29 september 2006

Baron Cohen

Ég hef ekki séð bíómyndina og veit því ekki hvort myndin sé fyndin, en þessi grein finnst mér ótrúlega fyndin.

20 september 2006

Mikið að gera

Núna er ótrúlega mikið að gera hjá mér. Verkefnin hrannast upp og ég hef engan veginn undan. Þegar þessi staða kemur upp er aðeins eitt að gera. Það er að vinna skipulega og markvisst að hverju vandamáli fyrir sig, beita agaðri tímastjórnun og klippa í burtu alla óþarfa tímaspillandi þætti. Ég tók mig því til og eyddi heilum degi í ekki neitt og bloggaði síðan um það.
Ég var að skoða Wikipediu og rak augun í færslu sem mér fannst svolítið fyndin og sem sýnidæmi um þetta þá bendi ég á þessa grein
Ég komst líka að því að einn kennarinn minn, sá sem kennir mér Kryptologi 1 er heimsfrægur (þ.e.a.s. hann er í Wikipediu).
En ætli það sé ekki best að fara að gera e-ð sem vit er í.

12 september 2006

Ofbeldi og áreynsla

Þórir Hrafn, nokkur, Harðarson er byrjaður í námi við DTU hér í Danmörku og bjóðum við hann öll hjartanlega velkomin. Þórir gaf það mjög óbeint og óljóst í skyn að ég væri orðinn feitur og þreklaus og bæri því að kíkja í Tae Kwon Do tíma með honum til að komast aftur í form. Ég þáði boðið og fór í gær í prufutíma í Virum (sem liggur vestan við Lyngby). Þetta var mikil þrekraun og þjáning, og þar af leiðandi frábær íþrótt. Ég held ég reyni aðeins áfram og sé hvort mér takist að ná svarta beltinu áður en ég lík mastersverkefninu (og segi þar með meira um námsframvindu mína en íþrótta ástundun).
Ég var allur marinn og blár eftir fyrsta tímann, sem er fyndið fyrir þær sakir að 15 ára strákpési, sem hefur ekki vegið meira en 40 kíló, barði mig í klessu. Síðan í dag var ég með harðsperrur í öllum vöðvum líkamans sem enginn veit hvað heita og gat varla hreift mig. Svo mæti ég bara aftur á fimmtudaginn.

Fyrir þau ykkar sem ekki þekkja til Tae Kwon Do þá gæti þessi hlekkur hjálpað ykkur:

http://www.youtube.com/watch?v=4UWJNGbRhJ0

08 september 2006

Nú verða lesnar veðurfréttir

Ég vaknaði um miðja nótt við drunandi þrumur og eldingar. Það var samt ótrúleg kyrrð úti, algjört logn og rétt vottaði fyrir fíngerðu regni. Ef þrumurnar og eldingarnar hefðu ekki brotist fram inn á milli þá hefði veðrið veitt algjöra ró.
Í dag var svo skínandi fínt veður, sól og sumar. Að vísu blés aðeins inn á milli. Það er búið að spá fínu veðri um helgina og kominn tími til. Ég á það alveg inni eftir íslenska sumarveðrið 2006.
Ég þekki lítið spakmæli á þessa leið: "Ef þú hefur ekkert að segja, ekki segja neitt". Þar sem einu efnistök þessarar bloggfærslu eru seinbúnar veðurfréttir frá Lyngby þá hætti ég hér. Ég segi næst frá þegar ég hef eitthvað að segja.

06 september 2006

Netvandamál

Ég hafði stillt vekjaraklukkuna á 9 í morgunn, en vaknaði klukkan 12. Ég kom samt furðu miklu í verk, þar á meðal bað kínverskur sameldhýsingur minn mig um að hjálpa sér með netvandamál, þ.e.a.s. hann komst ekki á internetið. Stýrikerfið var allt á kínversku og samt gat ég rakið þetta allt eftir minni. Þetta er bara til marks um það að ég nota Linux ekki nógu mikið.
Ég komst líka að því í dag að báðar stelpurnar sem búa við ganginn hérna eru að flytja í burtu. Það eru engar stelpur á næsta gangi við okkar og þar sem aðeins þrír gangar eru á hverri hæð er hæðin mín að verða ansi estrógensnauð.

05 september 2006

Svefnskortur og byrjunarörðugleikar

Ég komst að því í gær að ég er á eldhúsvakt í þessarri viku. Það þýðir að ég þarf að þrífa eldhúsið í lok dags. Það þýðir að þegar ég var loksins búinn að pakka upp úr töskunni og hreinsa herbergið af öllum dauðu hrossaflugunum sem einhvern veginn komust inn á meðan ég var í burtu. Þurfti ég líka að þrífa eldhúsið, sem leit út fyrir að hafa ekki verið þrifið síðan í maí. Fyrir vikið komst ég ekki í draumalandið fyrr en klukkan var langt gengin í eitt. Til að bæta gráu ofan á svart þá átti nágranni minn afmæli í dag og vildi fá sína morgunafmælisveislu klukkan 7. Ég fékk því að vakna klukkan 6 í morgun (4 á Íslandi) til að fara út í bakarí og kaupa rúnstykki og annað bakkelsi, en reglur hér skikka nágrannan til þessa.
Síðan tók við fyrilestur til hádegis og annar frá hádegi. Ég ætla núna að fá mér snemmbúinn kvöldverð og halda á fyrstu kóræfinguna í vetur. Síðan er Eldhúsfundur í nótt og til að toppa allt er Nakkeostfesten í kjallarabarnum, en slíkt er siður fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði. Reynsla mín af slíku er drunandi dönsk R&B tónlist langt fram eftir nóttu. Hún á að vera búin klukkan 3 en ég vaknaði einu sinni klukkan 7 á miðvikudagsmorgni við það að hátíðin var enn í gangi og einhver ákvað að hækka aðeins betur í græjunum. Fyrir þá sem ekki vita sef ég (eða ligg andvaka, öllu heldur) u.þ.b. einum meter ofan við hátalara, aðeins næfurþunnt gólfið og rúmgarmurinn minn aðskilja okkur.
Sem bót í máli þá á ég frí í fyrramálið.

04 september 2006

Aftur í Lyngby

Jæja, þá er ég kominn aftur til Danmerkur. Ég kom í gær með kvöldvél fullri af svíum. Tók á annan tíma að komast hingað upp í Lyngby, en hingað er ég kominn. Í morgunn þurfti ég að mæta klukkan hálf níu, vaknaði klukkutíma fyrr sem jafngildir hálf sex á Íslandi. Er þreyttur. Nenni ekki að blogga. Á eftir að elda og ryksuga. Nenni ekki að elda eða ryksuga. Best að drífa í því. Heimurinn bíður ekki eftir mér og ég hef helling að gera. Ég á líka eftir að pakka upp úr töskunni. Svangur. Elda núna. Kveðja Björn.