29 maí 2007

Fyrir þau sem hafa áhyggjur ...

en hafa samt ekki spurt, þá er ég ekki veikur lengur. Veikindin entust í 10 daga og var ég svo heill heilsu á ný. Eða næstum heill heilsu þar sem ég hef þurft að glíma við bólgu í rakakirtli í auga og munnvatnskirtli. En þess utan þá er ég loksins aftur byrjaður að hreyfa mig. Ég kom til Danmerkur með þá hugsjón að leggja ríkulega stund á íþróttir. En þegar á hólminn var komið (Danmörk samt of flöt til að kallast hólmur) varð ég veikur eins og áður sagði og lítið sem ekkert varð því úr þessari göfugu hugsjón. Ég lét mig nú samt hafa það (þrátt fyrir bólgin rakakirtil í auga) að mæta í taekwondo að nýju stuttu eftir að veikindum lauk og er loksins að koma reglu á íþróttirnar.
Þetta er allt saman hluti af félagsfræðirannsókn minni á athyglisgáfum bloggsíðulesenda minna. Hversu margir átta sig á því að þetta er í raun ný bloggfærsla þó svo hún endurnýti gamla innganginn. Ég hef ekki bloggað í nokkurn tíma, eins og c.a. fimm aðilar bentu á síðastliðna tvo mánuði. Að nafninu til hef ég ekki bloggað vegna þess að ekkert hefur gerst sem vert er að blogga um, en eins og Arnar bróðir minn sagði: „Hefur ekkert gerst? Björn, þú bloggaðir einu sinni um lakkríspoka!" Því setti ég saman lista yfir það sem ég hef verið að bralla undanfarið og telst a.m.k. jafnmerkilegt og lakkríspoki. Listinn er birtur hérna í einni bunu í tilviljunarkenndri röð: Ég náði gula beltinu í Taekwondo, Sigga systir kom í heimsókn, fór á tónleika m.a. með hljómsveitunum Clutch, Fu Manchu, The Red Chord og The Valiant Thor, tók tvisvar þátt í að selja kökur af kökuhlaðborði í Jónshúsi, kom mér tvisvar sinnum undan að baka kökur fyrir kökusölu af kökuhlaðborði í Jónshúsi, fór í 10 daga til Íslands um páskana, borðaði á öllum Jensens Bøfhus veitingastöðunum í Kaupmannhöfn, norðan Kanalsins, keypti miða á Jazztónleika (í fleirtölu) í júlí, tók þátt í Tour De France ... nei Tour De Chambre heitir það víst, hoppaði um (mjög látlaust) í spænsku sumarsólinni sem skín hérna í DK, lyfti sjaldnar en ég blogga og hef lést um 2 kg, hef verið í um þrjá mánuði að gera við hjólið mitt og er enn að, borðaði ógeðslegasta mat sem finnst á jarðríki í kantínunni í DTU, er orðinn nokkuð flinkur í að búa til tveggjaeggja ommelettur, rúllaði upp kúrsinum Mikrodatamater i robot- og automationssystemer, hóf tuttugastaogsjöunda aldursár, mætti í einstakt Stökugrill og söng á lokatónleikum með Stöku.
Þar sem ég nenni ekki að gera grein fyrir einstaka atburðum núna þá mun ég ekki gera grein fyrir einstaka atburðum núna. Lesendum er áskilinn réttur til að óska eftir útskýringu á einstaka liðum upptalningarinnar og ég mun kannski verða við þeirri ósk í næstu bloggfærslu sem er áætluð þann 29. júlí 2009.