05 september 2006

Svefnskortur og byrjunarörðugleikar

Ég komst að því í gær að ég er á eldhúsvakt í þessarri viku. Það þýðir að ég þarf að þrífa eldhúsið í lok dags. Það þýðir að þegar ég var loksins búinn að pakka upp úr töskunni og hreinsa herbergið af öllum dauðu hrossaflugunum sem einhvern veginn komust inn á meðan ég var í burtu. Þurfti ég líka að þrífa eldhúsið, sem leit út fyrir að hafa ekki verið þrifið síðan í maí. Fyrir vikið komst ég ekki í draumalandið fyrr en klukkan var langt gengin í eitt. Til að bæta gráu ofan á svart þá átti nágranni minn afmæli í dag og vildi fá sína morgunafmælisveislu klukkan 7. Ég fékk því að vakna klukkan 6 í morgun (4 á Íslandi) til að fara út í bakarí og kaupa rúnstykki og annað bakkelsi, en reglur hér skikka nágrannan til þessa.
Síðan tók við fyrilestur til hádegis og annar frá hádegi. Ég ætla núna að fá mér snemmbúinn kvöldverð og halda á fyrstu kóræfinguna í vetur. Síðan er Eldhúsfundur í nótt og til að toppa allt er Nakkeostfesten í kjallarabarnum, en slíkt er siður fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði. Reynsla mín af slíku er drunandi dönsk R&B tónlist langt fram eftir nóttu. Hún á að vera búin klukkan 3 en ég vaknaði einu sinni klukkan 7 á miðvikudagsmorgni við það að hátíðin var enn í gangi og einhver ákvað að hækka aðeins betur í græjunum. Fyrir þá sem ekki vita sef ég (eða ligg andvaka, öllu heldur) u.þ.b. einum meter ofan við hátalara, aðeins næfurþunnt gólfið og rúmgarmurinn minn aðskilja okkur.
Sem bót í máli þá á ég frí í fyrramálið.