01 júlí 2006

Tíminn líður ...

Vegna eftirspurnar ákvað ég að setja inn eina bloggfærslu. Eins og flestir vita er ég núna á Íslandi. Dagarnir líða hjá með stóiskri ró og íslenskri rigningu. Sumartímann sem svo hæglega mætti nýta til uppbyggilegra hluta, líður hjá mér meðan ég sit inni við tölvuskjáinn heima eða að heiman.
Um í gær gerði ég mér þó dagamun og skellti mér á tónleika með Braga og Sigga Guð. Hjálmar voru að spila á Nasa og þeir voru firnagóðir, sem fyrri daginn. Upphitunarsveitin var ný hljómsveit sem nefnist Hjaltalín og voru þeir mjög efnilegir að mínu mati. Þeir sungu samt alltaf sóðalegar klámvísur milli þess sem þeir spiluðu lögin sín. Þessar klámvísur voru af sóðalegustu gerð og ekki fyrir hjartveika ... eða aðra. En ef horft er framhjá þessu þá var hljómsveitin mjög góð, vel spilandi og tónsmíðarnar lofandi. Áhrifa gætti frá Sigurrós og Radiohead, að mati fróðra manna. Mætingin var ekki sérstök staðurinn var hálftómur, en það er ekki að undra þar sem fjölmargt er að gerast þessa helgina víðsvegar um landið: Humarhátíð, Færeyskir dagar, Landsbankaafmæli og svona mætti lengi telja. Það eina sem ég hef út á þessa tónleika að setja var að mér fannst of hátt stillt í hátalarakerfinu. Eyrun á mér eru sem marin eftir lætin.
En í heildina, ágætis tónleikar.