07 nóvember 2005

Helgi í sveitinni

Ég fór í ferðalag út í sveit og heimsótti systur mína, Gunnþórunni, sem býr í Árósum ásamt kærastanum sínum, Michael, og litlu stelpunni þeirra, Nínu Margréti. Ég fór eldsnemma um laugardagsmorguninn, skellti mér í lestina og þaut af stað út í óvissuna. Það fór framhjá mér alfarið að í langlestarferðum, hér í Danmörku, þarf að kaupa sérstaka viðbót við lestarmiðann ef maður vill vera þeirra þæginda njótandi að fá að sitja á leiðinni. Ég gekk inn í lestina og hlunkaðist í næsta lausa sæti til þess eins að standa strax upp aftur, ekki af því að eigandi sætisins kom, heldur vegna þess að eldri hjón, sem sátu í sömu sætaröð, tóku á sig þá borgaralegu skyldu að reka mig í burtu. Sætin voru víst frátekin frá Óðinsvéum til Árósa, auk þess sem þau sjálf sögðust fara úr í Óðinsvéum og sögðu þau við mig að ég mætti sitja í sætinu frá Óðinsvéum eftir að þau færu sjálf úr. Ég þurfti því að ráfa á milli sæta, sem var þó skömminni skárri en að standa í þessa rúmu þrjá tíma sem ferðin tók.
Þegar ég kom til Árósa tók Michael á móti mér á lestarstöðinni, bauð mig velkominn, og brunaði með mig niður á Bazaar. Bazaar er risastór markaður líkur kolaportinu þar sem hægt er að kaupa allt milli himins og jarðar. Þessi staður er alfarið í höndum tyrkneskra innflytjenda og það er ansi skemmtileg stemning að koma þarna. Eins og að vera kominn stundarkorn til Tyrklands. Þarna keyptum við grænmeti fyrir slikk og fengum okkur e-s konar tyrkneskt enchilada í Arababrauði (svokölluðu) og var þetta firnagott. Við keyptum fleiri kíló af ávöxtum og grænmeti sem nota átti í skírnar- og afmælisveislu á sunnudeginum.
Þannig var mál með vexti að Nína litla hafði verið skírð á Íslandi og aldrei fengið neina skírnarveislu í Danmörku, fyrir dönsku fjölskylduna. Til viðbótar við þetta átti Nadi, stelpan sem Michael á fyrir, 10 ára afmæli, þ.a. mikil veisla var í uppsiglingu.
Við ókum því næst heim til þeirra og fékk ég hlýjar móttökur, ekki síst frá Nínu sem er ótrúlega brosmild (þó svo hún eigi það til að vakna í fýlu um miðjar nætur) og ósköp sæt. Ég kynntist nokkrum nágrönnum þeirra og fékk að skoða plöntusafnið hans Michael, sem er ansi laglegt, þar er að finna plöntur sem ég hef aðeins séð í bókum eins og t.d. Nepenthes coccinea. Um kvöldið var m.a. spilað Risk og horft á South Park á þýsku, sem er að mínu mati skemmtilegra en að horfa á það á ensku.
Daginn eftir var stóra veislan. Þau höfðu leigt sal og klukkan tvö byrjaði fólkið að streyma inn. Fólk var að mæta allstaðar að frá Danmörku og víðar. Sumir frá Kaupmannahöfn og Lyngby, foreldrar Michaels búa síðan í námunda við þýsk-dönsku landamærin. Mjög margir voru þó frá Árósum og nágrenni. Þarna voru hvort tveggja Íslendingar og Danir og allir í asastuði. Ég fékk að spreyta mig á dönskunni og niðurstaðan var sú að ég þarf virkilega að vinna í henni, ekki síst orðaforða. Mörg samtöl höfnuðu sem einræða danans ásamt samþykki frá mér, á forminu "ja" eða "ok". En þetta var engu að síður mjög lærdómsríkt. Boðið var upp á óteljandi sortir af kökum og kræsingum, íslenskum sem dönskum. Mikið framboð var á hnossgætinu og allir fóru mettir heim. Það kom síðan aðeins í bakið á okkur aftur því að nú þurfti vinna í að afgreiða þessa afganga að veislunni lokinni. Skötuhjúin gerðu sér bara lítið fyrir og slógu upp annarri veislu (öllu fámennarri þó) fyrir nágranna sína í blokkinni. Reyndar höfðu þau öll verið í hinni veislunni, en það hindraði fólk ekki í að mæta og skella í sig einum til tveimur kökusneiðum.
Ég lagði ekki af stað heim fyrr en um mánudagsmorguninn. Ég átti frí um morguninn og náði því rétt mátulega í fyrirlesturinn eftir hádegi. Í heildina litið nokkuð þétt helgi.