05 september 2005

Í dag dróg til tíðinda !

Reyndar dróg ekki til tíðinda, en þar sem blogg gærdagsins var svo þunglyndislegt ákvað ég að hafa smá mótvægi í fyrirsögninni í dag. Í dag komst ég að því að þriggja tíma fyrirlestrar eru algjör dauði. Fyrir þá sem ekki vita þá er fyrirlestrarformið hér við DTU þannig að deginum er skipt í þrjú hólf. Þau eru morgunn (frá 8 til 12) dagur (frá 13 til 17) og kvöld (man ekki alveg tímabilið). Kvöldin eru held ég sjaldnast notuð, og þá sennilegast fyrir tímafreka verkefnavinnu sem ekki dugir venjulegur vinnudagur til. En hvað um það aðalhólfin tvö, morgunn og dagur, sem hvort um sig er fjórir tímar eiga aðeins að rúma einn fyrirlestur hvort. Það þýðir fjögurra tíma fyrirlestrar. Meðalmaður heldur einbeitningu í 40 mínútur þ.a. oftast er þessum löngu fyrirlestrum skipt upp í klukkutímalangar lotur. Ég er svo blessunarlega heppinn að allir mínir fyrirlesarar eru annaðhvort latir eða snjallir þar sem ég er aldrei lengur en þrjá tíma í fyrirlestri í einu. Ég, ólíkt meðalmanninum, held athygli í korter. Þar af leiðandi er ég algjörlega kominn í annan heim eftir klukkutíma, hvað þá þrjá. Efni fyrirlestranna er áhugavert, en ég bara hef ekki athyglisþjálfunina ennþá.
Ég var að spjalla við vin minn. Sá er frá Ghana og var mjög forvitinn um Ísland og íslendinga. Honum þótti ótrúlega fyndið að mér þættu 25 gráðu hiti helst til mikið. Hann alveg kappklæddur. Honum þótti enn fyndnara að heyra að íslendingar væru aðeins 300.000, þegar ég síðan áréttaði að reyndar væru þeir nær 290.000 þá ætlaði hann alveg að rifna úr hlátri. Hann er fínasti náungi, þó svo honum þyki ekki mikið koma til fólksfjölda á íslandi. Mér þótti samt merkilegt að hann kannaðist yfir höfuð við Ísland. Maður hefði haldið að fólk frá Afríku hefði lítinn áhuga á litlu skeri, nyrst í Atlantshafi. Hann sagði samt að honum þætti gaman að kíkja þangað við tækifæri.
Ég er farinn að finna fyrir hversu margir nota eldhúsið saman. Þá á ég ekki við að ég komist ekki að, heldur er ég að hitta nýtt fólk nánast á hverjum einasta degi. Eins og er hef ég hitt: Ismail, Trine, Nis, Hilde, Kasper, Simon, Christian, Mads, David (Qingxin Zhang) og auk þeirra einn dana og einn kínverja, hverra nöfn ég man ekki. Þetta eru 11. Það þýðir að ég á enn eftir að hitta 3. En það þýðir kannski bara fleiri vinir ... vonandi.
Ég las á blogginu hennar Kollu að hún hefði metnað til að læra mörg ný orð á dag. Ég man ekki hvort hún nefndi tölu en ég man að talan 5 var of lág. Ég aftur á móti hef vaðið fyrir neðan mig og stefni að því að læra eitt nýtt orð á dag. þau mega vera fleiri en einn er lykiltalan. Hérna kemur svo orð dagsins í dag piskeris. Ég ætla ekki að segja ykkur ignoröntunum hvað þetta þýðir, en ég skal segja ykkur að þetta var notað til að búa til eggjahræru með steiktum kartöflum. Over and out.