26 september 2005

Ferð í diskótekið

Ég gerði mér ferð í diskótekið hérna í Lyngby. Diskótek er hérna Danskt nýyrði sem Bjarki Mørch nágranni minn stakk upp á. Það er samsett úr orðinu Disk (CD) og Bibliotek. Lyngby, sem er bær í úthverfi Kaupmannahfnar hefur alveg hreint stórfínt diskótek. Úrvalið er þvílíkt fínt og skýtur borgarbókasafni Reykjavíkur ref fyrir rass að öllu leiti. Hérna eru engin mörk fyrir því hversu marga diska má fá að láni, heima eru mörkin 10. Hérna má fá þá lánaða í mánuð í senn sem má jafnframt framlengja að mánuði liðnum (t.d. í gegnum netið) ef enginn hefur beðið um diskinn. Heima nær maður varla að hlusta á plötuna áður en maður þarf að skila henni aftur, tveimur vikum eftir að maður fær hana. (Færðu engar hænur?)
Núna er ég t.d. með Keith Jarrett á fóninum og hef líka verið að hlusta á franskan snilling sem heitir Michel Petrucciani. Mæli með þessum mönnum. Ég hef ákveðið að ofnota þessa þjónustu gjörsamlega. Markmiðið er að fara a.m.k. vikulega í geisladiskaleiðangra. Ég velti því bara fyri mér hvernig úrvalið sé á bókasafni Kaupmannahafnar.