30 maí 2006

Forårskoncert

Tema: Kærligheden i foråret
Værk af
Islandske unge komponister og nogle få ældre: bl a. Hildigunnur Rúnarsdóttir, Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson, Snorri Sigfús Birgisson, Stefán Arason, Tryggvi M. Baldvinsson ofl.

En dansk ældre komponist : Vagn Holmboe
En engelsk meget ældre komponist : Morley

Vær velkommen til koncerten som holdes i Københavns Bymuseum Onsdag d. 31. maj kl. 19:00 Vesterbrogade 59. Entré 50 kr - fordi det man skal betale entré til museet, og vi tager en lille del også. Så mød op tidligt og kig på museet først.

27 maí 2006

Gambit

Þriðja kvikmyndin um X fólkið er að floppa þessa dagana í kvikmyndahúsum um víða veröld. Ég var að lesa mér til um eina persónuna, sem komst víst ekki í myndina. Sú kallast Gambit og hefur þann magnaða eiginleika að geta breytt stöðuorku hluta í skriðorku ..... ég geri það í hvert einasta skipti sem ég missi eitthvað á jörðina. Þessi skrípablaða höfundar eru ekki að leggja sig alla fram að mínu mati.

21 maí 2006

Kvalitetsslik

Ég, eins of fleiri, sit núna yfir námsefni vetrarins og bý mig undir próf. Ég lét undan freistingunni í fyrra dag og fjárfesti í forlátum lakkríspoka. Eins og allir vita eru danir miklir sælgætisframleiðendur og rómaðir fyrir góðan saltlakkrís. Þessi leit sérstaklega vel út með James Bond-lega teiknimyndamörgæs framan á pokanum. "Stærk saltlakrids" stendur á pokanum ásamt yfirlýsingunni "UDEN FARVESTOFFER" í stórum vinalegum stöfum á framhliðinni. Þetta er of gott til að vera satt, hugsaði ég og áður en ég vissi var ég búinn að kaupa pokann. Lakkrísinn bragðast alveg eins og hinar frægu lakkrís "salt pastiller" sem íslendingar kaupa gjarnan í fríhöfninni í Leifsstöð, en er hins vegar eins og flatar skífur í laginu. Eftir gaumgæfilega athugun tók ég eftir því að á bakhlið pokans stendur með örsmáu letri (rétt á eftir innihaldslýsingunni): "Voksenlakrids - ikke børnelakrids". Enn fremur stendur á þýsku (eða flæmsku) "Högstverzehr bei ständigem genuss 25g/Tag". Ég er ekki viss hvað það þýðir, en það hljómar illa. Ég myndi helst ætla að ekki væri ráðlegt að borða allt innihald pokans á sama deginum (pokinn vegur 85 grömm). Samt mætti ekki ætla, af pokanum að dæma, að verið væri að markaðssetja pokann síður til barna en fullorðinna, einkum þar sem James Bond-lega mörgæsin er framan á honum. Hérna er heimasíða nammipokans.

10 maí 2006

Fullkomin helgi?

Ég átti alveg hreint frábæra helgi. Föstudagurinn var reyndar frekar strembinn, þar sem ég þurfti að skila ritgerð, sem ég hafði skrifað í samstarfi við Ými. Ritgerðin hafði haldið fyrir mér vöku nóttina áður, en þá var léttirinn þeim mun meiri að vera laus við hana. Til stóð að bresk hljómsveit að nafni Radiohead héldi tónleika um helgina og hafði selst upp á tónleikana á rúmum tíundahluta úr sekúndu. Ég var ekki í hópi þeirra sem fengu miða. Um vikuna miðja hringdi Siggi nokkur, kenndur við Guð, í mig og segist hafa auka miða sem mér byðist að kaupa. Ég greip þá gæs. Um kvöldið var póker heima hjá Ara, þar sem ég, Grjóni, Ingibjörn og Steini (að ógleymdum Ara sjálfum) öttum kappi um pókerpottinn, skemmst er frá að segja að Þorsteinn gekk heim ríkari en þegar hann kom, einn manna. Ég stóðst ekki mátið að monnta mig af miðanum sem mér hafði hlotnast. "Já, hann Siggi hringdi í mig en ég komst ekki", sagði Ingibjörn, "Ég átti þegar miða þegar hann hringdi í mig" sagði Ari, "Hann hringdi líka í mig" sögðu bæði Grjóni og Steini.
Daginn eftir var ótrúlega gott veður, líkt og fyrri daginn, ég fór á kóræfingu klukkan 4 í Christiansborg Slotskirke, sem er kirkja á fínni kantinum. Þar sem veðrið var svona frábært þá lagði ég snemma af stað og gekk um miðbæinn í glampandi sólskini. Keypti meyra að segja pylsu í tilefni veðursins. Síðan fór ég í krókaleiðum af æfingunni á tónleikana. Tónleikarnir voru í sem fæstum orðum sagt geggjaðir. Ég held hreinlega að þetta hafi verið bestu tónleikar lífs míns (þ.e.a.s. fyrir utan þá tónleika þar sem ég kem sjálfur fram, auðvitað). Siggi veitir aðgengi að einhverskonar minnismerkjum um tónleikana, og hann er ekki einn um það. (Hérna má sjá síðuna hans Sigga).
Á sunnudeginum söng ég sjálfur tónleika með aðstoð kórsins Stöku. Þeir voru haldnir í Frederiks Bastion, sem er tónleika hús handan Christianíu. Þetta tónleikahús hafði eitt sinn verið hlaða sýndist mér. Þar sem veðrið var (ef eitthvað) betra enn daginn áður og þar sem ég hafði aldrei séð Christianiu, nýtti ég tækifærið og gekk þar í gegn á leiðinni á æfingu. Þó svo að Bastion-ið væri ekki stórt þá var mjög gott að syngja þar, góður hljómburður og svo framvegis. Eftir tónleikana var haldið á Tiki-bar, sem er bátur sem búið er að innrétta sem bar. Ég entist ekki lengi þar en hélt í stað heim á leið. Þar var að byrja grillveisla og var spilað Krokket í sólarlaginu. Ég tapaði.
Til að klára helgina skellti ég mér í bíó, með Ingibirni. Farið var að sjá Mission Impossible 3, sem reyndist hin þolanlegasta skemmtun. Auk þess létti það mér lund að vita til þess að ég væri að styrkja bágan fjárhag Tómasar Krús, sem þarf þessa dagana á hverri krónunni að halda til að standast gagnrýni illmenna á trúarbröðum hans. En þau eru ekki neitt plat.