03 nóvember 2005

Föstudagskvöld

Það er nokkuð ljóst að bloggið er komið nokkrum dögum úr fasa, en þar sem undanfarnir dagar hafa verið frekar viðburðalitlir ætti ég fljótlega að komast aftur á strik.

Mig langar samt að segja frá síðasta föstudagskvöldi. Þá voru hér í bæ þær Soffía og Svava ásamt skautafélagi frá Íslandi. Þær stöllur hringdu í mig og spurðu hvort ég hefði áhuga á að fara út að borða með þeim. Ég var ekki í nokkrum vafa, greip húfuna mína og stakk henni í vasann, skellti á mig jakka og hjólaði eins og fætur toguðu (eða þannig) niður í bæ. Um áttaleitið byrjuðum við á allrækilegri leit að veitingastað því það kom í ljós að ótrúlega margir veitingastaðir lokuðu klukkan 8 ... og það á föstudagsköldi! Sem okkur fannst alveg út í hött. Á endanum höfðum við ráfað um nokkurnveginn hvern einn og einasta kima Lyngby en fundum loksins einn stað sem var opinn svona seint. Það var ekki sérlega snyrtilegur staður, frekar hávær og virtist frekar vera bar en veitingastaður. En við pöntuðum okkur að borða og verð ég að viðurkenna að mér fannst maturinn þokkalegur ég fékk hálfan kjúkling og (bókstaflega) fjall af frönskum kartöflum, svo mikið að ég gat ekki klárað þær allar og er þá mikið sagt. Við ræddum alla heima og geima og svo um tíuleitið fylgdi ég skvísunum út á lestarstöð, því þær búa í Fredriksberg. Þegar þessu var lokið hjólað ég aftur í mestu makindum heim á kollegí.
Fyrir þau sem ekki vita tekur það u.þ.b. korter að hjóla niður í Lyngby frá kollegíinu en rúmar 20 mínútur til baka því þar er svakaleg brekka, sem ég kalla Byrjendabrjót því byrjendur og þolminni hjólreiðamenn hafa það ekki af (nema með miklum erfiðismunum) að hjóla upp brekkuna.


Hér sést Lance hjóla upp Byrjendabrjót.

Þegar ég kom heim á kollegíið og leit í vasa minn kom í ljós að húfan mín var horfin. Ég held frekar mikið upp á þessa húfu. Hún hafði dottið úr vasanum mínum. Þ.a. klukkan hálf ellefu um föstudagskvöld hjólaði ég af stað í niðamyrkri til að finna svarta húfu sem lá, hugsanlega, einhversstaðar á svörtu malbikinu í Lyngby. Ég þurfti núna að fara nákvæmlega sömu leið og við höfðum farið fyrr um daginn, nema miklu hægar, skimandi göturnar eftir húfunni. Þá fyrst fann ég fyrir því að við höfðum farið út um allt. Ég kom líka við á lestarstöðinni og veitingastaðnum, en hvergi var húfan mín. Eftir rúmlega klukkutíma leit snéri ég heim á leið tómhentur. Ég hélt samt áfram að skima göturnar þar sem ég hafði hjólað, samkvæmt umferðarreglum, hægra meginn á götunni báðar leiðir.
Og viti menn húfan lá á svörtu malbikinu í dimmunni undir dauðum ljósastaur aðeins 2 mínútum frá kollegíinu. Ég hafði sem sagt misst húfuna á síðustu metrunum. Hefði ég farið öfugan hring í leit að henni hefði leitin tekið 5 mínútur, ekki 90. En ég fann húfuna og var nokkuð ánægður með það. Það sem meira var þá lá hún á þurru malbiki, ekki í drullupolli eða e-u ógeði. Heppinn!

Svona voru skilyrðin þar sem ég fann húfuna mína