26 ágúst 2005

Danskar stelpur borða of mikið !

Í dag var farið í húsgagnakaup. Kominn tími til. Ég kom hingað með stórar áætlanir um að eltast við notaðar vörur og allslags tilboð en þegar á hólminn kom keypti ég bara í IKEA. Ég þurfti að panta sendingu fyrir stóru hlutin (skrifborð, rúm og stól) og var þá spurður: ,,Hvenær verðurðu heima til að taka við þessu?" Ég leit á klukkuna, sem var tvö, og sagði að ég yrði kominn heim klukkan þrjú. Gaurinn svaraði mér að ég yrði að gefa upp þriggja tíma ramma. Þannig að ég samþykkti að vera heima frá þrjú til sex.
Ég kom aftur á kollegíið klukkan 14:30. Ég var viss um að biðin eftir IKEA dótinu yrði mjög stutt og tíminn auk þess fljótur að líða, þar sem ég hafði nóg fyrir stafni. Ég hafði ekki einu sinni byrjað að pakka úr töskunum mínum, en það er innbyggður skápur í herberginu þ.a. ekkert var því til fyrirstöðu að byrja. Ég skipulagði skápaplássið og pakkaði úr töskunum þremur. Því næst setti ég saman lampann sem ég hafði einnig keypt, en ég hafði tekið hann sjálfur þar sem hann var svo lítill. Ég arkaði síðan út og skimaði eftir bílstjóranum. Hann sást hvergi. Ég leit á klukkuna ... 14:50 ... ég fór aftur inn á herbergi.
Ég ákvað að skella mér á klósettið. Opnaði dyrnar og kveikti ljósin og fraus. Í vaskinum var stærsta kónguló sem ég hef á æfi minni séð (Return of the King er talin með). Ég bakkaði hægt út og hallaði hurðinni. Ég slökkti ekki ljósin til að ergja hana ekki. Ég dróg djúpt andann og horfði í kring um mig. Hvað hafði ég til að drepa kóngulónna. Herbergið var tómt. Ég gat notað fötin mín úr skápnum, en svona óargadýr rífur sig í gegnum gallabuxur eins og ekkert sé og beltissylgjan mín hefði bara kitlað hana. Ég opnaði aftur dyrnar um örlitla rifu og kíkti inn. Kóngulóin sást ekki. Skrambans kvikindið var farið á stjá. Ég opnaði aðeins betur og horfði í kringum mig. Ég sá hana ekki. Ég steig alveg inn og leitaði hátt og lágt. Kóngulóin var ekki þarna. Gleðin entist ekki lengi því, þó svo að kóngulóin hafi ekki birst ennþá, þá óttast ég helst að hún muni narta í kálfann á mér eitthvert kvöldið þegar ég á mér einskis ills von. Ég býst eins við því að nemendur taki í kjölfarið að hverfa af kollegíinu, á dularfullan hátt. Ég slökkti á baðherberginu, lokaði hurðinni og settist á gólfið og horfði upp í loft.
Klukkan 17:57 kom IKEA bíllinn. Gaurinn var hinn vinarlegasti og varð mjög forvitinn um Íslenskan uppruna minn. Hann spurði hvort íslenskar stelpur væru sætar. Ég jánkaði því. Þá spurði hann hvort ég ætti danska kærustu. Ég sagði nei en tók fram að danskar stelpur væru nokkuð sætar þ.a. ég útilokaði ekki möguleikann í framtíðinni. Hann var ekki sammála. ,,Danskar stelpur eru feitar, þær borða of mikið !" heimtaði hann. Ég gat ekkert sagt. Hann býr hérna en ég hef verið hérna í tæpa viku. Ég get samt ekki sagt að stelpurnar hérna séu feitar að staðaldri. Kanski var gaurinn alinn upp í anorexíulandi EÐA kanski er ferðavika feitu dönsku stelpnanna einmitt í gangi núna. Þær fara allar í hópferð til Þýskalands eða Svíþjóðar og koma heim um helgina. Ég kemst vonandi til botns í þessu. En nóg af þessu rugli.

24 ágúst 2005

Bloggbull

Ég var mjög ánægður að sjá að ég hafði fengið athugasemdir frá áhugasömum notendum við æsispennandi bloggfréttir mínar. Fínt var að fá uppbyggileg komment frá Braga um að betra væri að nota Haloscan kommentakerfið til að forðast margsskonar vandamál. Verra var að fá niðurdrepandi komment frá ,,Your Great Blog Will Be Even Better IF YOU Buy Insurance Online Now". Enn leiðinlegra var að fá tíu slík boð. Ég ákvað því að fylgja eftir tillögu Braga og er núna kominn með hið fræga Haloscan kerfi. Nú er bara að vona að það standi sig í stykkinu. Einn kosturinn við uppfærsluna var að ömurlegu athugasemdirnar hurfu allar, hins vegar hurfu allar góðu athugasemdirnar líka þ.a. bloggið mitt er einmana og athugasemdalaust.
Annars er ég í tölvurugli eins og er. Eina nettengda tölvan sem ég hef aðgang að er iMac. Ég er mikill aðdáandi Macintosh tölva og hef ekkert út á þær að setja. En þar sem ég er búinn að venja mig á Windows tölvur (og uppsetninguna sem þar ríkir í skipan takka á lyklaborði) er ég vanur að ýta á Alt Gr hnapp og Q til að skrifa @ merkið. Svo skemmtilega vill til að sama handahreifing á Macintosh lyklaborði slær á slaufulykilinn (einnig kallaður apple takki) og Q sem er flýtilykillinn sem hættir í forritinu sem er í gangi. Fyrir vikið er ég nokkrum sinnum búinn að skrifa email (nokkur jafnvel á dönsku) og hætti svo í forritinu um leið og ég skrifa inn póstfangið. Niðurstaða: Ég þarf að skrifa öll email tvisvar.
Bragi hafði líka komið með tillögu um að ég ætti að blogga daglega, í stað þess að tækla nokkra daga í einu eins og ég gerði hérna áður. Það væri auðveldara ef ég skildi bloggumhverfið. Hvað áttu við? Nú af einhverri ástæðu er bloggarsvæðið mitt á Japönsku. Ég veit ekki afhverju, en ég get ekki breytt því. Það virðist tengjast notkun á Safari vafranum í Danmörku því þetta virkaði ágætlega í Firefox á Íslandi. Þar sem ég kann hvorki hiragana né katagana mætti það teljast mesta mildi að ég skuli yfir höfuð takast að koma þessum skrifum frá mér. Núna ætti ég að vera búinn að fæla flesta frá þessari bloggsíðu. En ég lofa því að á morgunn verður e-ð skárra hérna. Ég get örugglega fundið eitthvað áhugaverðara eins og skrítnu bóluna á handleggnum á mér. Það verður efni í að minnsta kosti tvö blogg.

Kominn til DK

Jæja,

Þá er hann bara kominn til Danmerkur. Ég flaug út á mánudaginn kl. 15:30 og lenti á Kastrup flugvelli um hálfníu leitið. Gísli frændi sótti mig á flugvöllinn og ég gisti heima hjá þeim á Kongensvej. Þar hitti ég líka tvær nýútskrifaðar stúdínur sem eru að hefja nám í viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar.

Á þriðjudeginum var stóra skrefið tekið. Ég tók lestina til Lyngby og skoðaði skólann og kollegiet sem ég mun búa á. Þetta leit allt þokkalega út. Ég hafði ætlað mér að skoða aðstöðuna í tónlistarherberginu og líkamsræktarstöðinni en gekk illa að finna þetta auk þess sem ákveðum svæðum var lokað vegna einhverrar líffræðiráðstefnu sem var í gangi. Mér tókst hins vegar að skrá mig inn í landið hjá folkeregisteret i Lyngby. Það var hálfgert afrek út af fyrir sig. Ég hafði gleymt að athuga hvar það var staðsett. Ég vissi að það var í Lyngby og tókst svo að finna það með ráfað-um-göturnar leitaraðferðinni (leitin tók O(exp(n)) tíma). En þegar ég hafði fundið staðinn tók skráningin ekki nema 5 mínútur (biðtími innifalinn), auk þess sem konan sem ég talaði við var einstaklega vinaleg.

Í dag, miðvikudag, ætla ég að kíkja í rúmfatalagerinn (Jyske) og IKEA auk þess sem ég ætla að kíkja á notaðar vörur í blå avisen o.s.frv.

15 ágúst 2005

Fyrsta færslan

Þá er ný bloggsíða komin á netið. Hér getur þú fylgst með æsispennandi ferð minni til hinnar ævintýrakenndu og framandi Danmerkur. Fylgist með!