15 september 2005

Strákurinn sem hvarf

Það fór sennilega fram hjá fáum þegar ég montaði mig í hvívetna yfir því að vera að þyngjast um svo og svo mörg grömm á dag yfir margra mánaða skeið. Ég hóf nýja mælingu eftir að ég fór að búa sjálfur hérna í Lyngby og fyrstu mælingar eru sláandi. Þær eru strangt einhalla og minnkandi. Ef eitthvað er að marka þetta þá hef ég lést um 1kg síðan ég kom hingað. Í hverri einustu mælingu er ég léttari en í þeirri fyrri og nú er ég kominn undir 80 kg. Til viðbótar mæli ég mig hér í íþróttafötunum og skóm, en heima var ég kviknakinn. Mælipunktarnir eru kannski ekki nógu margir til að draga þessa ályktun svona fljótt, en þetta vekur hjá mér nokkurn ugg.
Fyrir þau ykkar sem ekki hafa fylgst með mér monta mig af frábærri eldamennsku minni hérna á síðunni vil ég segja að ég er ekki illa haldinn matarræðislega séð. Ég borða aldrei færri en þrjár máltíðir á dag, stundum fjórar. Ég borða nær alltaf tvær eldaðar máltíðir en morgunnmaturinn er oft jógúrt eða hafragrautur. Til viðbótar við þetta elda ég yfirleitt uppskriftir fyrir fjóra, sem endast yfirleitt í eina til tvær máltíðir. Ég mun halda mælingum áfram og láta ykkur vita, ef það þá verður eitthvað eftir af mér.