21 maí 2006

Kvalitetsslik

Ég, eins of fleiri, sit núna yfir námsefni vetrarins og bý mig undir próf. Ég lét undan freistingunni í fyrra dag og fjárfesti í forlátum lakkríspoka. Eins og allir vita eru danir miklir sælgætisframleiðendur og rómaðir fyrir góðan saltlakkrís. Þessi leit sérstaklega vel út með James Bond-lega teiknimyndamörgæs framan á pokanum. "Stærk saltlakrids" stendur á pokanum ásamt yfirlýsingunni "UDEN FARVESTOFFER" í stórum vinalegum stöfum á framhliðinni. Þetta er of gott til að vera satt, hugsaði ég og áður en ég vissi var ég búinn að kaupa pokann. Lakkrísinn bragðast alveg eins og hinar frægu lakkrís "salt pastiller" sem íslendingar kaupa gjarnan í fríhöfninni í Leifsstöð, en er hins vegar eins og flatar skífur í laginu. Eftir gaumgæfilega athugun tók ég eftir því að á bakhlið pokans stendur með örsmáu letri (rétt á eftir innihaldslýsingunni): "Voksenlakrids - ikke børnelakrids". Enn fremur stendur á þýsku (eða flæmsku) "Högstverzehr bei ständigem genuss 25g/Tag". Ég er ekki viss hvað það þýðir, en það hljómar illa. Ég myndi helst ætla að ekki væri ráðlegt að borða allt innihald pokans á sama deginum (pokinn vegur 85 grömm). Samt mætti ekki ætla, af pokanum að dæma, að verið væri að markaðssetja pokann síður til barna en fullorðinna, einkum þar sem James Bond-lega mörgæsin er framan á honum. Hérna er heimasíða nammipokans.