05 júlí 2007

Himininn grætur

Hér rignir. Rignir og rignir. Ég var þess fullviss að sumarið í Danmörku yrði eintómir sólardagar í hita og svita. Annað reyndist réttara. Þrátt fyrir góða byrjun, með hitabylgju sem sagði frá hér áður þá rignir núna eins og því ætli aldrei að linna. Ég þurfti að skipta um föt eftir að hafa gengið heim úr skólanum. Ég hefði alveg eins getað geymt regnhlífina heima, hún var vitagagnslaus gagnvart úrhellinu. Rigningin var ekki eins mikil þegar ég lagði af stað í morgunn, þó var hún allmikil.
Á leið minni til skóla í morgun sá ég myndarlega stúlku sem kom úr gagnstæðri átt við mig. Sú hafði ekki verið eins forsjál og ég og var því regnhlífarlaus í votviðrinu. Auk þessa var hún ekki í jakka, aðeins klædd í léttann sumarkjól. Sítt hárið var gegnvott og lá þétt að rjóðum vanganum. Sökum regnþunga og sumarleifa í skólanum var nær enginn á ferð og hún var fyrsta og eina manneskjan sem ég mætti á leiðinni. Ég mætti henni auk þess á löngum, beinum vegkafla þ.a. ég sá hana langt framundan mér. Ég ákvað að snúast á hæl þegar leiðir okkar sköruðust og bjóðast til að fylgja henni áleiðis svo hún gæti notið góða af regnhlífinni minni. En stuttu áður en það færi bauðst tók hún snögga beygju og fór yfir götuna. Þá fannst mér það e-n veginn ekki ganga að hlaupa hana uppi og bjóða regnhlíf. Það væri of ... snargeðveikt ... og hélt ég því rólegur áfram eins og ekkert hefði í skorist. Ég komst þó ekki hjá því að líta við stuttu síðar og reyna að bera hana augum eitt síðasta sinn. Þá sá ég að hún var aftur komin á stéttina sem hún (og ég) hafði verið á áður. S.s. hún hafði tekið sveig umhverfis mig og það ekki lítinn, heldur RISASTÓRANN-YFIR-GÖTUNA-OG-AFTUR-TIL-BAKA sveig til að þurfa ekki að mæta mér. Þó ég væri á stærð við tvöfaldan Hummer-jeppa hefði hún ekki mætt mér með svona sveig. Ég varð svolítið leiður í hjartanu mínu ... ögn niðurlútur. Regnið fékk allt í einu samhljóm í mér ... en svo herti ég upp hugann og sagði við sjálfan mig "Hún er örugglega bara geðveik." Hvaða heilvita manneskja fer út í svona dembu án regnhlífar og í léttum sumarkjól?