22 júlí 2007

Microblogg

Ef þér þykir Star Trek ráðstefnur og nördar vera spes, kíktu þá á þetta. Þetta finnst mér töff.

10 júlí 2007

Ótrúlegir

Í gær fór ég í blíðskaparviðri niður í miðbæ Kaupmannahafnar til að hlusta á Jazz. Sólin skein í heiði. Það fannst mér skondið mjög að mesta rigningartíð í manna minnum hafi hafist á sama tíma og Hróarskelduhátíðin og stytt upp nánast á sömu mínútunni og síðasta hljómsveitin steig þar af stokki. En ég fór ekki á Hróarskeldu, ég ætla á Copenhagen Jazzfestival sem er nýhafin og veðrið er orðið ótrúlega gott. :)
Í gær fór ég á fyrstu tónleikana af fimm sem ég hef keypt mér miða á. Það voru níundaáratugsjálkarnir Gulu Jakkarnir (e. Yellow Jackets, reyndar má þýða Yellow Jackets sem vespurnar) sem léku fyrir pakkfullu húsi. Ég kom klukkutíma fyrir tónleikana og var þá mannmergðin sem beið þess að komast inn búin að stífla götuna. Löngu uppselt var á tónleikana. Ég var aftarlega í röðinni en tókst samt að næla mér í sæti á fremsta bekk, ónúmeruð sæti hafa sína kosti auk þess sem það getur borgað sig að vera einn á ferð. Danska ríkissjónvarpið var líka á svæðinu og tók upp tónleikana, en ég veit ekki hvenær þeir verða/voru sýndir.
Hljómsveitin var einu orði sagt ótrúleg. Þetta var tónlist í hæsta gæðaflokki. Lögin voru öll mjög lagræn og flest þeirra frekar flókin, en hljómsveitin spilar frekar hraða tónlist þó svo nokkrar hægari ballöður hafi flotið með. Hljómsveitin var skipuð saxafón, píanó, trommum og rafbassa og allir hljóðfæraleikararnir voru magnaðir. Ég hef ákveðið að láta upptöku frá youtube fylgja hér með. Fylgist einkum með bassaleikaranum hann spilar alveg rosalega (og þeir allir reyndar).

Yellow Jackets spila aftur í kvöld og það er sennilega uppselt, en ef einhver á miða eða getur reddað sér þá skal sá hinn sami ekki hika við að fara. Ef færið byðist myndi ég fara aftur. En í kvöld er ég að fara að hlusta á McCoy Tyner.

05 júlí 2007

Himininn grætur

Hér rignir. Rignir og rignir. Ég var þess fullviss að sumarið í Danmörku yrði eintómir sólardagar í hita og svita. Annað reyndist réttara. Þrátt fyrir góða byrjun, með hitabylgju sem sagði frá hér áður þá rignir núna eins og því ætli aldrei að linna. Ég þurfti að skipta um föt eftir að hafa gengið heim úr skólanum. Ég hefði alveg eins getað geymt regnhlífina heima, hún var vitagagnslaus gagnvart úrhellinu. Rigningin var ekki eins mikil þegar ég lagði af stað í morgunn, þó var hún allmikil.
Á leið minni til skóla í morgun sá ég myndarlega stúlku sem kom úr gagnstæðri átt við mig. Sú hafði ekki verið eins forsjál og ég og var því regnhlífarlaus í votviðrinu. Auk þessa var hún ekki í jakka, aðeins klædd í léttann sumarkjól. Sítt hárið var gegnvott og lá þétt að rjóðum vanganum. Sökum regnþunga og sumarleifa í skólanum var nær enginn á ferð og hún var fyrsta og eina manneskjan sem ég mætti á leiðinni. Ég mætti henni auk þess á löngum, beinum vegkafla þ.a. ég sá hana langt framundan mér. Ég ákvað að snúast á hæl þegar leiðir okkar sköruðust og bjóðast til að fylgja henni áleiðis svo hún gæti notið góða af regnhlífinni minni. En stuttu áður en það færi bauðst tók hún snögga beygju og fór yfir götuna. Þá fannst mér það e-n veginn ekki ganga að hlaupa hana uppi og bjóða regnhlíf. Það væri of ... snargeðveikt ... og hélt ég því rólegur áfram eins og ekkert hefði í skorist. Ég komst þó ekki hjá því að líta við stuttu síðar og reyna að bera hana augum eitt síðasta sinn. Þá sá ég að hún var aftur komin á stéttina sem hún (og ég) hafði verið á áður. S.s. hún hafði tekið sveig umhverfis mig og það ekki lítinn, heldur RISASTÓRANN-YFIR-GÖTUNA-OG-AFTUR-TIL-BAKA sveig til að þurfa ekki að mæta mér. Þó ég væri á stærð við tvöfaldan Hummer-jeppa hefði hún ekki mætt mér með svona sveig. Ég varð svolítið leiður í hjartanu mínu ... ögn niðurlútur. Regnið fékk allt í einu samhljóm í mér ... en svo herti ég upp hugann og sagði við sjálfan mig "Hún er örugglega bara geðveik." Hvaða heilvita manneskja fer út í svona dembu án regnhlífar og í léttum sumarkjól?