09 nóvember 2005

Christiansborg slotskirke

Kóræfingin í gær fór fram í Christiansborg slotskirke. Hún sést hérna á myndinni. (Kirkjan er byggingin með súlurnar yfir inngangnum). Stóra byggingin í framhaldi af kirkjunni er Christiansborg höllin (þessi stóra gráa með koparþakinu og turni efst).

Það sést líka í aftari hlutann á styttu af manni á hesti, en ég hef ekki hugmynd um hver það á að vera.
Kórstjórnandinn okkar er í orgelnámi við hinn konunglega tónlistarskóla Danmerkur og hefur því lyklavöld að kirkjunni, þar sem hún er æfingarhúsnæði orgeldeildar skólans. Þar er líka svakalegur fjöldi af orgelum, píanóum og margskonar ættingjum þessara hljóðfæra frá ýmsum tímum tónlistarsögunnar. Það var mjög gaman að æfa í þessu húsi, þó svo að vísu hafi ekki verið æft í aðalsalnum nema að mjög litlu leiti. En það er svo mikil lofthæð og (að mér finnst) gott andrúmsloft þarna inni. Ég fann þessa skemmtilegu síðu, fyrir þá sem vilja sjá hvernig kirkjan er að innan. Hátindur æfingarinnar var að geta prófað að spila á sembal, en slíkt hef ég ekki gert fyrr. Það er gjörólíkt því að spila á píanó.
Eftir æfinguna var farið á pub. Krakkarnir fóru á stað sem býður oft upp á lifandi jazz. Að vísu var ekkert að gerast þar þetta kvöldið, fyrir utan komu okkar. En um helgar er víst þrumustuð þarna og stór nöfn úr dönsku jazzsenunni munu víst leika þarna á sunnudaginn. Kannski skelli ég mér.