27 september 2005

Klukk

Ég var víst klukkaður og þarf að skrifa fimm staðreyndir um sjálfan mig og klukka síðan næsta mann. Hérna kemur því eitthvað.


  1. Fyrir tveimur dögum kúkaði fugl á mig þegar ég var úti að hjóla

  2. Miðarnir sem ég keypti á netinu fyrir F.C.København - Hamburger SV eru komnir í hús.

  3. Ég bora í nefið

  4. Ég kveiki aldrei á perunni ef stelpa reynir við mig fyrr en í fyrsta lagi tveimur til þremur dögum síðar, og þá yfirleitt af því að einhver segir mér frá því.

  5. Ég er nærri því ólæs á nóturÞetta er þó eitthvað. Síðan er búið að klukka alla bloggara sem ég þekki. Þannig að ef einhver sem ég þekki bloggar og hefur ekki verið klukkaður má sá hinn sami hafa samband við mig og ég skal klukka hann. Til vara klukka ég Braga, Björn Bjarnason og George Bush eldri.

26 september 2005

Ferð í diskótekið

Ég gerði mér ferð í diskótekið hérna í Lyngby. Diskótek er hérna Danskt nýyrði sem Bjarki Mørch nágranni minn stakk upp á. Það er samsett úr orðinu Disk (CD) og Bibliotek. Lyngby, sem er bær í úthverfi Kaupmannahfnar hefur alveg hreint stórfínt diskótek. Úrvalið er þvílíkt fínt og skýtur borgarbókasafni Reykjavíkur ref fyrir rass að öllu leiti. Hérna eru engin mörk fyrir því hversu marga diska má fá að láni, heima eru mörkin 10. Hérna má fá þá lánaða í mánuð í senn sem má jafnframt framlengja að mánuði liðnum (t.d. í gegnum netið) ef enginn hefur beðið um diskinn. Heima nær maður varla að hlusta á plötuna áður en maður þarf að skila henni aftur, tveimur vikum eftir að maður fær hana. (Færðu engar hænur?)
Núna er ég t.d. með Keith Jarrett á fóninum og hef líka verið að hlusta á franskan snilling sem heitir Michel Petrucciani. Mæli með þessum mönnum. Ég hef ákveðið að ofnota þessa þjónustu gjörsamlega. Markmiðið er að fara a.m.k. vikulega í geisladiskaleiðangra. Ég velti því bara fyri mér hvernig úrvalið sé á bókasafni Kaupmannahafnar.

Ekkert virkar hérna

Það er kannski full svartsýnt að segja að ekkert virki hérna, en netið hefur verið niðri meira og minna alla helgina og ég, sem er algjörlega háður netinu, hef verið að ganga af göflunum fyrir vikið. Það er alveg ferlegt að komast ekki í póst eða fréttir. Geta ekki sótt glærur og lesefni fyrir skólann. T.d. tók ég að mér að kaupa miða á fótboltaleik, sem ég, Ingibjörn, Steini, Grjóni og Ari ætlum á. Og var það bara mesta mildi að netið hélst í lagi nógu lengi til að ég gæti keypt miðana. Ég hef hins vegar nú þegar lent í því nokkrum sinnum við að reyna að skrifa bloggfærslur að netsambandið rofni og allt skrifiríið sé ónýtt. Núna er þetta þó komið í lag.

23 september 2005

Pókerkveld

Í gær var haldið pókerkvöld. Grjóni, Ingibjörn, Steini, Ari og ég mæltum okkur mót heima hjá Steina. Ingibjörn hafði fjárfest í forlátu póker setti og vildi ólmur hafa af okkur hinum allar okkar dönsku krónur. Steini býr á Kagså kollegiinu sem er í um 10 km fjarlægð frá DTU. Ég lagði af stað helst til seint og rétt áður en ég kom að stoppistöðinni sá ég konu sem var í þann mund að fara að staulast niður mjög háar og brattar tröppur með fullan inkaupapoka í annarri höndinni og stóra tösku í hinni. Ég sá líka að hún var til viðbótar með staf hangandi í töskunni.
Ég ákvað að vera herramaður og bauðst til að bera töskuna og pokann fyrir hana. Hún þakkaði mér í hvað eftir annað og gat fyrir vikið gengið við stafinn. Þegar við komum niður tröppurnar bauðst ég til að bera dótið fyrir hana út að stoppistöðinni, en það var þangað sem hún ætlaði. Þetta var hins vegar ekki stoppistöðin sem ég hafði ætlað á þ.a. eftir að hafa skilað henni dótinu sínu hljóp ég eins hratt og ég gat að minni stoppistöð. Strætóinn átti að koma 12 mínútur yfir. Ég kom þangað 14 mínútur yfir. Þá kom vagninn, 2 mínútum of seint, og ég fylltist ánægju með sjálfan mig fyrir að vera svona góður og ná vagninum líka.
Strætóferðin gekk klakklaust og ég fór út á réttri stöð, sem er afrek þar sem ég hafði aldrei farið þetta áður og það var orðið mjög dimmt. Síðan þurfti ég að þræða eitt af hinum hræðilegu dönsku íbúðarhverfum til að finna staðinn. Hverfin eru mjög fjölskylduvæn og vinaleg í útliti, en ef maður er villtur þá eru þau hræðileg. Þau eru yfirleitt í allskonar sveigjum og beigjum, krókum og kimum og engin aðalgata, sjoppa eða vídeóleiga eða nokkuð annað sem hægt er að miða við er í nánd. Ég held að ég hafi verið um fjörutíu mínútur að ganga frá stoppistöðinni að Kagså kollegiinu en hefði átt að vera nær fimm til tíu mínútur.
Að lokum kom ég til Steina og voru þeir félagar löngu byrjaðir að spila. Ég tók mér spil í hönd og var síðan spilað langt fram á kvöld. Þegar hætt var að spila, um ellefuleitið var aðeins ég og Ingibjörn sem komum út í plús. Ég hafði grætt 50 aura en Ingibjörn var í margra tuga gróða. Hann hefur sennilega verið að lesa
Idiots Guide to Poker
.

22 september 2005

Árvökull

Í dag vaknaði ég klukkan 5:50 að dönskum tíma. Ég þurfti að vakna svona snemma því samkvæmt hefð hér á Kollegiinu fellur það í hlut nágranna afmælisbarns að fara út í bakarí og kaupa fullt af rúnstykkjum fyrir hinn heimsfræga atburð morgenfødselsdag. Þar sem stelpan í næsta herbergi við mig átti afmæli féll það í minn hlut. Það var slegið nýtt met. Núna átti afmælið að byrja klukkan 6:15. Það hafði víst eitthvað að gera með það að afmælisbarnið þurfti að mæta snemma. Bakaríið opnaði klukkan sex og þess vegna þurfti ég að fara upp á fyrrgreindum tíma.
Þegar ég kom út var enn niðamyrkur og þykk þoka yfir öllu. Það var þar að auki ÓGEÐSLEGA kalt. Ég hjólaði eins og ég ætti lífið að leysa út í bakarí og keypti 26 rúnstykki og brunaði svo til baka. Ég kom í hús á slaginu 6:15. Ég hef aldrei séð eins myglað lið. Sumir strákanna höfðu ekki farið að sofa fyrr en að ganga þrjú og þeir litu út fyrir að ætla að gubba af þreytu.
Engu að síður var ráðist í morgunmat og síðan var afmælissöngurinn gaulaður af misvakandi lýðnum. Hljóðfærin að þessu sinni voru fiðlur, sprengjuvörpur (ekki spyrja) og trommur. Því næst kom hið hefðbundna Jägermeister staupirí auk þess sem nokkrir fengu sér morgunbjór. Á meðan á öllu þessu stóð læddist eldhúsformaðurinn út og kom síðan til baka með bakka fullan af áfengisstaupum. En í þessum áfengisstaupum var ekki áfengi, heldur kanill. Hann rétti hverjum og einum (nema afmælisbarninu) eitt glas og ég hugsaði með mér: "Jæja er maður að fara að staupa kanil eins og í 70 mínútum?". En annað kom á daginn. Því í staðinn var afmælisbarnið dregið út á hlað og hver aðilinn á fætur öðrum sturtaði kanilnum yfir hana. (Hvaða hani var það?) Það kemur í ljós að þegar íbúi verður 25 ára á að sturta yfir viðkomandi kanil á afmælisdaginn. Síðan hlógu allir og bentu á hana þar sem hún stóð, brún af kanel, með kanelský í kringum sig. Tóku myndir og hlógu síðan meira. Því næst var hún afsökuð þar sem hana var farið að svíða undan kanilnum. Ég ætti sennilega að byrja að ljúga því að ég sé fæddur '83.

21 september 2005

Við sendum

Hérna í DK er eitt sendibílafyrirtækið sem kannast vel við að fólk eigi í erfiðleikum með að tengja nýjann tækjabúnað og auglýsa því: "Við keyrum ekki í burtu fyrr en allt er komið í gang." Þá var mér hugsað til segulspætunnar hans Tuma og sömuleiðis hálfleiðararæktunartækið sem H.Í. fékk frá Svíþjóð og hefur verið í tvö ár að setja saman. Það hefði verið ógeðslega fyndið að láta vesalings sendilinn púsla þessu saman. "Þú ferð ekkert í burtu væni fyrr en þetta er allt komið í gang" myndi Tumi segja um leið og hann læsir kallinn inni hjá tækjunum.

Klappaður á svið

Það er gaman að koma aftur úr ferðalagi og sjá að beðið er eftir heimspekilegu innleggi mínu í annars hversdagslega tilveru. Ha? Varstu í ferðalagi? Já það var ég. Ég og vondi Björn (sem er m.a. ábyrgur fyrir síðustu færslu). Áttum saman kvöldverð á föstudaginn og síðan fór ég í þessa líka frábæru ferð. Það var æðislegur staður sem heitir Hvergiland. Þar sem ég barðist við vonda sjóræningja og bjargaði fallegum indjánaprinsessum úr klóm þeirra.
Síðan þegar ég kom aftur, seint í gærkvöldi, komst ég að því að vondi Björn hafði verið óheppnari en ég í máltíðinni áðurnefndu. Greyið hafði fengið einhverskonar matareitrun og búið inni á klósetti síðan á föstudaginn með illt í maganum og víðar. Það er líka bara mátulegt á hann fyrir að vera svona vondur.
En þið getið tekið gleði ykkar á ný því núna verður væntanlega ekki frekari töf á blogfærslum mínum, þar sem það eru ekki fleiri ferðalög á dagskrá alveg á næstunni. Nema Krókur kafteinn geri vart við sig á ný í Hvergilandi og ég verði kallaður út.

17 september 2005

Powered by Kingston

Þau ykkar sem halda því fram að bloggið mitt í dag sé eitt af þeim kröftugri hingað til eru sennilega að njóta ávaxtar aukins vinnsluminnis sem ég setti í tölvuna mína. Já, gamli skrjóðurinn fylltist gjörsamlega af lífi við að fá nokkur auka megabæt. Núna get ég hæglega keyrt fleiri en tvö forrit í einu. Núna eru t.d. Word, Skype, iTunes og Firefox í gangi og samt er allur þessi aukakraftur eftir í tölvunni til að skila þessu mjög svo magnaða bloggi. Já ... einhvern daginn, þegar þið eigið nógu mikinn pening, þá getið þið líka fjárfest í aukaminni og prófað hvernig það er að hafa 256 MB eins og ég.

16 september 2005

11.000 kr lestarferðin

Ég fór inn til Fredriksberg í kvöld. Þar fékk ég dýrindis kvöldverð hjá Jóhönnu frænku minni. Milli níu og tíu hjólaði ég síðan áleiðis til Hovedbanegården. Ég hef hjólað þetta nokkrum sinnum, þ.a. það tekur orðið enga stund að bruna þetta. Ég hjólaði framúr drukknu pari sem sveigði fram og til baka á hjólastígnum með bjórflöskuna hátt á lofti. Þau köstuðu einhverri danskri kveðju til mín. (Note to self: fletta upp tøser í orðabókinni). Ég kom tímanlega í lestina og fékk fínt sæti. Við hliðina á mér settust tveir, frekar háværir, einstaklingar. Þeir voru með kippu af bjór og töluðu látlaust í símann. Á endastöðinni kemur miðavörðurinn og athugar miðana hjá öllum. Þá kom í ljós að þeir höfðu ekki keypt miða og þurftu því að borga sektina, 500 DKK kall á kjaft. Takk fyrir það.
Þeir tóku þessu þó ótrúlega vel. Voru mjög kurteisir við miðavörðinn og gáfu honum allar upplýsingarnar. Útskýrðu kurteisislega að þeir hefðu ætlað að freista þess að spara sér miðaverðið. Tóku við sektinni og kvöddu pent. Síðan, fyrir utan, hlógu þeir bara og annar sagði við hinn: "Við hefðum átt að kaupa miða!".

Morgenfødselsdag

Hér á bæ tíðkast það að þegar einhver meðlimur úr eldhúsinu á afmæli er haldinn Morgenfødselsdag. Í dag var einmitt einn slíkur atburður. Tveir aðilar áttu afmæli og voru því allir reknir úr rekkju klukkan 6:45 til að syngja afmælissönginn og troða sig síðan út af rúnstykkjum. Það var ótrúlega dræm mæting, þar sem ekki allir vilja láta vekja sig klukkan 6:45 og þeir sem mættu (mjög líklega að virðingu við afmælisbörnin frekar en vilja til að vakna snemma) voru að öllu jöfnu grútmyglaðir og drógu ýsur við matarborðið. Fyrir vikið fannst mér afmælissöngurinn hálf kraftlaus.
Það var fundið að því að ég gat ekki tekið undir afmælissönginn, þar sem ég kann hann ekki. Ég gerði heiðarlega tilraun til að finna hann á netinu, en það tókst ekki. Ég gat aðeins fundið annan afmælissöng, sem er öllu vinsælli. það væri því vel þegið ef einhverjir dönsku sinnaðir aðilar gætu bent mér á textann við þessu lagi. Lagið er þannig uppbyggt að afmælisbarnið velur sér eitt eða fleiri hljóðfæri og síðan er sunginn smá texti, sem lýsir yfir hver eigi afmæli og síðan er sagt (á dönsku) eitthvað í líkingu við: "og hlustið nú á þegar við spilum á ". Síðan er lagið sungið aftur, öllu sterkar, og í stað orða þykist hópurinn spila á viðkomandi hljóðfæri með tilheyrandi gutli og gauli.
Síðan er öllu slúttað með því að staupa rammáfengum veigum, yfirleitt jägermeister eða gammle dansk.

15 september 2005

Strákurinn sem hvarf

Það fór sennilega fram hjá fáum þegar ég montaði mig í hvívetna yfir því að vera að þyngjast um svo og svo mörg grömm á dag yfir margra mánaða skeið. Ég hóf nýja mælingu eftir að ég fór að búa sjálfur hérna í Lyngby og fyrstu mælingar eru sláandi. Þær eru strangt einhalla og minnkandi. Ef eitthvað er að marka þetta þá hef ég lést um 1kg síðan ég kom hingað. Í hverri einustu mælingu er ég léttari en í þeirri fyrri og nú er ég kominn undir 80 kg. Til viðbótar mæli ég mig hér í íþróttafötunum og skóm, en heima var ég kviknakinn. Mælipunktarnir eru kannski ekki nógu margir til að draga þessa ályktun svona fljótt, en þetta vekur hjá mér nokkurn ugg.
Fyrir þau ykkar sem ekki hafa fylgst með mér monta mig af frábærri eldamennsku minni hérna á síðunni vil ég segja að ég er ekki illa haldinn matarræðislega séð. Ég borða aldrei færri en þrjár máltíðir á dag, stundum fjórar. Ég borða nær alltaf tvær eldaðar máltíðir en morgunnmaturinn er oft jógúrt eða hafragrautur. Til viðbótar við þetta elda ég yfirleitt uppskriftir fyrir fjóra, sem endast yfirleitt í eina til tvær máltíðir. Ég mun halda mælingum áfram og láta ykkur vita, ef það þá verður eitthvað eftir af mér.

Hópsamstarf

Ég er, eins og svo oft, að vinna í hópavinnu hérna við DTU. Í einum hópnum er ég m.a. að vinna með kínverskum strák sem heitir Ming. Hann er fínn náungi og alltaf tilbúinn að útskýra og fræða ef maður hefur spurningu um ríkið í miðið. Á morgunn á hópurinn að skila inn ákveðnu uppkasti og fyrir vikið fóru nokkrir klukkutímar í að ræða hvað ætti að vera í því. Síðan fékk ég það verkefni að setja þetta upp á tölvu (þar sem ég var hraðasti vélritarinn). Ég fylgdi eftir punktum fundarinns eftir bestu getu og setti svo inn á sameiginlegt skráarsvæði undir titlinum drafts. Því næst sendi ég póst til hinna hópmeðlimanna og bað þá að lesa yfir og koma með tillögur. Ming var ekki lengi að og kom með Second Draft. Þegar ég opnaði skjalið reyndist þetta vera gjörbreytt útgáfa. Það var ekki neitt af því sem var í upphaflega skjalinu, nema nöfnin á hópmeðlimum (en þau voru á öðrum stað). Mér fannst það svolítið fyndið. Hann leggur fram e-ð undir titlinum annað uppkast og gerir svo ráð fyrir að enginn fatti að það er breytt í hans þágu. Ég gerði nokkrar breytingar og athugasemdir. Ég ætla samt ekki að kvarta, mér fanst hans uppkast vera meira í samræmi við mitt áhugasvið. Það er bara spurning hvað hinir segja.

Þytur í laufi

Það er tekið að hausta hérna í mörk dana. Trén tekin að skipta litum, lauf byrjuð að falla og orðið frekar kalt. Í dag var ekki nema 15 gráður. Þó er búið að spá góðu veðri um helgina, þ.a. það á kannski eftir að kreista smá dropa úr sumrinu enn.

14 september 2005

Hagkvæmt og ... lélegt úrval

Ég fór í Netto, sem á að heita ódýrasta matvöruverslanakeðjan í Danmörku. Ég hef alltaf verslað mína matvöru þar. Verðin eru svo sem ekkert ótrúlega lág, en þau eru með því lægsta sem gerist hérna. Ef ég ætti að bera þetta saman við Bónus heima þá mætti segja að þetta sé nokkuð svipað nema að hér finnst mér úrvalið vera verra. Enn fremur fer það ótrúlega í taugarnar á mér að ef vara selst upp þá getur verið heillangur tími þangað til að hún kemur aftur. Þetta eru líka ekki bara fágætismunir sem vantar. Hlutir sem ég hef ætlað að kaupa en þurft að hverfa frá, vegna þess að þeir voru uppseldir, eru m.a. sojasósa, svartir ruslapokar, kanel, paprika, léttmjólk og laukur. Meira segja liðu tvær vikur án þess að ég fengi kanel. Ég veit að hann átti að vera til því það var tóm hilla með verðmerkingu á kanel í búðinni. Þ.a. Bónus hefur sigurinn í þessari keppni að mínu mati.

13 september 2005

Langur þriðjudagur

Í dag var langur þriðjudagur hjá mér. Ég var á ferð og í tímum, meira og minna, frá því snemma í morgunn og seint fram á kvöld. Í morgun var fundur hjá öðrum hópanna sem ég er í þar sem farið var yfir stöðu mála í verkefni sem við erum að vinna. Í þeim hópi eru m.a. tveir menn frá Ghana. Það kom í ljós að í Ghana er eitt fyrirtæki sem hefur lögbundinn einkarétt á öllum tal-fjarskiptum. Sem er kannski ekki svo skrítið miðað við hvað þekktist á íslandi fyrir nokkrum árum, en það sem mér finnst undarlegt (en kannski skiljanlegt) þá er VoIP tækni (t.d. Skype) ólöglegt, þar sem það býður talsamband í samkeppni við þetta eina fyrirtæki. Og ef ég skildi þetta rétt þá ræðst þetta fyrirtæki, með ríkið sem sinn bakhjarl, harkalega að þessu lögbroti. Ég er svo tölvutæknilega sinnaður að ég sé ekki neinn mun á því að nota netið til að tala við fólk, eða skrifast á við það. Ætli það væri löglegt að senda video (með engu hljóði) og fólk gæti talað saman á táknmáli?
Eftir hádegi var ég svo í tíma eða öllu heldur þremur-og-hálfum-tíma, eins og þetta ætti að heita þar sem farið var yfir efni á snigilshraða með löngum stoppum til að athuga að allir skildu allt. Ég varð í fyrsta skipti vitni að því að vera með íslendingi í tíma þarna. Sá heitir Haukur og er í IT-Diplom námi. Hann sagði að svona hæga yfirferð hefði hann aldrei séð áður í DTU. En þetta var líka fyrsta fagið sem ég man eftir að hafa verið í, þar sem ætlast var til að nemendur hefðu með sér fartölvu í tíma.
Eftir fimm fór ég síðan í heljarlanga strætóferð niður til Øster Voldsgade 12 sem margir Íslendingar kannast við sem hús Jóns Sigurðssonar. þar fór fram fyrsta æfing mín með kórnum Stöku. Það kemur í ljós að ég þekki annanhvern aðila í þessum kór, þ.á.m. bræðurna Hjört og Ingva, Láru (kærustu Óla Hauks) og Svövu, sem ég var með í bekk á fyrsta ári í MR. Voru mikil fagnaðarlæti þegar þessi fríði hópur hittist. Þetta er nokkuð löng ferð að fara á æfingar, en ég held að ég reyni að vera með því félagsskapurinn er góður, metnaðsfull markmið og þarna er líka flygill sem hægt er að taka í við tækifæri.
Ég kom ekki heim fyrr en rétt um hálf ellefu og kvöldmaturinn að þessu sinni var hafragrautur og jógúrt.

12 september 2005

Staka

Ég fékk mjög skemmtilegt ímeil í gær. Það var frá strák, að nafni Hjörtur, sem ég hef ekki hitt í hátt í áratug. Hann bauð mér að ganga til liðs við kórinn Stöku, sem er íslenskur kór sem æfir í Jóns Húsi í Kaupmannahöfn. Ég var mjög feginn að fá slíkt tilboð, en það er mér með öllu óljóst hvernig hann komst að því að ég væri í Danmörku og ennfremur hvernig hann hafði upp á nýja E-mailinu mínu, sem ég hef ekki notað nema rétt tæpan mánuð.

NEMA ...

hann lesi þessa síðu. Sem mér finnst ólíklegt ... en ef það er rétt þá býð ég 6. lesanda minn hjartanlega velkominn. Má maður annars telja sjálfan sig með? Við skulum kalla hann lesanda númer 5 til 6 svo allt sé öruggt.

Tíðni og reglugerð

Ég varð vitni að merkilegum atburði í dag. Ég sat í fyrirlestri og tveimur sætaröðum fyrir framan mig sitja m.a. kínversk stelpa og danskur strákur. Þetta væri ekki frásögu færandi nema hvað að stelpan spyr skyndilega strákinn, "Excuse me, what is frequency". Jæja, hugsaði ég, ég er þó ekki einn um að hafa takmarkaðann orðaforða, en eftir að strákurinn hafði gert sitt besta við að reyna að útskýra hugtakið á sem einfaldastri ensku og stelpan búinn að kinka mikið kolli og jánka öllu spyr hún "What is regulation" (N.B. þetta er hagfræðitengdur kúrs þ.a. regulation þýðir hér reglugerð). Strákurinn tekur sér aftur góðann tíma til að útskýra þetta. Stelpan jánkar öllusaman og segist skilja, en spyr svo loks, "what is difference of frequency and regulation". Að mínu mati var þessi stelpa alveg úti á þekju. Enskukunnátta er mikið upp og ofan hjá alþjóðlegum nemendum hérna, en ég skil ekki hvernig þessi stelpa komst inn í skólann með þessa kunnáttu. Fyrir International námið hérna er gerð krafa um TOFEL prófið og að mínu mati reynir það nógu mikið á skilning og getu í ensku til að þetta eigi ekki að koma upp. Strákurinn gafst loks upp og benti stelpunni mjög kurteisislega á að slá þessu upp í orðabók.

10 september 2005

En gang til

Jeg forstår ikke hvad du siger. Undskyld, men kan du tale langsommere? Hvad siger du? Þetta eru dönsku setningarnar sem ég notast oftast. Ég að öllu jöfnu a.m.k. tær þeirra í hverju samtali óháð fjölda orða sem fólgnar eru í samtalinu. T.d. var ég að spjalla við stelpu í gær og hún spurði mig um alls kyns einfalda hluti og mitt fyrst svar var alltaf Hvad siger du? eða En gang til, með tilheyrandi spurnar/ég-skil-ekki-neitt augum. Þetta er ferlegt. Er ekki einhver tungumálasnillingur sem getur kennt mér óaðfinnanlega dönsku á c.a. viku. Það væri fínt.

09 september 2005

Einn dagur eftir

Nei, ég er ekki að spá fyrir um heimsenda eða með þunglyndislega sjálfsvígsyfirlýsingu heldur er ég hér að vitna í áætlaðan tíma sem ég þarf að bíða eftir að hljómborðið mitt komi frá Íslandi. Ef heppnin er með mér gæti það sem sagt komið hingað á morgun. Heima fannst mér alltaf leiðinlegra að spila á hljómborðið heldur enn alvöru píanóið, en eftir að hafa verið í píanósvelti í þrjár vikur núna er mig farið að klæja í fingurnar. Ég hef ekki liðið svona langan píanóskort síðan í Malasíu-Singapore-Thailand-heimsókninni rómuðu í maí/júní 2004. En það er reyndar af nógu að taka hérna, þ.a. ég sit ekki auðum höndum. En tónlistarlega séð hef ég verið nokkuð illa haldinn undanfarið og eygi nú fljótlega bót á því. Ég byrjaði enn eitt hópasamstarfið hérna. DTU menn halda ekki vatni yfir þessari hópavinnu. Alltaf á að vinna í hópum. Ég get þó ekki kvartað yfir félagslega þættinum. Maður kynnist ógrynni af fólki. Alþjóðleg tengsl myndast. Mig vantar enn fulltrúa frá Norður- og Suður-Ameríku og þá eru allar heimsálfurnar dekkaðar. Reyndar hef ég ekki enn fulltrúa frá Suðurskautslandinu, en látum það liggja á milli hluta.
Ég var fúll yfir því um daginn hvað fartölvan mín keyrir ótrúlega hægt. Fullviss um að hún væri full af vírusum og spyware-i fór ég í gegnum margratíma feril með margvíslegum víruleitarforritum til að finna sökudólginn. Eftir mikinn tíma og fyrirhöfn lágu fyrir laun erfiðisins og illvirkinn fundinn. Tölvan mín var tandurhrein. Fjögur ólík óværugreiningarforrit gátu ekki fundið neitt að henni. Tölvan mín er einfaldlega hæg. Ég komst samt að því að vandinn er sennilega vinnsluminnið. Tölvan mín hefur 128 MB vinnsluminni, sem þýðir að þegar ég hef netvafra í gangi hef ég í besta falli 6-10 MB fyrir önnur forrit. Þess vegna keyrir tölvan mín hægt. Ég vil vera á netinu, vinna í ritvinnsl og hlusta á tónlist allt í einu. Núna þarf ég því að finna mér bútík sem selur vinnsluminni í gamlar fartölvur á þolanlegu verði. Fyrir aðra í tölvukaupapælingum (hér í danmörku) get ég þó bent á sniðuga síðu: edbpriser.dk sem Haraldur, kollegi minn úr MT-Metra, vísaði mér á. Þar er hægt að finna góð kaup víðast hvar í Danmörku.
Svakalega er þetta bloggdót mitt asnalegt, þ.e.a.s. ég kann ekki að blogga. Þarf að taka Blogg 101, eða lesa mig til í fræðunum.
Mér finnst eins og mínar blogfærslur séu ómarkvissar og ... tjah ... ómerkilegar. Hef ég kanski ómarkvissa sýn á umheiminn, eða gerast bara ómarkvissir hlutir hérna. Mér finnst að minnsta kosti frekar asnalegt að puðra út úr sér mörg hundurð orðum um ekki neitt ef maður getur ekki einu sinni sett það hnitmiðað eða skemmtilega fram. Æ ... ég veit ekki.

07 september 2005

Køkken Møde

Í gærkvöldi var fyrsti eldhúsfundurinn í eldhúsinu mínu (eldhúsi 100). Eldhúsfundir eru samkomur þar sem tekið er á málum sem þarf að taka á. Þar á meðal voru nýjir innflytjendur formlega boðnir velkomnir. Það kom í ljós að það voru alls konar siðir og venjur sem viðgangast við komu nýrra íbúa. Ég geri ráð fyrir að þessar venjur séu gamalgrónar, en ekki ákveðnar á eldhúsfundinum fyrir komu nýja fólksins. En þessar venjur voru m.a. að sá nýinnflutti átti að nafngreina alla hina sem nota eldhúsið og bjóða upp á umgang af öli. Síðan var tekið á hinum ýmsu málum, sem snéru m.a. að hreinlæti eldhússins og skorti á eldhúsmunum, og að lokum voru lesnar upp reglur eldhússins.
Ég, sem var eini aðilinn sem ekki hafði búið í Danmörku frá barnæsku, reyndi af veikum mætti að fylgjast með hinni leyfturhröðu dönsku. Það tókst, að ég held, að láta alla halda að ég skildi fundinn með því að brosa og kinka kolli í hvert sinn sem einhver horfði í áttina að mér.
Eftir fundinn var boðið upp á súkkulaðiköku sem var ágætt þar sem ég var kominn með krampa í andlitið og hálsríg af öllu bros- og kinka-kolls-ruglinu. því næst var farið niður í kjallarabarinn þar sem allt var á fullu. Þar var live tónlist og fólk í þrumustuði.
Barinn heitir Nakkeosten. Ég er ekki viss hvað það þýðir en ein stelpan sagði að ég yrði að spyrja e-n strákinn að því hvað það þýddi því hún vildi ekki segja það. Politikens Nudansk Ordbog segir auk þess ekki neitt um þetta. Kannski er best að láta þetta orð kyrrt liggja. Sem sagt orð dagsins er ekki nakkeost.
Ég kynntist þessum þremur einstaklingum sem vantaði upp á í eldhúsinu í gær. Af þeim heitir einn Bjarke. Bjarke þessi er mikill áhugamaður um málfræði (að því er virðist) og var mjög tilbúinn að gefa mér ábendingar um hvort tveggja framburð og málnotkun. Auk þess fór hann rækilega yfir reglur eldhússins skellihlæjandi því það var svo mikið af villum í þeim. T.d. stóð víst (þó svo ég hafi ekki skilið það) að þeir sem gegni stöðu viskustykkjaþvottamanna eigi EKKI að þvo viskustykkin. Einnig stóð að henda ætti öllum matarleifum og rusli í vaskinn en ekki úr vaskinum eins og ætla mætti.
Dagurinn í dag verður bara skipulags- og heimanámsdagur. Kannski fer ég í íþróttasalinn í kvöld. En það styttist óðum í hinn örlagaríka dag að ég þarf að þvo þvottinn minn í fyrsta skiptið. Ég geri ráð fyrir að point-erar frá Ástu, Ásdísi, ömmu og fleirum ásamt So You Wanna síðunni komi til með að bjarga mér. Annars eru nú aðeins þrír dagar þangað til að hljómborðið mitt kemur. Og ekki seinna vænna.
Segjum það þá. Orð dagsins er indflydelse sem þýðir áhrif.

05 september 2005

Í dag dróg til tíðinda !

Reyndar dróg ekki til tíðinda, en þar sem blogg gærdagsins var svo þunglyndislegt ákvað ég að hafa smá mótvægi í fyrirsögninni í dag. Í dag komst ég að því að þriggja tíma fyrirlestrar eru algjör dauði. Fyrir þá sem ekki vita þá er fyrirlestrarformið hér við DTU þannig að deginum er skipt í þrjú hólf. Þau eru morgunn (frá 8 til 12) dagur (frá 13 til 17) og kvöld (man ekki alveg tímabilið). Kvöldin eru held ég sjaldnast notuð, og þá sennilegast fyrir tímafreka verkefnavinnu sem ekki dugir venjulegur vinnudagur til. En hvað um það aðalhólfin tvö, morgunn og dagur, sem hvort um sig er fjórir tímar eiga aðeins að rúma einn fyrirlestur hvort. Það þýðir fjögurra tíma fyrirlestrar. Meðalmaður heldur einbeitningu í 40 mínútur þ.a. oftast er þessum löngu fyrirlestrum skipt upp í klukkutímalangar lotur. Ég er svo blessunarlega heppinn að allir mínir fyrirlesarar eru annaðhvort latir eða snjallir þar sem ég er aldrei lengur en þrjá tíma í fyrirlestri í einu. Ég, ólíkt meðalmanninum, held athygli í korter. Þar af leiðandi er ég algjörlega kominn í annan heim eftir klukkutíma, hvað þá þrjá. Efni fyrirlestranna er áhugavert, en ég bara hef ekki athyglisþjálfunina ennþá.
Ég var að spjalla við vin minn. Sá er frá Ghana og var mjög forvitinn um Ísland og íslendinga. Honum þótti ótrúlega fyndið að mér þættu 25 gráðu hiti helst til mikið. Hann alveg kappklæddur. Honum þótti enn fyndnara að heyra að íslendingar væru aðeins 300.000, þegar ég síðan áréttaði að reyndar væru þeir nær 290.000 þá ætlaði hann alveg að rifna úr hlátri. Hann er fínasti náungi, þó svo honum þyki ekki mikið koma til fólksfjölda á íslandi. Mér þótti samt merkilegt að hann kannaðist yfir höfuð við Ísland. Maður hefði haldið að fólk frá Afríku hefði lítinn áhuga á litlu skeri, nyrst í Atlantshafi. Hann sagði samt að honum þætti gaman að kíkja þangað við tækifæri.
Ég er farinn að finna fyrir hversu margir nota eldhúsið saman. Þá á ég ekki við að ég komist ekki að, heldur er ég að hitta nýtt fólk nánast á hverjum einasta degi. Eins og er hef ég hitt: Ismail, Trine, Nis, Hilde, Kasper, Simon, Christian, Mads, David (Qingxin Zhang) og auk þeirra einn dana og einn kínverja, hverra nöfn ég man ekki. Þetta eru 11. Það þýðir að ég á enn eftir að hitta 3. En það þýðir kannski bara fleiri vinir ... vonandi.
Ég las á blogginu hennar Kollu að hún hefði metnað til að læra mörg ný orð á dag. Ég man ekki hvort hún nefndi tölu en ég man að talan 5 var of lág. Ég aftur á móti hef vaðið fyrir neðan mig og stefni að því að læra eitt nýtt orð á dag. þau mega vera fleiri en einn er lykiltalan. Hérna kemur svo orð dagsins í dag piskeris. Ég ætla ekki að segja ykkur ignoröntunum hvað þetta þýðir, en ég skal segja ykkur að þetta var notað til að búa til eggjahræru með steiktum kartöflum. Over and out.

04 september 2005

Ekkert að frétta

Nú fá þeir það í hausinn sem stungu upp á að ég bloggaði á hverjum degi. Í dag gerðist nefninlega ekki neitt og mun ég því masa um það í nokkurn tíma til að mæta áðurnefndum blogg-kvóta.
Ég horfði á video í gærkvöldi. Kom mér fyrir upp í rúmi með fartölvuna og nýju Sennheiser heyrnartólin. Myndin var Secret Window, sem er byggð á smásögu eftir Stephen King. Hún var ágæt...

Vá hvað þetta er leiðinlegt blogg. Jæja hérna kemur örstutta útgáfan af deginum í dag.
Ég vaknaði. Borðaði morgunmat. Nennti ekki að læra og hjólaði út í búð og keypti í kvöldmatinn. Eldaði þrefaldan skammt af kjötbollum. Borðaði þriðjung af honum. Tókst því næst að læra fram að kvöldmat. Borðaði annan þriðjung af kjötbolluskammtinum. Lærði lengur. Nennti ekki að læra og bloggaði. Nenni ekki að blogga og er farinn aftur að læra. Kannski gerist eitthvað á morgun. Ef ekki er hætta á að ALLIR dyggu lesendur mínir (fimm) snúi sér að öðrum bloggum.

03 september 2005

Sólarhringur í Svíþjóð

Í gær var slegið til og ferðast yfir til Svíþjóðar. Ég, Ari og Steini mæltum okkur mót inni á Hovedbanegaarden og tókum svo lestina yfir Eyrasundsbrúnna og til Lundar. Ég fæddist í Lundi og fannst mjög gaman að koma aftur á æskuslóðirnar. Ég mundi eftir sumum stöðum, eins og dómkirkjunni en þetta var samt allt frekar ólíkt minningunni. Allt var stærra. Þetta er engu að síður heillandi bær.
Veðrið var fínt og við komum til Lundar um fimm. Við vorum varla stignir á brautarpallinn þegar heyra mátti Dancing Queen með ABBA óma um göturnar. Siggi tók á móti okkur og tók okkur í smá kynnisferð um miðbæinn. Andri kom síðan og hitti okkur og við fórum og keyptum grillmat og meðlæti. Þá var farið heim til Sigga og grillað. Meðan grillið hitnaði var spilaður leikurinn kubb sem er þjóðaríþrótt svía (eða Sigga a.m.k.). Leikurinn fellst í því að fella ferhyrnda kubba andstæðingsins með því að henda sívölum kubbum í þá án þess að fella stóra ferhyrnda kubbinn með kórónuna (kónginn) á miðjum vellinum. Ég nenni ekki að fara út í smáatriðin, en þetta getur verið furðu skemmtilegt. Stefán Ingi bættist í hópinn og grillaði með okkur reyndar var það Steini sem grillaði, en við veittum honum andlegann stuðning frá kubb leikvellinum. (With friends like these ...). Eftir matinn var spjallað auk þess sem Pálmi bættist í hópinn. Það var sænskt partý í gangi á sama tíma, en þjóðflokkarnir tveir héldu sig að mestu hvor í sínu horninu. Ari, Andri og Siggi sýndu allir leikni sína (eða lack-there-of) á gítarinn við mikinn fögnuð áheyrenda. Síðan fór liðið að undirbúa sig undir að fara í bæinn. Þá hringdi Júlli og vildi bætast í hópinn, þ.a. brottför var frestað meðan beðið var eftir honum. Við þetta tækifæri var spilað meira á gítarinn. Þegar Júlli kom var hringt á leigubíl og farið út úr húsi. Kom þá í ljós að Júlli vildi ekki fara niður í bæ heldur vera í partý-inu, en þar sem það var búið fór hann aftur til síns heima. Hann fékk því lítið út úr komunni annað en röskann hjólatúr.
Í bænum var farið á stað sem heitir Basilikan. Þetta er annar af tveimur megin stöðum í Lundi. Staðurinn var allt í lagi. Það var ekkert sérstaklega mikið af fólki, en þetta var heldur ekki sérstaklega stór staður. Það sem kom mér svolítið á óvart var að þarna var rekið fjárhættuspil. Fólk (jafnvel í mjög annarlegu ástandi) gat spilað 21 þarna. Siggi og Andri sögðu mér að þetta væri mjög algengt á skemmtistöðum í Svíþjóð og fjárhættuspil mjög algeng meðal unglinga. Mikið væri um að ungir svíar spiluðu póker á netinu. Ég horfði þarna á hóp af krökkum spila frá sér peninga, nema Steini sem fór frá borðiðnu 120 SKR ríkari en hann kom. Eftir að staðnum var lokað var rölt heim á leið, þ.e.a.s. heim til Sigga og Andra, en þeir skutu yfir okkur ferðalangana skjólhúsi þessa nóttina. Skortur var af rúmplássi, eða rúmum öllu heldur, þ.a. Siggi og Ari urðu að láta sér lynda að deila rekkju.
Daginn eftir var frábært veður (of heitt ef eitthvað). Farið var út í garð og spiluð smá úr-að-ofan útgáfa af Kubb. Því næst var farið með strætó niður í miðbæ. Þar fékk liðið sér að borða og loks var haldið heim, eftir annsi vel heppnaða Lundarferð.

01 september 2005

Bloggað eins og vindurinn

Jæja. Núna loksins ætti öll tölvuvitleysan að vera úr sögunni. Ég er kominn með nettengingu inn á herbergið til mín og get núna bloggað úr minni eigin tölvu á mínum eigin tíma. Hvað hefur nú gerst síðan síðast? .... Hmmm .... Ég er byrjaður að elda sjálfur (Váááááááá...) Meðal rétta sem ég hef framreitt eru Chili con Carne, steiktur Þorskur og ekta danskar fríkadellur, sem ég N.B. bjó til frá grunni, ekki þessar ógeðslegu tilbúna pakkadellur sem sauðsvartur almúginn borðar. Auk þessa er ég hagsýnn og versla í Netto (Netto er danska og er útskýrð í Politikens Nudansk Ordbog sem: lágverðsmatvöruverslun í anda Bónus). Ég hef verið duglegur að hjóla og duglegur að kanna Lyngby og nágrenni. Ekki viljandi. Ég hafði komist að því að það var önnur Netto verslun, sögð nær en sú sem ég versla í venjulega. Ég fann hana á netinu og hjólaði af stað. Ég tók ranga beygju einhversstaðar og var kominn inn í skóg. Hjólaði framhjá e-u vatni og yfir lestarteina og kom út einhversstaðar í Gentofte eða guð-veit-hvar. Það eitt er víst að það sem átti að vera korterstúr út í búð varð hjólreiðaferð upp á hálfan annan tíma. Ég ákvað að versla bara í Netto versluninni sem ég ratað í og úr.
Ég þráast við og nota bara dönsku. Ég er farinn að finna fyrir miklum tjáningarerfiðleikum sökum takmarkaðs orðaforða, en fólk er furðu þolinmótt. Meira að segja gjaldkerinn í bankanum tók sér tíma aflögu til að útskýra fyrir mér hvernig skal beðið um að taka út pening.
Björn: Goddag jeg skal tage penge ut af mitt konto.
Gjaldkeri: Ja, selvfølgelig.
Hún bíður í smá stund ... og segir svo kommer du fra Island?
Ég svara því játandi.
Det er bedre hvis du siger, Jeg skal have penge fra min konto.
Síðan var farið yfir framburðinn nokkrum sinnum áður en ég fékk svo peningana. Þ.a. alltaf læri ég eitthvað nýtt. Skólinn er byrjaður á fullu og ég er þegar farinn að kynnast nýju fólki. Dönum hér á kollegíinu og þversniði af öllum heiminum í tímum (að dönum undanskildum).
Á morgunn er hugmyndin að taka lestina yfir til Lundar og hitta hóp af krökkum sem voru með mér í verkfræðinni heima. Það verður frábært. Ég er ekki viss hversu margir verða þar en það verður spennandi að sjá. Hugmyndin er (held ég) að grilla og kíkja svo hugsanlega niður í bæ. Seinna verður svo hittingur í Köben.
Ég veit ekki alveg hvað ég ætti að segja meira, veðrið er frábært og ég er kominn með einstaklega fína verkamannabrúnku, hvítan bol und alles. En semsagt ég er að hugsa um að skrifa ekki neitt í vi...