maturinn þokkalegur ég fékk hálfan kjúkling og (bókstaflega) fjall af frönskum kartöflum, svo mikið að ég gat ekki klárað þær allar og er þá mikið sagt. Við ræddum alla heima og geima og svo um tíuleitið fylgdi ég skvísunum út á lestarstöð, því þær búa í Fredriksberg. Þegar þessu var lokið hjólað ég aftur í mestu makindum heim á kollegí.
Fyrir þau sem ekki vita tekur það u.þ.b. korter að hjóla niður í Lyngby frá kollegíinu en rúmar 20 mínútur til baka því þar er svakaleg brekka, sem ég kalla Byrjendabrjót því byrjendur og þolminni hjólreiðamenn hafa það ekki af (nema með miklum erfiðismunum) að hjóla upp brekkuna.


Hér sést Lance hjóla upp Byrjendabrjót.

Þegar ég kom heim á kollegíið og leit í vasa minn kom í ljós að húfan mín var horfin. Ég held frekar mikið upp á þessa húfu. Hún hafði dottið úr vasanum mínum. Þ.a. klukkan hálf ellefu um föstudagskvöld hjólaði ég af stað í niðamyrkri til að finna svarta húfu sem lá, hugsanlega, einhversstaðar á svörtu malbikinu í Lyngby. Ég þurfti núna að fara nákvæmlega sömu leið og við höfðum farið fyrr um daginn, nema miklu hægar, skimandi göturnar eftir húfunni. Þá fyrst fann ég fyrir því að við höfðum farið út um allt. Ég kom líka við á lestarstöðinni og veitingastaðnum, en hvergi var húfan mín. Eftir rúmlega klukkutíma leit snéri ég heim á leið tómhentur. Ég hélt samt áfram að skima göturnar þar sem ég hafði hjólað, samkvæmt umferðarreglum, hægra meginn á götunni báðar leiðir.
Og viti menn húfan lá á svörtu malbikinu í dimmunni undir dauðum ljósastaur aðeins 2 mínútum frá kollegíinu. Ég hafði sem sagt misst húfuna á síðustu metrunum. Hefði ég farið öfugan hring í leit að henni hefði leitin tekið 5 mínútur, ekki 90. En ég fann húfuna og var nokkuð ánægður með það. Það sem meira var þá lá hún á þurru malbiki, ekki í drullupolli eða e-u ógeði. Heppinn!

Svona voru skilyrðin þar sem ég fann húfuna mína