03 september 2005

Sólarhringur í Svíþjóð

Í gær var slegið til og ferðast yfir til Svíþjóðar. Ég, Ari og Steini mæltum okkur mót inni á Hovedbanegaarden og tókum svo lestina yfir Eyrasundsbrúnna og til Lundar. Ég fæddist í Lundi og fannst mjög gaman að koma aftur á æskuslóðirnar. Ég mundi eftir sumum stöðum, eins og dómkirkjunni en þetta var samt allt frekar ólíkt minningunni. Allt var stærra. Þetta er engu að síður heillandi bær.
Veðrið var fínt og við komum til Lundar um fimm. Við vorum varla stignir á brautarpallinn þegar heyra mátti Dancing Queen með ABBA óma um göturnar. Siggi tók á móti okkur og tók okkur í smá kynnisferð um miðbæinn. Andri kom síðan og hitti okkur og við fórum og keyptum grillmat og meðlæti. Þá var farið heim til Sigga og grillað. Meðan grillið hitnaði var spilaður leikurinn kubb sem er þjóðaríþrótt svía (eða Sigga a.m.k.). Leikurinn fellst í því að fella ferhyrnda kubba andstæðingsins með því að henda sívölum kubbum í þá án þess að fella stóra ferhyrnda kubbinn með kórónuna (kónginn) á miðjum vellinum. Ég nenni ekki að fara út í smáatriðin, en þetta getur verið furðu skemmtilegt. Stefán Ingi bættist í hópinn og grillaði með okkur reyndar var það Steini sem grillaði, en við veittum honum andlegann stuðning frá kubb leikvellinum. (With friends like these ...). Eftir matinn var spjallað auk þess sem Pálmi bættist í hópinn. Það var sænskt partý í gangi á sama tíma, en þjóðflokkarnir tveir héldu sig að mestu hvor í sínu horninu. Ari, Andri og Siggi sýndu allir leikni sína (eða lack-there-of) á gítarinn við mikinn fögnuð áheyrenda. Síðan fór liðið að undirbúa sig undir að fara í bæinn. Þá hringdi Júlli og vildi bætast í hópinn, þ.a. brottför var frestað meðan beðið var eftir honum. Við þetta tækifæri var spilað meira á gítarinn. Þegar Júlli kom var hringt á leigubíl og farið út úr húsi. Kom þá í ljós að Júlli vildi ekki fara niður í bæ heldur vera í partý-inu, en þar sem það var búið fór hann aftur til síns heima. Hann fékk því lítið út úr komunni annað en röskann hjólatúr.
Í bænum var farið á stað sem heitir Basilikan. Þetta er annar af tveimur megin stöðum í Lundi. Staðurinn var allt í lagi. Það var ekkert sérstaklega mikið af fólki, en þetta var heldur ekki sérstaklega stór staður. Það sem kom mér svolítið á óvart var að þarna var rekið fjárhættuspil. Fólk (jafnvel í mjög annarlegu ástandi) gat spilað 21 þarna. Siggi og Andri sögðu mér að þetta væri mjög algengt á skemmtistöðum í Svíþjóð og fjárhættuspil mjög algeng meðal unglinga. Mikið væri um að ungir svíar spiluðu póker á netinu. Ég horfði þarna á hóp af krökkum spila frá sér peninga, nema Steini sem fór frá borðiðnu 120 SKR ríkari en hann kom. Eftir að staðnum var lokað var rölt heim á leið, þ.e.a.s. heim til Sigga og Andra, en þeir skutu yfir okkur ferðalangana skjólhúsi þessa nóttina. Skortur var af rúmplássi, eða rúmum öllu heldur, þ.a. Siggi og Ari urðu að láta sér lynda að deila rekkju.
Daginn eftir var frábært veður (of heitt ef eitthvað). Farið var út í garð og spiluð smá úr-að-ofan útgáfa af Kubb. Því næst var farið með strætó niður í miðbæ. Þar fékk liðið sér að borða og loks var haldið heim, eftir annsi vel heppnaða Lundarferð.