22 mars 2007

Fyrir þau sem hafa áhyggjur ...

en hafa samt ekki spurt, þá er ég ekki veikur lengur. Veikindin entust í 10 daga og var ég svo heill heilsu á ný. Eða næstum heill heilsu þar sem ég hef þurft að glíma við bólgu í rakakirtli í auga og munnvatnskirtli. En þess utan þá er ég loksins aftur byrjaður að hreyfa mig. Ég kom til Danmerkur með þá hugsjón að leggja ríkulega stund á íþróttir. En þegar á hólminn var komið (Danmörk samt of flöt til að kallast hólmur) varð ég veikur eins og áður sagði og lítið sem ekkert varð því úr þessari göfugu hugsjón. Ég lét mig nú samt hafa það (þrátt fyrir bólgin rakakirtil í auga) að mæta í taekwondo að nýju stuttu eftir að veikindum lauk og er loksins að koma reglu á íþróttirnar.
Síðustu helgi var kóramót íslenskra kóra erlendis haldið í Kaupmannahöfn í boði Stöku, Íslenska Kvennakórsins í Kaupmannahöfn og Kórs íslenska safnaðarins í Kaupmannahöfn. Alls voru níu kórar sem komu frá norðurlöndum og Englandi og gleði mikil var allsráðandi. Ofanritaður danverji tók líka þátt í hátíðarhöldunum og óaðspurðir sögðust aldrei hafa séð þvílíkt glæsimenni stíga á dansstokk, að minnsta kosti ekki þá undanfarinn hálftímann.

01 mars 2007

Veikindi

Ég er lasinn. Ég varð lasinn síðasta laugardag og hef verið lasinn síðan. Í fyrstu var þetta smá óþægindi í hálsi og ég var viss um að þetta yrði búið á mánudaginn, annað kom í ljós. Ég get samt ekki kvartað mikið (þó ég sé að því núna) því ég er ekki illa haldinn, engir meiriháttar verkir eða óþægindi ennþá. Það versta var bara nefstíflan sem ég fékk á mánudaginn og þriðjudaginn. Ég gat ekki andað með nefinu að neinu leiti og var sívaknandi um næturnar sökum öndunarerfiðleika auk þess sem ég var ógeðslega þurr í hálsinum og munninum af því að anda alltaf gegnum munninn. Það var því þvílík blessun í gær þegar hægri nösin skyndilega opnaðist og ég gat sofið óslitið um nóttina. Í stífluörvæntingunni hafði ég leitað á náðir óhefðbundinna lækninga og prófaði ráð sem voru gefin á þessari síðu frá mind-energy.net, sem byggist á því að nudda orkusvæði líkamans. Hvort sem það er þessum ráðum að þakka eða ekki að hægri nösin opnaðist verður hugsanlega aldrei hægt að sanna. Það er þá bara spurning hvað ég geri við vinstri nösina.