20 mars 2006

Opið bréf Björns til Vilhelmínu



Takk fyrir að skrifa. Það er nú munur að hafa svona skínandi gott veður á Íslandi, hér er alltaf sk*takuldi. Til að bæta gráu ofan á svart er víst fuglaflensa af verstu gerð komin til Danmerkur. Ekki hef ég samt miklar áhyggjur af því. Það er nóg að gera í skólanum, verkefnaálag eyksta alltaf í síðari hálflleik í verkfræðináminu. Ég hafði frétt af henni nöfnu þinni, þetta voru sorgartíðindi. Amma sagði mér í símtali að hún hefði ekki verið svo gömul miðað við það sem mætti vænta af kanínum. Það verður þó a.m.k. þrifalegra í þvottahúsinu. Ég man vel eftir Gauja og bústaðnum hans, það voru skemmtilegir tímar þegar ég gat setið og horft á video í sumarbústaðnum hjá afa og ömmu (ég hef víst alltaf verið innipúki). Þarna í sumarbústaðnum var til heil videoleiga af BetaMax videospólum, en BetaMax var videospólustaðallinn sem tapaði fyrir videospólunum sem við þekkjum svo vel. Fyrir vikið fór e-r videoleiga á hausinn og þrotabúið var sent upp í sumarbústað. Ég þekki ekki alveg nógu vel bakgrunn þessarra videospóla, en ég vildi óska þess að ég hefði mátt eiga spólusafnið (og videotækin, því það er ekki hægt að fá svoleiðis lengur, held ég, fyrir BetaMax) þegar bústaðurinn var seldur, en það var allt látið fylgja. Þarna voru allar helstu perlur kvikmyndasögunnar frá Galdrakarlinum í Oz til Stjörnustŕiða. En nóg um svoleiðis vitleysu.
Um daginn var svokölluð TDC hátíð hér á Kollegíinu, en slíkar hátíðir fara fram á hverju misseri. Venjan er sú að valið er þema og síðan klæðist fólk grímubúningum og skreytir herbergin sín eftir eigin hugarflugi innan þessa þema. Allir borða saman og svo eru herbergin þrædd og allir fá að sjá skreytingarnar og njóta drykkja í boði hússins (þ.e.a.s. herbergisins).
Síðast var þemað kvikmyndir og herbergin voru hver öðru skrautlegri, en þó ekki eins skrautleg og íbúarnir því fólk var klætt eins og börn á öskudag. Þarna var Fred Flintstone, Wilma og Betty, Tveir sjóræningjar, Þumalína, Fiskurinn Nemo, Lille Per (sem er Dönsk teiknimyndapersóna) og fleira og fleira. Ég sem hafði ekki gert mér grein fyrir alvöru málsins hafði valið mér þema en gert ósköp lítið fyrir hvort tveggja, mig og herbergið. Í rauninni mætti ég bara sem Björn en ekki e-r kvikmyndapersóna. Ég var hálfpartinn skammaður, en hafði þó þá afsökun að vita einfaldlega ekki betur.
Núna um daginn var s.s. aftur komið að þessarri hátíð. Þemað var illska. Ég átti mjög erfitt með að fá hugmyndir innan þemans, augljósast var að klæða sig upp sem púka eða vampíru, en það var líka heldur mikil klisja, auk þess var ekki auðvelt að redda búning með skömmum fyrirvara. Þá datt mér í hug einn vondur kall úr nýlegri stjörnustríðs mynd, eini búningurinn sem þurfti var dökkur kufl (sem mátti redda með rúmteppi), rauðlitað kústksaft (sem var geislasverð) og svo hellingur af andlitsmálningu (karlinn var allur út í rauðum svörtum flekkjum). Þetta var einfalt þó svo að ég þyrfti að mála mig allan í framan.
Þegar nær dró hátíðinni var verkefnavinna alveg á milljón og ég fann hvergi tíma til að redda andlitsmálningu (eða rauðu kústskafti). Á hátíðardaginn sjálfan ákvað ég að bíta í það súra epli að það var orðið of seint að gera neitt og mæta aftur einfaldlega sem Björn (ég gæti svo sem sagst vera Vondi Bjössi). Það kom þá í ljós að ég var ekki sá eini sem hafði ekki gert neitt, því allir voru bara í eigin persónu. Kvöldið var síðan ágætis skemmtun, en það hefði verið ótrúlega fyndið ef ég hefði einn mætt rauð-málaður í framan með rúmteppið vafið um mig og haldandi á kústskafti, og svo hefðu allir hinir bara verið í hversdagsfötunum.
En ég hef þetta ekki lengra í bili. Skilaðu bestu kveðjum til allra.

Björn